Þjónustuaðila hafa eins og VIRK þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum vegna COVID19. Við tókum þau tali og lögðum fyrir þau nokkrar spurningar.
- Hafa þarfir einstaklinga í þjónustu verið aðrar s.l tvö ár og þá hvernig?
- Sjáið þið fyrir ykkur einhverjar áherslubreytingar varðandi þjónustuframboð í kjölfar Covid19?
- Hvaða þættir eru það sem skipta máli varðandi farsælt samstarf við VIRK?
Unnur Vala Guðbjartsdóttir sálfræðingur
Covid19 hefur verið álagsþáttur í lífi fólks undanfarin tvö ár og með auknu álagi er meira um streitu og kulnun. Ég tel að þarfir einstaklinga í þjónustu séu svipaðar og þær hafa verið en faraldurinn hefur verið hindrun fyrir marga í endurhæfingarferlinu. Það er þannig mín upplifun að margir hafi þurft lengri tíma til að endurhæfast.
Ég sé ekki fyrir mér að breyta þjónustuframboði hjá mér neitt sérstaklega með Covid19 í huga. En sálfræðingar finna fyrir mjög mikilli eftirspurn og á flestum stofum hafa skapast langir biðlistar.
Fólk virðist almennt vera mjög þreytt og það er töluvert um það að fólk sem er að sækja þjónustu á eigin vegum sé á mörkum þess að þurfa að fara í veikindaleyfi. Margir hafa unnið heima lengi og það hentar alls ekki öllum. Síðustu tvö árin hefur verið minna um félagslegar athafnir og minna um ánægjulegar athafnir – sem bæði er svo nauðsynlegt fyrir okkur til að vera í jafnvægi.
Ég tel að það sem skipti mestu máli séu góð samskipti og mikil samvinna. Ráðgjafar hjá VIRK eru fljótir að svara skilaboðum og alltaf tilbúnir að taka símtöl þegar þörf er á. Það skiptir miklu máli að einstaklingurinn í þjónustu, ráðgjafinn og sálfræðingurinn séu samtaka í að sníða þjónustuna sem best að einstaklingnum. Ég hef átt í mjög góðu samstarfi við ráðgjafa og sérfræðinga hjá VIRK.
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022.
Texti: Anna Lóa Ólafsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason