Fara í efni
Til baka

Mætum fólki út frá þeirra þörfum

Mætum fólki út frá þeirra þörfum

Síðustu tvö ár hafa umfram allt annað verið bæði krefjandi og lærdómsrík. Covid hefur krafið alla til að taka tillit til ýmissa atriða sem manni óraði ekki fyrir að skipt gætu máli hér áður fyrr. 

Þjónustuaðila hafa eins og VIRK þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum vegna COVID19. Við tókum þau tali og lögðum fyrir þau nokkrar spurningar.

  • Hafa þarfir einstaklinga í þjónustu verið aðrar s.l tvö ár og þá hvernig?
  • Sjáið þið fyrir ykkur einhverjar áherslubreytingar varðandi þjónustuframboð í kjölfar Covid19?
  • Hvaða þættir eru það sem skipta máli varðandi farsælt samstarf við VIRK?

 

Lars Óli Jessen íþróttafræðingur - fagstjóri líkamsræktar Heilsuklasans

Síðustu tvö ár hafa umfram allt annað verið bæði krefjandi og lærdómsrík. Covid hefur krafið alla til að taka tillit til ýmissa atriða sem manni óraði ekki fyrir að skipt gætu máli hér áður fyrr. Hvað þjónustu í líkamsrækt varðar hefur fyrst og síðast þurft að sýna aðstæðum fólks skilning og mæta því af sanngirni.

Í Heilsuklasanum höfum við alltaf viljað mæta fólki út frá þeirra þörfum, en á tímum Covid hefur þurft að hafa sérstaklega í huga að aðstæður fólks eru mismunandi og nauðsynlegt að þjónustan sé í samræmi við það. Einangrun, sóttkví, undirliggjandi sjúkdómar, veikir fjölskyldumeðlimir, aldraðir foreldrar, skert þjónusta leik- og grunnskóla, ótti við smit, aukaverkanir bólusetninga, fjölþætt óvissa og ýmsar aðrar ástæður hafa gert þjónustuþegum VIRK erfiðara fyrir að sinna endurhæfingu sinni. Þrátt fyrir þessar aukalegu hindranir hefur samstarf Heilsuklasans við VIRK áfram gengið einstaklega vel.

Áskoranir síðustu ára hafa sýnt enn betur fram á hvaða þættir það eru sem mestu skipta fyrir farsælt samstarf við VIRK. Að veita faglega og vandaða þjónustu hefur alltaf verið hornsteinn Heilsuklasans. Faglegheit eiga ekki einungis við fagaðilann sem sinnir beint þjónustu skjólstæðingsins, heldur þurfa stjórnendur að sýna sveigjanleika, starfsfólk í móttöku að taka hlýlega á móti fólki og störf ræstitækna hafa aldrei verið eins mikilvæg og á tímum Covid.

Þrátt fyrir breyttar áherslur í þjónustu er nauðsynlegt að halda í kjarna hugmyndafræði sinnar starfsemi, þar sem grunn gildi Heilsuklasans byggja meðal annars á því að rækta líkama og heilsu vegna þess að fólk elskar líkamann sinn – ekki hið gagnstæða.

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Texti: Anna Lóa Ólafsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband