Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, Freyja Rúnarsdóttir og Sigrún Björg Guðmundsdóttir
Í aðalinngangi Hrafnistu í Laugarási, því glæsilega húsi, bíður Freyja Rúnarsdóttir mannauðsráðgjafi þessa umsvifamikla fyrirtækis fyrir eldri borgara. Við göngum niður á fyrstu hæð og hittum þar fyrir Sigrúnu Björgu Guðmundsdóttur verkefnastjóra á mannauðssviði. Þegar við erum sestar niður til að spjalla geta þær þess sérstaklega að þær sjálfar og Jakobína Hólmfríður Árnadóttir mannauðsstjóri séu mjög ánægðar með samstarfið við VIRK.
„Við erum stolt af því hér að Hrafnista fékk í ár viðurkenningu sem VIRKT fyrirtæki. Við fengum tilnefningu í fyrra og ætlum að gera okkar besta til að vera einnig á listanum á næsta ári,“ segja þær Freyja og Sigrún. Þær segjast ráðleggja fyrirtækjum sem ekki hafa prófað samstarf við VIRK að „láta vaða“. Vega og meta þegar starfskraft vantar hvort starfið gæti mögulega hentað aðila sem hefur verið í þjónustu hjá VIRK og er að fara aftur út að vinnumarkað.
„Reynslan er góð og virkt samtal í báðar áttir. Hrafnista hefur verið í samstarfi við VIRK í langan tíma en síðastliðin tvö ár tókum við þetta verkefni föstum tökum. Fyrst var VIRK með frumkvæði í atvinnutengingunni. Síðan hefur þetta þróast.
Ef við sjáum að það vantar fólk í störf sem við teljum að henti fyrir þá sem eru að stíga aftur inn á vinnumarkaðinn þá hefur mannauðsteymið og stjórnendur á Hrafnistu haft frumkvæði að því að leita til VIRK áður en starfið er auglýst. Upplifunin að þessu er bara win-win ef svo má segja – þessi samskipti hafa reynst okkur vel sem fyrirtæki.“
Þær Freyja og Sigrún benda á að kostirnir við samstarf við VIRK séu ótal margir.
„Vinnumarkaðurinn er þannig að það eru öll fyrirtæki í baráttu um fólk og þarna er dýrmætur mannauður sem er í virkri atvinnuleit og langflestir búnir að fara í gegnum töluverða sjálfsvinnu. Atvinnulífstenglar VIRK eru í samtali við aðilana og meta ásamt þeim hvort þeir séu tilbúnir til að fá sér vinnu. Atvinnulífstenglarnir kynnast í svona samstarfi fyrirtækjum og átta sig á því hvað hentar og hvað ekki. Jafnframt þekkja þeir fólkið og veita því stuðning. Loks auðveldar þetta fyrirkomulag okkur ráðningar,“ segja þær stöllur.
Flestir frá VIRK byrja í hlutastarfi
Hvað þarf fólk að hafa til að bera til að fá vinnu hér?
„Það fer svolítið eftir starfinu. Vissulega er kostur ef fólk er með menntun sem nýtist í starfi. Við höfum ráðið inn sjúkraliða og félagsliða sem koma úr þjónustu hjá VIRK. Við fáum jafnan sendar ferilskrár tilvonandi starfsmanns. Þetta hefur undið upp á sig. Undanfarið höfum við og stjórnendur fyrirtækisins verið að líta í kringum okkur eftir heppilegum störfum innanhúss fyrir þá sem eru að feta sig í vinnu á ný eftir þjónustu hjá VIRK.
Flestir sem koma hingað frá VIRK byrja í hlutastarfi en oft ræður fólk sig svo í framtíðarstarf. Við ráðum fólk inn í aðhlynningu og höfum líka ráðið inn starfsfólk frá VIRK í dagvinnustörf hjá Dagdvölinni. Þangað kemur auk heimilismanna fólk sem er í eigin búsetu og er hér í virkni yfir daginn. Í Dagdvölinni getur starfsfólk líka sinnt hlutavinnu. Í borðsalinn höfum við einnig ráðið inn fólk frá VIRK sem og dálítið í ræstingarstörf. Hvar fólk ber niður fer svolítið eftir hvað það hefur fengist við áður og vill og getur unnið við.
Við erum með Lífsgæðakjarna, þar er boðið upp á allskonar þjónustu, svo sem fótsnyrtingu, hárgreiðslu, kaffihús, heitan mat í hádeginu og fleira. Íbúar í nágrenni Hrafnistu geta fengið þar þjónustu rétt eins og þeir sem búa á Hrafnistuheimilunum sem eru átta talsins og eru staðsett í Reykjavík, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjanesbæ. Launakjör fara eftir menntun og starfi viðkomandi.“
Hrönn hópstjóri hjá VIRK, Vigdís forstjóri VIRK, Freyja, Jakobína Hólmfríður og Sigrún Björg frá Hrafnistu
Samstarfið er beggja hagur
Hvað er að segja um aðkomu VIRK að þessum ráðningum?
„Samstarfið milli Hrafnistu og VIRK auðveldar báðum aðilum að leysa mál, þjónustuþegar frá VIRK fá hér vinnu sem hentar og við fáum gott starfsfólk. Þetta er því beggja hagur. Ráðningarstyrkurinn sem kemur stundum með þjónustuþegum VIRK er auðvitað kostur. Slíkt fyrirkomulag getur vissulega hjálpað fyrirtækjum að taka ákvörðunina um að prófa samstarf við VIRK. Samfélagsleg ábyrgð – við viljum öll vera þar!
Ástæða er til að leggja áherslu á að við höfum fengið ótrúlega flott starfsfólk frá VIRK. Það er, myndum við segja, stærsti kosturinn. Atvinnulífstenglarnir sem við höfum verið í samskiptum við eru mjög færir í sínu starfi og samvinna við þá góð. Við erum fullvissar um að samstarf okkar við VIRK sé komið til að vera.
Þess ber einnig að geta að starfsfólk frá okkur hefur fengið þjónustu hjá VIRK ef það hefur þurft á að halda. Fyrir það erum við þakklát. Eðlilega viljum við því sömuleiðis taka á móti fólki frá VIRK. Fyrir kemur að störf hjá okkur henta ekki einhverjum, en það er bara eins og gerist allsstaðar á vinnumarkaðinum,“ segja þær Freyja og Sigrún.
Hverjir leita helst til ykkar eftir vinnu?
„Konur eru í meirihluta en þannig er það almennt í störfum af þessu tagi. Frá VIRK kemur margt íslenskumælandi fólk en við erum einnig með gott samstarf við Vinnumálastofnun. Þaðan og líka frá VIRK kemur fólk af erlendu bergi brotið. Við leggjum okkur fram um að ráða inn fólk frá öðrum löndum og af öllum kynjum. Við tökum jafnvel á móti öllum.“
Ástæða er til að leggja áherslu á að við höfum fengið ótrúlega flott starfsfólk frá VIRK.
Mælum með góðu móttökuferli
Eruð þið með sérstakt námsferli fyrir nýliða?
„Já. Við erum með sérstakt móttökuferli hjá Hrafnistu, nýliðafræðslu sem allir fara í gegnum. Hjá Hrafnistu starfa að jafnaði um sautján hundruð manns. Við erum með marga í hlutastörfum, bæði skólafólk og fólk á ýmsum aldri. Hrafnistuskólinn er partur af móttökuferlinu sem allir fá aðgang að. Hér er líka í boði íslenskukennsla.
Hvað varðar starfsfólk sem kemur frá VIRK þá erum við í samvinnu við ráðgjafa þess, til dæmis þegar viðkomandi fer í stærra starfshlutfall. Við mælum með því að fyrirtæki hafi sterkt og gott móttökuferli, það getur skipt sköpum fyrir þá sem eru að koma nýir til starfa.“
Hefur þetta samstarf við VIRK breytt einhverju hjá ykkur?
„Já, þetta hefur orðið til þess að þegar við sjáum starf sem gæti hentað aðila sem er að stíga sín fyrstu skref til vinnu þá leitum við fyrst til VIRK áður en við auglýsum, bæði vegna góðrar reynslu af starfsfólki sem kemur þaðan og svo því að vissulega felst kostnaður og tími í því að auglýsa laus störf.
VIRK er farið að þekkja Hrafnistu vel sem starfsvettvang og tekur vel í það þegar við óskum eftir þeirra aðstoð við að finna hinn rétta aðila. Það er ekki ofmælt að við höfum fengið gríðarlega dýrmætan mannauð frá VIRK.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason
Viðtal úr ársriti VIRK 2024.