Þjónustuaðila hafa eins og VIRK þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum vegna COVID19. Við tókum þau tali og lögðum fyrir þau nokkrar spurningar.
- Hafa þarfir einstaklinga í þjónustu verið aðrar s.l tvö ár og þá hvernig?
- Sjáið þið fyrir ykkur einhverjar áherslubreytingar varðandi þjónustuframboð í kjölfar Covid19?
- Hvaða þættir eru það sem skipta máli varðandi farsælt samstarf við VIRK?
Daði Reynir Kristleifsson sjúkraþjálfari – Netsjúkraþjáfun
Þarfir einstaklinga síðastliðin tvö ár hafa verið meira í gegnum netið og einstaklingar höfðu stundum ekki annarra kosta völ. Fyrir okkar leiti hjá Netsjúkraþjálfun þá kom það ekki að sök nema að því leiti að skoðanirnar fóru oftar fram í gegnum netið heldur en á stofu sem við bjóðum einnig upp á. Það gekk mjög vel og vorum við komin með góða reynslu af því fyrir sem hjálpaði töluvert. Fólk er einnig farið að blanda hefðbundinni sjúkraþjálfun og netsjúkraþjálfun og kemur jafnvel sjaldnar í meðferð á stofu.
Í kjölfar Covid19 höfðu einstaklingar ekki annarra kosta völ en að nýta sér þjónustu í gegnum netið og þurftu að brjóta ísinn með að læra á það, sem hefði mögulega ekki gerst nema fyrir tilstilli Covid19. Tilvalið er að nýta það til að auka þjónustu nú í framhaldinu, hvort sem einstaklingar nýti sér alfarið þjónustu í gegnum netið eða noti það í og með annarri þjónustu.
Af okkar reynslu í samstarfi við VIRK teljum við mikilvægt að vera í góðum samskiptum við ráðgjafa, að lýsingin á þjónustunni sé skýr ásamt markmiði einstaklingsins með þjónustunni.
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022.
Texti: Anna Lóa Ólafsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason