Helga Guððbrandsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Samvinnu starfsendurhæfingardeild MSS
Hver er reynsla ykkar af sameiginlegri rýni?
Áður gerðum við greinargerðir sem ráðgjafar VIRK notuðu til hliðsjónar í rýni. Nú sitjum einnig í rýni og hefur reynsla okkar af henni verið ágæt. Misjafnar skoðanir eru á meðal ráðgjafa Samvinnu um hvort þeim finnst betra að sitja rýnina eða senda inn greinargerðir eins og áður var gert.
Felst í þessu aukinn ávinningur fyrir einstaklinginn í þjónustu?
Það er mjög gott að taka umræðuna með sérfræðingunum í rýni þegar um er að ræða flóknari og þyngri mál. Í þeim tilfellum sem allt gengur samkvæmt áætlun er mat okkar að greinargerðir gætu dugað en mjög mikilvægt er að geta farið á dýptina í mál sem þurfa frekari skoðunar við. Við sjáum ávinninginn felast í því að við getum útskýrt mál þátttakanda okkar betur með samræðum í stað þess að setja upplýsingar frá okkur í formi greinargerðar, enda koma þátttakendur í starfsendurhæfinguna daglega og kynnumst við þeim því vel.
Hvernig er samstarfið almennt við VIRK?
Samstarf okkar við ráðgjafa VIRK er til fyrirmyndar. Við fundum með þeim mánaðarlega auk þess að vera í reglulegum samskiptum vegna sameiginlegra mála. Boðleiðir okkar eru stuttar enda erum við í sama húsi og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur þar sem ráðgjafar VIRK eru staðsettir, því er oft hægt að leysa mál einstaklinga í þjónustu vel hér innanhúss með því að skjótast á milli hæða. Auk þess eru hér í sama húsi önnur stéttarfélög, Vinnumálastofnun og Festa lífeyrissjóður sem við erum einnig í samstarfi við.