Fara í efni

Erlendir ríkisborgarar og þjónusta VIRK

Ríkisborgarar EES/EFTA 

Með alþjóðasamningum hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til að veita launamönnum, sem eru ríkisborgarar aðildarríkja EES/EFTA[1] forgang að innlendum vinnumarkaði. Þurfa ríkisborgarar þeirra ríkja því ekki atvinnuleyfi hér á landi. Ríkisborgarar þeirra landa, sem hafa fasta búsetu hér á landi, eiga því rétt á þjónustu, uppfylli þeir skilyrði laga nr. 60/2012 að öðru leyti.

BREXIT

Ríkisborgarar Bretlands sem voru búsettir hér á landi eða fluttust hingað fyrir 31. desember 2020 njóta sömu réttinda og voru til staðar fyrir útgönguna samkvæmt samningi við Ísland og eiga rétt á starfsendurhæfingarþjónustu.

Ríkisborgarar Bretlands sem fluttu til landsins eftir 1. janúar 2021 eru í sömu stöðu og ríkisborgarar utan EES/EFTA, nema þeir hafi öðlast ótímabundið atvinnuleyfi.

Ríkisborgarar utan EES/EFTA 

Ríkisborgarar utan EES/EFTA með ótímabundið atvinnuleyfi hér á landi eiga rétt á þjónustu, uppfylli þeir skilyrði laga 60/2012 að öðru leyti.

Það sama á við um þá sem fengið hafa alþjóðlega vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða og þeirra sem koma sem flóttamenn í boði stjórnvalda (kvótaflóttafólk).

Einstaklingum með ríkisfang utan EES/EFTA er gert að sýna fram á stöðu sína með skilríkjum útgefnum af Útlendingastofnun eða eftir atvikum Vinnumálastofnun.

Einstaklingur í leit að alþjóðlegri vernd (hælisleitandi) 

Einstaklingar í leit að alþjóðlegri vernd (hælisleitendur) eiga ekki rétt á atvinnutengdri starfsendurhæfingu á grundvelli laga 60/2012. Um er að ræða einstaklinga í óvissri stöðu um framtíð sína hér á landi, þar sem Útlendingastofnun hefur ekki tekið afstöðu til dvalarleyfis og þar af leiðandi ekki til atvinnuleyfis.

Einstaklingar með tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi 

Einstaklingar utan EES/EFTA með tímabundið dvalarleyfi m.a. á grundvelli eftirfarandi skilyrða eiga ekki rétt á atvinnutengdri starfsendurhæfingu á grundvelli laga nr. 60/2012. Dvalarleyfi þeirra eru tímabundin og veitt til skamms tíma.

Samkvæmt lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga er heimilt að veita einstaklingum utan EES/EFTA tímabundið dvalarleyfi m.a. á grundvelli eftirfarandi skilyrða:

  • Vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.
  • Vegna skorts á starfsfólki hér á landi.
  • Fyrir íþróttafólk
  • Fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings.

Könnun máls og skilyrði fyrir þjónustu að öðru leyti

Reglur sem þessar geta ekki verið tæmandi. Því er hægt að óska eftir skoðun VIRK þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Er þá kallað eftir viðeigandi gögnum og lagt mat á skilyrði fyrir þjónustu.

 

[1] Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland, Þýskaland.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband