Fara í efni
Til baka

Núvitund snýst um hugarþjálfun

Núvitund snýst um hugarþjálfun

Hjá Núvitundarsetrinu er tekið vel á móti fólki. Það sannreyndi blaðamaður er hann gekk á fund Önnu Dóru Frostadóttur sálfræðings til þess að forvitnast um starfsemina sem þar fer fram. Tilgangi meðferðarinnar og aðferðum sem beitt er. Töluvert margir af þjónustuþegum VIRK hafa leitað sér aðstoðar hjá Núvitundarsetrinu.

Anna Dóra Frostadóttir sálfræðingur hjá Núvitundarsetrinu

Hjá Núvitundarsetrinu er tekið vel á móti fólki. Það sannreyndi blaðamaður er hann gekk á fund Önnu Dóru Frostadóttur sálfræðings til þess að forvitnast um starfsemina sem þar fer fram. Tilgangi meðferðarinnar og aðferðum sem beitt er. Töluvert margir af þjónustuþegum VIRK hafa leitað sér aðstoðar hjá Núvitundarsetrinu.

Í djúpum leðurstól, umvafin mjúku hitateppi vaknar í huganum spurningin; hvað er núvitund og hvernig hún gagnast þeim sem leita slíkrar meðferðar.

„Núvitund hefur verið skilgreind á ýmsan máta, fræðilega séð, það er að beina athyglinni að því sem er án þess að dæma. Í daglegu tali má segja að núvitund snúist um að vita hvað er að gerast á meðan það er að gerast – bæði það sem er að gerast innra með okkur og svo allt um kring – leyfa okkur að gangast við því sem er,“ segir Anna Dóra.

„Þannig er að við manneskjurnar viljum oft vera einhvers staðar annars staðar en við erum. Við viljum kannski vera grennri en við erum, orkumeiri eða heilsubetri og þannig mætti áfram telja. Heilinn í okkur er víraður á þann hátt að við viljum alltaf finna leið til að betrumbæta aðstæður okkar, hafa eitthvað til að stefna að. En það getur grafið undan vellíðan fólks ef það einblínir á misræmið milli þess sem er og þess sem maður vildi að væri. Slíkt gæti ýtt undir þá tálsýn að eitthvað sé betra annars staðar en það sem er hér og nú.

Þá ósjálfrátt fer fólk að lifa eftir þeirri hugsun að þegar „þetta er búið að gerast“ þá fari því að líða vel og þannig koll af kolli. Með því að fresta lífinu þangað til að „kjöraðstæður“ eru komnar missir fólk í raun á vissan hátt af lífinu. Lifir má segja fyrirfram í huganum. Hætt er þá við að þegar einhverju markmiði er náð þá sé annað markmið komið í sjónmál. Með þessu móti gefst fólki varla tími til að njóta þess þegar hverju og einu markmiði er náð. Þannig vinnur heilinn okkar.

Í núvitundinni erum við að þjálfa hugann í að dvelja við það sem er og viðurkenna hvernig aðstæður okkar eru hverju sinni. Núvitundin snýst sem sé um að sjá hlutina eins og þeir eru. Sleppa tálsýninni. Umfaðma okkur sjálf í okkar mennsku og því sem lífið er að bjóða.“

Í núvitundinni erum við að þjálfa hugann í að dvelja við það sem er og viðurkenna hvernig aðstæður okkar eru hverju sinni. Núvitundin snýst sem sé um að sjá hlutina eins og þeir eru.

Grunnur núvitundar að gangast við raunveruleikanum

Tengist núvitund markþjálfun?
„Núvitundin snýst um að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er, það er grunnur hennar. Það er; áður en maður setur sér markmið þarf maður að gangast við hvar maður er staddur og þannig sér maður skýrar hvert maður vill stefna. Þá getur fólk valið af yfirvegun og ró næstu skref. Segja má að í núvitund snúist lífið um ferðalagið en ekki áfangastaðinn. Það þarf líka að horfast í augu við að stundum ganga markmiðin upp og stundum ekki. Þetta snýst um að vera til staðar fyrir sjálfan sig á lífsins ferðalagi.“

Ýtir hugsanlega undir sjálfhverfni að vera alltaf að hugsa um hver maður er og hvert maður ætlar?
„Þvert á móti. Með því að tengjast sjálfum sér, hlusta á sjálfan sig og gangast við mennsku sinni þá fer maður að sjá mennskuna í öllum öðrum. Engin manneskja er fullkomin og manni þykir vænna um viðkomandi, einmitt þess vegna. Það sama gerist með mann sjálfan. Með alls konar æfingum tengdum núvitund fer maður að sjá sjálfan sig í öðru ljósi – hafa jafnvel meiri húmor fyrir sjálfum sér og sjá þetta krúttlega í sér. Taka sig ekki of alvarlega og sætta sig við að vera ekki fullkominn, gangast við sjálfum sér eins og maður er.

Núvitund dregur úr sjálfsgagnrýni og sjálfshörku og stuðlar að meiri samkennd með sjálfum sér. Það leiðir til þess maður fær meiri samkennd og skilning á fólki í umhverfinu – samkennd í eigin garð eykst og þar með samkennd með öðrum. Eiginlega „samkennd með lífinu“. Við erum öll að takast á við einhver erfið lífsins verkefni.“

Hvernig aðferðir notið þið hjá Núvitundarsetrinu?
„Námskeiðsframboð okkar er fjölbreytilegt. Við erum bæði með námskeið og einstaklingsviðtöl, slíkt spilar oft vel saman. Við erum með hefðbundin núvitundarnámskeið – Núvitund gegn streitu og Núvitund gegn þunglyndi og kvíða. Einnig erum við með Núvitað samkenndarnámskeið, Samkenndarmiðaða meðferð og námskeið sem heitir ACT – sem stendur fyrir Acceptance Commitment Therapy. Það má segja að það feli í sér núvitundarmiðaða atferlismeðferð. Þar er meiri áhersla lögð á atferlisþáttinn meðan núvitundarnámskeiðin huga meira að eigin innri mynstrum – mynstrum hugsana, tilfinninga, líkamskennda og hvata/athafna – og ekki síst að auka tilfinningalegt þolgæði.“

Á námskeiðum okkar er notast við hugleiðsluaðferðir

Snýst þetta hjá ykkur að einhverju leyti um trú?
„Nei, en á námskeiðunum er notast við hugleiðsluaðferðir sem hafa viss tengsl við búddisma. Ef maður skoðar trúarbrögð almennt þá eru í þeim öllum einhvers konar innhverf íhugun. Þegar mikið liggur við þá höfum við manneskjurnar alltaf þurft að staldra við og leita inn á við. Átta okkur á þeirri visku sem býr innra með okkur og æðruleysi.“

Vinnur núvitund gegn slæmri sjálfsmynd og jafnvel sjálfseyðingarhvöt?
„Við það að vakna til vitundar og tengjast sjálfum sér þá fer maður að taka eftir öllum mynstrum hugans, þessum hjálplegu, en líka hinum óhjálplegu, svo sem sjálfsniðurrifi, óhóflegri sjálfsgagnrýni – og jafnvel sjálfseyðingarhvöt. Með því að átta sig á eigin stöðu á þessum vettvangi vaknar spurningin: Hvað ætla ég að gera við þetta? Ætla ég að halda áfram að fylgja vana eða þjálfa heila og huga til að skipta um gír?

Núvitund snýst um hugarþjálfun. Átta sig á hvað er að gerast og meðvitað velja að móta nýjar taugabrautir í heilanum. Ef maður hefur kvíðahugsanir þá dýpka slíkar brautir með tímanum. Í núvitundinni reynir maður að átta sig; nú er ég komin út í kvíðahugsanir, ætla ég að dvelja við þær eða færa athygli mína eitthvað annað?

Í núvitundinni notar maður hugarþjálfunaræfingar og skynfæri okkar í hinu daglega lífi. Við þurfum að varpa akkeri ef við erum týnd í erfiðum hugsunum – finna fyrir öndun og líkama, jörðinni undir fótum okkar, það sem við sjáum og heyrum í kringum okkur, bragðskyn og lyktarskyn. Gerast jarðbundnari. Núvitund snýst töluvert um að jarðtengja sig. Ef maður nær þannig í sjálfan sig þá stýrist maður ekki jafn mikið af erfiðum tilfinningum eins og kvíða heldur stígur til baka og virðir fyrir sér hugsanir sínar og tilfinningar. Þannig getur maður tengst eigin lífsgildum og haldið sinni stefnu í lífinu þrátt fyrir kvíðann. Við gefum tilfinningunum stundum of mikið vægi og leyfum þeim að stjórna okkur.

Með núvitundinni finnum við leiðir til að ná í okkur sjálf og valdefla okkur þannig. Þá getum við valið á milli hvort við ætlum að vera áfram eins og við höfum verið eða snúa inn á nýjar brautir, jafnvel þótt við séum kvíðin og döpur. Núvitund dregur úr streitu og dapurleika. Það er óskaplega sárt að vera með erfiðum tilfinningum og því gott að finna aðferð til að ná utan um sjálfan sig. Horfa á sársaukann og reyna að finna hjálplegar leiðir til að vinna með hann.“

Höfum átt í farsælu samstarfi við VIRK

Gagnast þetta við verkkvíða og kvíða vegna áfalla?
„Já, það gerir það. Stór hópur fólks kemur hingað og núvitundin gagnast því. Erfitt hugarástand er ekki stéttskipt. Við erum öll bara manneskjur. Núvitund gagnast til dæmis vel fólki sem er í kulnun, hefur verið að keyra sig áfram á hnefanum, en fer svo að hlusta á sína innri líðan. Þá skiptir svo miklu máli að læra að hlusta á sína innri rödd og hvíla sig. Átta sig á hvar raunveruleg þolmörk eru og bregðast við þeim af visku og samkennd.

Núvitundin leggur mikla áherslu á, sem fyrr sagði, að það er ferðalagið sem skiptir máli ekki áfangastaðurinn og að vera með sjálfum sér í þessu ferðalagi. Því ríkari vitund sem maður hefur því betur getur maður brugðist við aðstæðum sínum.“

Sækja margir frá VIRK til ykkar?
„Stór hluti af þátttakendum á námskeiðum okkar kemur frá VIRK. Við í Núvitundarsetrinu höfum átt í farsælu samstarfi við VIRK í á annan áratug. Ástæða er til að fagna því að VIRK er til og grípur fólk í neyð. Það er þakkarvert.

Hingað kemur líka fólk beint úr samfélaginu sem á í ýmiskonar erfiðleikum. Það fer svolítið eftir því hver vandinn er og hvar fólk er statt á bataferlinu hvaða námskeið gagnast best. Núvitund sem slík er rauður þráður í öllum þessum námskeiðum. Hún er hjálpleg á öllum stigum. Ekki síst í upphafi þegar fólk er að ná tengslum við sjálft sig og hlusta á sína innri rödd.

Núvitund á erindi við alla og gagnast við andleg og líkamleg veikindi eins og þunglyndi, kvíða, streitu, verkjum, áföllum og kulnun. Allir lenda í mótlæti og það er gefandi að kenna öðrum það sem maður hefur trú á og nýtir sjálfur.“

Mikilvægt að lifa í takt við sín lífsgildi

Hvar lærðir þú núvitund?
„Ég er klínískur sálfræðingur og tók framhaldsnám í sálfræði í Sydney í Ástralíu. Ég kynntist núvitund fyrst í starfi mínu á Hvítabandinu á Landspítalanum. Síðar fór ég að vinna á heilsugæslustöð í Bretlandi í St. Albans á árunum 2008 til 2011. Þá var núvitund að ryðja sér til rúms þar. Segja má að Bretland sé mekka núvitundar í Evrópu.

Í kringum 1989 tók bandarískur prófessor, Jon Kabat-Zinn í Massachussets, hugleiðslu inn í sitt meðferðarprógramm og þróaði út frá því núvitundarnámskeið fyrir langt leidda sjúklinga sem aðrir læknar töldu sig ekki geta gert meira fyrir. Hann leiðbeindi fólki til að gangast við því hvernig staðan væri og hvað það gæti hugsanlega gert til að bæta líðan sína í þessum aðstæðum. Kabat-Zinn tók hugleiðsluiðkunina úr Zen búddismanum og þróaði út frá því fyrsta núvitundarnámskeiðið.“

Starfa margir við Núvitundarsetrið?
„Við erum tíu sem störfum hér, flestir sálfræðingar sem hafa unnið á heilbrigðisstofnunum, miklir reynsluboltar. Einnig starfar hér kennari, náms- og starfsráðgjafi sem er sérhæfður í jákvæðri sálfræði. Við höfum farið með þessi grunnnámskeið okkar inn í skóla til að kenna nemendum lífsfærni.

Almennt má segja að fólk sé of mikið að hugsa um að gera og gleymir að vera – það þarf að hægja á og muna að lífið snýst ekki bara um efnisleg gæði og samkeppni heldur um samvinnu, tengsl og samkennd. Núvitundin kennir fólki að gangast við og viðurkenna mennskuna í því sjálfu og gera ekki óraunhæfar kröfur um að vera einhverjar ofurmanneskjur. Mikilvægt er að lifa í takt við sín lífsgildi meðan við siglum í gegnum lífsins ólgusjó.“

Viðtal úr ársriti VIRK 2024.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Myndir: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband