Steinunn Tinna Þórðardóttir starfsmannastjóri Bakarameistarans
Notalegt viðmót mætir manni þegar komið er inn í Bakarameistarann í Suðurveri. Bökunarlyktina leggur að vitum og kaffikannan er á sínum stað. Ég fæ fljótlega kaffibolla og sæti meðan ég bíð eftir Steinunni Tinnu Þórðardóttur sem ætlar að ræða við mig um reynslu fyrirtækisins af samstarfi við VIRK.
Steinunn Tinna starfsmannastjóri hjá Bakarameistaranum segir að fyrirtækið hafi komist í samband við VIRK í kjölfar bæklings sem þangað var sendur árið 2016.
„Í framhaldinu vorum við í sambandi við atvinnulífstengil hjá VIRK, og höfum fengið til okkar þrjá einstaklinga frá þeim. Í tveimur tilvikum varð ekki úr ráðningu. Í því fyrra varð mjög fljótlega ljóst að starfið hentaði viðkomandi ekki. Í hinu síðara leiddi samstarfið til nokkurra vikna vinnuprófunar en ekki var laust starf til langframa að henni lokinni. Þriðji einstaklingurinn var hins vegar ráðinn hingað til starfa. Við gerðum ráðningarsamning við þann einstaklingi og hann réð sig hingað í hlutastarf. Um var að ræða vinnusamning með aðkomu VIRK eða svokallað vinnustaðaúrræði, þá greiðir Tryggingarstofnun ríkisins á móti fyrirtækinu. Ég veit ekki betur en þannig sé fyrirkomulagið ennþá."
Hefur fyrirtækið lært af mannaráðningum á borð við þetta?
„Við höfum í gegnum árin verið með marga einstaklinga í vinnustaðarúrræðum, svipað og VIRK, en þá unnið með Vinnumálastofnun.
Einstaklingarnir frá VIRK og einnig fólk sem komið hefur til okkur frá Vinnumálastofnun hafa sýnt fram á að þeir geta blómstrað fái þeir starf og tækifæri við hæfi. Ég hitti einstaklinginn frá VIRK áður en hann hóf störf. Óttar Sveinsson framleiðslustjóri tók svo við honum og setti á öfluga þjálfun sem starfsmaðurinn býr að í dag – honum hefur gengið einstaklega vel í sínu starfi.
Það er magnað að fylgjast með einstaklingum brjótast út úr skelinni og blómstra. Umræddur einstaklingur frá VIRK býr yfir þeim eiginleikum sem við leggjum áherslu á hjá starfsfólki okkar – heiðarleika, stundvísi, jákvæðni og vilja til að takast á við fjölbreytt verkefni.“
„Hér er komið fram við starfsmenn á vegum VIRK eins og alla aðra og það hefur gefið góða raun. Fólk sem er að feta sig út á vinnumarkaðinn þarf heldur meiri stuðning en aðrir og meiri aðhlynningu og allt tekur þetta sinn tíma.“
Farið vel yfir verkferla
Taldir þú nauðsynlegt að undirbúa annað starfsfólk fyrir komu einstaklinga frá VIRK?
„Jú að eitthverju leyti. Þá hef ég rætt við starfsfólkið léttilega, farið vel yfir verkferla og beðið starfsfólk að sýna þolinmæði. Við erum einstaklega rík af mannauði og öllum tekið hér með velvilja – við erum þó ekki öll eins. Hér er komið fram við starfsmenn á vegum VIRK eins og alla aðra og það hefur gefið góða raun. Fólk sem er að feta sig út á vinnumarkaðinn þarf heldur meiri stuðning en aðrir og meiri aðhlynningu og allt tekur þetta sinn tíma.
Áætlunin sem viðkomandi einstaklingar unnu og mótuðu í samstarfi við VIRK gekk vel fyrir sig, bæði hjá þeim aðila sem var hér í vinnuprófun og einnig hjá hinum sem réð sig til okkar að reynslutíma lokum. Áætlunin var virt og þar sem allt gekk vel á þriggja mánaða reynslutímanum var hann ráðinn áfram og getur unnið hér eins lengi og hann hefur vilja til.
Hentar þessi vinnustaður fólki sem er að reyna sig á vinnumarkaði á ný?
„Jú þetta hentar vel. Þó getur afgreiðslustarfið reynst erfitt að því leyti að þar er mikill hraði. Heppilegra væri að fá starf bak við tjöldin, það er að segja í vinnslunni, allavega fyrst um sinn.“
Hvað felur starf mannauðsstjóra í sér?
„Það er í raun ótalmargt, ég er með mjög fjölbreytt verkefni á minni könnu, svo sem mannaráðningar, nýliða- og starfsmannanámskeið, trúnaðarsamtöl og gæðastaðla í þjónustu og vöru. Ég sinni og mun fleiri verkefnum innan fyrirtækisins – það er að segja hvað varðar stærri pantanir, vöruþróun, hugmyndavinnu við verkferla – og jú svo margt margt fleira.
Er þetta starf sem fólk fer með sér heim?
„Ég geri það, ég skal alveg viðurkenna það. Ýmislegt er rætt við matarborðið heima – hahaha – maðurinn minn er bakari. Ég kom hingað fyrst til starfa sautján ára gömul í afgreiðslu og hef nú verið hér í fimmtán ár og gegnt ýmsum störfum. Ég hef lært af reynslunni og leitað mér jafnframt með ýmsum hætti þekkingar varðandi stjórnunarstarfið.“
Hefur þú verið í sambandi við atvinnulífstengilinn hjá VIRK?
„Hann hafði samband við okkur. Þegar reynslutími einstaklingsins, sem ráðinn var til þriggja mánaða, var liðinn þá kom atvinnulífstengillinn með einstaklingnum að nýjum samningi. Þessi starfsmaður hafði óskaði sérstaklega eftir að auka aðeins við sig vinnu og það gekk eftir. Að öðru leyti hef ég ekki fundið til þess að neitt væri öðruvísi hvað varðar þennan starfsmann en gerist venjulega. Ekki hafa komið upp neinir árekstrar.“
Væri Bakarameistarinn tilbúinn til að ráða fleiri einstaklinga á svipuðum kjörum og fyrr var greint frá?
„Já, við skoðum allt. Atvinnulífstenglar VIRK hafa haft samband og það er allt í lagi að einstaklingar komi og athugi hvort slíkt starf sem hér er unnið gæti hentað þeim."
Myndir þú sem starfsmannastjóri leita til VIRK eftir starfskrafti?
„Já ég hef gert það, látið vita að laust sé starf hér. Hins vegar getur ekki hver sem er komið hingað inn og þolað álagið sem fylgir afgreiðslunni. Aðstaðan til þess að ráða fólk í hlutastarf er heppilegri í vinnslunni sjálfri, sem fyrr greindi.“
Komum vel fram hvert við annað
Hver er ríkjandi stefna hér í stjórnunarmálum?
„Við sýnum frumkvæði í starfi og sjálfstæð vinnubrögð, leggjum okkur öll fram við að sinna starfi okkar sem best við getum og þjálfum nýliða vel. Þjónusta við viðskiptavini er númer eitt, tvö og þrjú. Hreinlæti, stundvísi, heiðarleiki og vilji til að takast á við fjölbreytt verkefni með jákvæðni. Við komum vel fram hvert við annað og einelti verður aldrei samþykkt“.
Er félagslíf meðal starfsfólks mikilvægt að þínu mati?
„Jú ekki spurning. Við erum með sjö verslanir og framleiðslu – alls 180 starfsmenn. Ég lít svo á að það sé okkur mjög mikilvægt að hrista hópinn saman og að starfsfólk kynnist betur á milli staða. Allt sem skilar betri starfsanda er af hinu góða – hann er mikilvægur.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason