Sesselja G. Sigurðardóttir og Ásta St. Eiríksdóttir Kennarahúsinu
Að Laufásvegi 81, einkar glæsilegu timburhúsi sem reist var árið 1908 fyrir Kennaraskóla Íslands, er nú til húsa Kennarasamband Íslands. Þar hittum við að máli þær Sesselju G. Sigurðardóttur, þjónustufulltrúa á félagssviði og Ástu St. Eiríksdóttur, gjaldkera sjóða Kennarasambandsins.
„Að loknu þingi Kennarasambands Íslands vorið 2011 tóku við nýir stjórnendur, þau Þórður Hjaltested formaður og Björg Bjarnadóttir varaformaður. Björgu var mjög umhugað um að bæta innra starfið hér í húsinu.“ segir Sesselja G. Sigurðardóttir. Sesselja á sæti, fyrir hönd Kennarasambandsins, í sérstökum verkefnahópi sem tengist þróunarverkefninu Virkur vinnustaður sem VIRK starfsendurhæfingarsjóður hefur mótað og ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa nýtt sér undanfarin ár.
„Þróunarverkefnið þótti henta vel til að koma innri starfseminni hér í Kennarahúsinu í fastara form en verið hafði. Það þótti því gott tækifæri á þessum tímapunkti að taka þátt í verkefninu, sem um þær mundir var kynnt á vegum VIRK. Á starfsmannafundi haustið 2011 var samþykkt að taka þátt í verkefninu.“
Var einhugur um að taka þátt í þessu verkefni?
Já, við teljum það. Fólk hafði áhuga á að bæta andrúmsloftið í húsinu og vinna meira saman. Andrúmsloftið hafði ekki verið slæmt en það mátti bæta samskipti og samvinnu, bæði á faglegum og manneskjulegum nótum. Þetta er nokkuð flókinn vinnustaður – stéttarfélag þar sem vinna saman kjörnir starfsmenn og ráðnir.
Kennarasambandið er stéttarfélag kennara á leikskólastigi, grunnskólastigi, í tónlistarskólum, framhaldsskólum og stjórnenda þessara skólastiga. Hér starfar því fólk sem kosið er af þessum aðildarfélögum og annað starfsfólk sem hefur verið ráðið hingað til starfa. Starfsemin skiptist í tvö svið, þjónustusvið og félagssvið. Starfið hér er í mörgum tilvikum talsvert sérhæft.
Í Kennarahúsinu fer fram starfsemi ýmissa sjóða, svo sem orlofssjóða, endurmenntunarsjóða sjúkrasjóða og fleira. Þessir sjóðir hafa hver sína stjórn. Einnig hafa fagfélög kennara aðgang að húsinu til fundahalda. Samstarf við þessa aðila er talsvert. Hugmyndir manna um starfið hér eru misjafnar, þetta hefur heilmikið með vinnuumhverfið að gera.“ segir Ásta St. Eiríksdóttir.
„Í sumum tilvikum var fræðslan fyrir atbeina VIRK en við fengum líka fólk til okkar, sem við völdum sjálf. Vissulega voru erindin misjafnlega áhugaverð. Öll höfðuðu þau þó til starfsfólksins, þótt í misjöfnum mæli væri. Við fengum fræðslu um hreyfingu, hvíld og mataræði, streitustjórnun, sálfræði, vinnuhagræðingu og ýmislegt annað."
Hvernig hófst verkefnið Virkur vinnustaður?
„Skrifað var undir samstarfsyfirlýsingu 28. október 2011 um þátttöku í verkefninu, sem áætlað var að mundi gilda til haustsins 2014. Samningurinn var undirritaður af Þórði Hjaltested formanni KÍ og fulltrúa frá VIRK. Síðan hófst vinna við að koma þessu öllu í gang. Ég kom inn í þetta verkefni sem trúnaðarmaður starfsfólksins í húsinu,“ segir Sesselja.
Í verkefnahópnum voru, auk Sesselju, þau Björg Bjarnadóttir varaformaður Kennarasambands Íslands, Hannes Þorsteinsson skrifstofustjóri og Hafdís Dögg Guðmundsdóttir sérfræðingur í vinnuumhverfis- og jafnréttismálum og öryggistrúnaðarmaður hússins.“ Tveir ráðgjafar frá VIRK voru verkefnastjórar þróunarverkefnisins og veittu stuðning og fræðslu til verkefnahópsins.
„Þróunarverkefnið á vegum VIRK kom að góðum notum við að fastmóta starfsmannastefnu“ segir Sesselja. „Í framhaldi af undirritun samningsins milli VIRK og okkar settum við okkur fjarverustefnu, þar sem skráning fjarveru var með öðru og einstaklingsmiðaðra móti en verið hafði, sem og fjarverusamtöl. Yfirmenn fengu leiðbeiningar um hvernig þau viðtöl skyldu fara fram.“
En höfðu sést þess merki að starfsfólk í húsi Kennarasambandsins væri á leið í svokallaða kulnun?
„Já, það má segja það og einmitt þess vegna var þetta þróunarverkefni okkur kærkomið tækifæri til að bæta okkur hér innanhúss. Björg Bjarnadóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, hafði mikinn áhuga á þessu máli. Hún er talsmaður bættra mannlegra samskipta og lét sig því þetta miklu varða. Á þessum þremur árum, sem verkefnið hefur staðið, hafa ýmsir aðilar komið hingað með fyrirlestra og svo hafa verið farnar svokallaðar liðsheildarferðir, sem hafa skilað okkur góðum árangri.“ segir Ásta.
Hvernig var átakið unnið?
„Við settum okkur markmið fyrir hvert ár, frá 2012 til 2014. Árið 2012 var markmiðið t.d. að bæta samskiptin. Það var gert meðal annars með þessum liðsheildardegi, þar sem við fórum öll saman einn dag austur fyrir fjall og ræddum málin. Þetta tókst mjög vel.
Árið 2013 var heilsuefling á dagskrá, skipulögð útivist og fleira. Í ár er gert ráð fyrir að starfsmannahópurinn komi sér saman um ákveðin gildi í ljósi verkefnisins.
Eins og áður segir var komið á heildstæðri starfsmannastefnu í kjölfar þátttökunnar í umræddu þróunarverkefni og var fjarverustefnan hluti af henni. Stór þáttur í því efni var einstaklingsbundin skráning fjarveru og innleiðing fjarverusamtala. Þegar skráning fjarveru hafði staðið nokkurn tíma sást svart á hvítu hvernig málin stóðu hjá hverjum og einum. Þeir sem voru mikið fjarverandi voru teknir í viðtöl, sem ekki hafði verið áður þegar aðeins var almenn skráning á fjarvistum,“ segir Sesselja.
Tók fólk þessu vel?
„Ég tel að sátt sé um þetta fyrirkomulag. Fólk er farið að skilja tilganginn, sem er að aðstoða þá sem eiga við vanda af einhverju tagi að etja. Sé um slíkt að ræða þarf að taka á því og skoða hvað þar er á ferð. Fjarverusamtölin eru þannig upp byggð að áætlun er gerð til úrbóta.“ svarar Sesselja.
Þurftu einhverjir á aðstoð sérfræðinga að halda?
„Ekki í tengslum við fjarverusamtölin eða í gegnum VIRK svo ég viti til.“ segir Sesselja.
Hvernig líkaði ykkur sú fræðsla sem til ykkar kom fyrir tilstilli VIRK?
„Mjög vel. Í sumum tilvikum var fræðslan fyrir atbeina VIRK en við fengum líka fólk til okkar, sem við völdum sjálf. Vissulega voru erindin misjafnlega áhugaverð. Öll höfðuðu þau þó til starfsfólksins, þótt í misjöfnum mæli væri. Við fengum fræðslu um hreyfingu, hvíld og mataræði, streitustjórnun, sálfræði, vinnuhagræðingu og ýmislegt annað. Við höfum skilað framvinduskýrslum árlega þar sem ferlið kemur fram. Í maí 2013 gerðum við innanhússkönnum um átaksverkefnið, sem kom vel út. Þess má geta að við fórum til Akureyrar í liðsheildarferð og skólaheimsókn, sem var mjög góð ferð. Við ráðgerum svo eina liðsheildarferð áður en átaksverkefninu lýkur.
Í fyrra voru gerðar skipulagsbreytingar hjá VIRK sem urðu til þess að við fengum nýjan ráðgjafa. Það tók nokkurn tíma fyrir hann að setja sig inn í málin hér, sem eðlilegt er. Einnig gerðist það að Björg Bjarnadóttir hætti í vor sem varaformaður Kennarasambands Íslands og við tók Aðalheiður Steingrímsdóttir. Sæti Bjargar í vinnuhópnum tók Hafdís Dögg Guðmundsdóttir. Þessar breytingar hafa tafið dálítið framvindu verkefnisins. Gert var ráð fyrir að því lyki nú í október en mér virðist að því geti ekki lokið fyrr en í vor,“ segir Sesselja.
Þær Ásta og Sesselja segjast hlakka til að sjá niðurstöður könnunar sem gerð verður í lok verkefnisins en hún er sú sama og lögð var fyrir í upphafi þess.
„Í þessari fyrstu könnun komum við hér í húsinu ekki nógu vel út og höfum við, frá því hún var gerð, unnið markvisst að úrbótum. Þess hlýtur að sjá stað í lokakönnuninni, þegar að henni kemur. Við höfum haft mikið gagn af þessu verkefni og hinni heildstæðu starfsmannastefnu sem fylgt hefur í kjölfar þess. Þróunarverkefnið hefur í heild sinni skilað okkur góðum árangri, sem við erum ánægðar með. Þetta hefur verið jákvætt og gert okkur öllum gott.“ segja þær Ásta og Sesselja.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir