Fara í efni

Upplýsingar fyrir lækna

VIRK leggur áherslu á gott samstarf við fagaðila innan heilbrigðiskerfisins til að tryggja réttar áherslur í þjónustu. Mikilvægt er að vera í góðu sambandi við þá sem vísa fólki til VIRK, sem eru oftast læknar heilsugæslunnar, á endurhæfingarstofnunum og sérfræðilæknar.

Ráðgjöfum VIRK ber að hafa samband við heimilislækni eða meðhöndlandi lækni einstaklings við mótun endurhæfingaráætlunar til að fá nauðsynlegar upplýsingar til að tryggja samfellu í endurhæfingu og annað sem hefur jákvæð áhrif á framgang starfsendurhæfingar.

Læknir, eða heilbrigðismenntaður starfsmaður þverfaglegs teymis, sendir inn beiðni um þjónustu fyrir einstaklinga til VIRK ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði.
 

Til að unnt sé að afgreiða beiðni með skilvirkum og árangursríkum hætti er nauðsynlegt að beiðnin sé vel út fyllt og innihaldi þær upplýsingar sem óskað er eftir. Upplýsingarnar eru nauðsynlegar til að hægt sé að leggja mat á það hvort starfsendurhæfing á vegum VIRK sé tímabær og hæfi þörfum einstaklingsins. Sjá gagnlegan tékklista um upplýsingar sem þurfa að koma fram á beiðni um starfsendurhæfingu hér.

Upplýsingakerfi VIRK er tengt við Sögukerfi í gegnum Heklugáttina og koma flestar beiðni rafrænt beint í gegnum það. Læknar sem hafa ekki aðgang að Sögukerfi geta fyllt út beiðni læknis og sent hana í ábyrgðarpósti til VIRK.

Jafnframt er hægt að senda beiðni rafrænt til VIRK í gegnum Signet Transfer, sem PDF-skjal. Til að senda beiðnir í gegnum Signet Transfer skráir sendandinn sig inn á vefgáttina með rafrænum skilríkjum og velur viðtakanda úr hópi fyrirtækja eða stofnana. Móttakandi greiðir fyrir sendinguna. Slóðin á vefgáttina er https://transfer.signet.is/Authed/Login

Gerð endurhæfingaráætlana vegna endurhæfingarlífeyris frá TR

Ekki þarf aðkomu VIRK til að halda utan um endurhæfingaráætlun. Hins vegar er það eitt af hlutverkum ráðgjafa VIRK að vinna starfsendurhæfingaráætlun með einstaklingum sem eru í þjónustu.

Ef bráð þörf er á framfærslu og læknir búinn að senda vottorð vegna endurhæfingarlífeyris er gert ráð fyrir að læknir sem skrifar það vottorð eða annar meðhöndlandi heilbrigðisstarfsmaður beri jafnframt ábyrgð á gerð fyrstu endurhæfingaráætlunar.

Sú áætlun þarf að vera með áherslu á endurkomu á vinnumarkað og í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma á vefsíðu Tryggingastofnunar. 

Þegar einstaklingur hefur verið samþykktur í þjónustu og verið vísað til ráðgjafa hjá stéttarfélagi á sér stað kortlagning á styrkleikum og hindrunum og þarfagreining varðandi endurhæfingarleiðir.

Í kjölfarið er í samráði við meðhöndlandi lækni og eftir atvikum aðra meðferðaraðila, sett upp áætlun um endurkomu til vinnu, starfsendurhæfingaráætlun. Ef einstaklingur hefur þörf fyrir endurhæfingarlífeyri frá TR heldur ráðgjafi utan um endurhæfingaráætlun á grundvelli þeirrar áætlunar.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband