Unnur St. Alfreðsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Janus endurhæfingar
Hver er reynsla ykkar af sameiginlegri rýni?
Reynsla okkar er góð af sameiginlegu rýninni. Mun skilvirkara form en áður. Eykur gæði, mikill tímasparnaður og minnkar skriffinnsku. Einnig jákvætt að þeir sem eru að vinna að sameiginlegu markmiði hittist og kynnist starfsháttum hvers annars. Eykur traust og skilning.
Felst í þessu aukinn ávinningur fyrir einstaklinginn í þjónustu?
Tvímælalaust. Oft eru þetta þung og erfið mál. Á rýnifundum eru teknar m.a. ákvarðanir um hvort þjónusta sé að mæta þörfum einstaklingsins, hvort halda á þjónustu áfram eða hvort hætta skal þjónustu. Það er æskilegt að það gerist í samtali en sé ekki ákveðið samkvæmt greinargerðum. Á fundunum hittast þeir sem þekkja einstaklinginn og eru að vinna með honum í starfsendurhæfingunni. Þetta eru aðilar úr teymi hans í Janusi endurhæfingu og ráðgjafi hans hjá VIRK sem eiga þarna samtal með sérfræðiteymi VIRK sem hefur e.t.v. ekki hitt einstaklinginn.
Hvernig er samstarfið almennt við VIRK?
Samstarfið almennt við VIRK er gott. Rýnifundirnir hafa aukið gagnkvæman skilning á störfum hvers annars. Samtal leiðir til betra samstarfs.