Berglind Helgadóttir verkefnastjóri á Mönnunar og starfsmannaumhverfisdeild Landspítalans
Starfsendurhæfing samhliða vinnu er úrræði sem landspítali bíður upp á í samstarfi við VIRK. Verkefnastjóri þar fyrir hönd Landspítala er Berglind Helgadóttir verkefnastjóri á Mönnunar og starfsmannaumhverfisdeild Landspítalans.
„Úrræðið sem Landspítali og VIRK bjóða upp á, starfsendurhæfing samhliða vinnu á rætur að rekja til forvarnarvinnu sem við á Landspítala ákváðum að prófa og varð að veruleika í september 2016. Þá tók við þróunarverkefni í samstarfi við VIRK sem stóð yfir til haustsins 2020. Síðan hefur þetta verið úrræði sem er í boði hjá Landspítala í samstarfi við VIRK,“ segir Berglind Helgadóttir er hún var tekin tali fyrir skömmu og spurð út í hvernig þetta úrræði hafi komið til og þróast.
„Við hér á Landspítala vitum að veikindi eru viðráðanlegri því fyrr sem gripið er inn í, það var upphafið að þessu úrræði frá okkar hálfu. Við veltum því fyrir okkur hvernig við gætum hjálpað þeim sem voru að veikjast og höfðu þverrandi starfsgetu sem kom fram í auknum veikindafjarvistum.
Við styðjumst við viðverustefnu hér á spítalanum. Hún fjallar um hvernig við mætum þeim sem eru veikir og hvernig við tökum á móti þeim sem hafa verið í langvarandi veikindum. Við hvetjum stjórnendur til að taka svokallað fjarverusamtal við starfsfólk sem mætir ekki vel til þess að ræða um hvort eitthvað í vinnunni geti mögulega verið að hafa áhrif á heilsu þess eða þá hvort að eitthvað annað sé að hafa áhrif á mætingu.
Í báðum tilvikum viljum við leitast við að styðja við starfsfólk til að finna góða leiðir til úrbóta. Til þess höfum við ýmis ráð. Hér innanhúss erum við með mjög gott teymi sem við köllum stuðnings- og ráðgjafateymi og einnig erum við með heilsuteymi sem samanstendur af trúnaðarlækni, hjúkrunarfræðingum og sjúkraþjálfurum sem eru reiðubúnir til að styðja við starfsfólk.“
Er slíkt algengt?
„Við fylgjumst með fjarvistatíðni starfsfólks, hópa og einstaklinga og bregðumst við ef fjöldi fjarvistadaga fara yfir ákveðin viðmið.“
Ekki um að ræða kjarabundin réttindi
Hvernig hafið þið valið þátttakendur í samstarfsverkni milli VIRK og LSH?
„Það er ekki um að ræða kjarabundin réttindi að fá hlutaveikindasamning til að fara í starfsendurhæfingu heldur velvilja stjórnenda spítalans að vinna að forvörnum og styðja sitt starfsfólk með þessum hætti. Eftir að gerður var samningur við VIRK um þessa aðstoð sem þróunarverkefni þá lögðum við línurnar hér innan spítalans og samræmdum milli allra starfseininga hvernig verkefnið yrði unnið.
Flestir hafa skilað sér í fullt starf. Þeir sem ekki hafa gert það hafa breytt starfshlutfalli.
Áður en þetta úrræði kemur til skoðunar fyrir starfsfólk er að jafnaði gert ráð fyrir því að reynt hafi verið að greiða úr vanda þess með fjarverusamtölum sem stjórnandi tekur við hann. Ef stjórnandi metur að starfsendurhæfing samhliða vinnu gæti verið góður kostur fyrir umræddan starfsmann þá var gefinn kostur á slíku í fjarverusamtalinu. Ef starfsmanninum leist vel á þá hugmynd þá var hann beðinn um að fara til trúnaðarlæknis spítalans sem mat hvort þetta úrræði gæti verið raunhæfur kostur fyrir starfsmanninn. Ef það var niðurstaðan þá sendi trúnaðarlæknir beiðni til VIRK.
Sérfræðingateymi hjá VIRK lagði að síðustu sjálfstætt mat á hvort starfsendurhæfing samhliða vinnu væri í raun heppilegur kostur. Reyndist svo vera var gerður hlutaveikindasamningur við starfsmann, hann var í hlutastarfi hér jafnframt því að vera í endurhæfingu hjá VIRK í þrjá til sex mánuði. Að þeim tíma loknum mat trúnaðarlæknir Landspítala heilsu starfsmanns þegar hann kom til baka úr starfsendurhæfingunni, hvort hann væri fær um að fara í fulla vinnu aftur eða hvort honum væri ráðlagt að breyta starfshlutfalli sínu.
Svona var þetta meðan um var að ræða þróunarverkefnið milli Landspítala og VIRK sem stóð yfir í um það bil fjögur ár. Þessu þróunarverkefni milli VIRK og Landspítala lauk 2020. En áfram bjóðum við þetta úrræði innan spítalans og vísum starfsmönnum til VIRK ef það þykir henta.“
Þátttakan verið góð
Hvaða starfsfólk nýtti sér helst þessa þjónustu?
„Langstærsti starfsmannahópur okkar er hjúkrunarfræðingar. Ef við tökum sem dæmi árið 2019 sem var stórt ár í þróunarverkefninu þá voru sextán einstaklingar sem tóku þátt. Af þessum sextán voru níu hjúkrunarfræðingar, þrír ófaglærðir starfsmenn í umönnunarstörfum, tveir ritarar og einn læknir. Þetta gefur nokkuð góða mynd af því hvernig dreifingin er milli hópa.“
Hvernig líkaði fólki sem tók þátt í þessu?
„Við gerðum könnun á því þegar starfsendurhæfingu samhliða vinnu lauk hjá hverjum og einum, hvernig viðkomandi starfsmanni og stjórnanda líkaði úrræðið. Allir sem svöruðu, bæði þau sem hlutu þjónustuna og stjórnendur, voru mjög eða frekar sammála því að þetta hafi verið góð þjónusta bæði af hálfu þeirra sem héldu utan um þetta verkefni hjá Landspítala og hjá VIRK. Sem sagt; það ríkti almenn ánægja með þetta.“
En hvernig voru heimturnar úr þessu þróunarverkefni?
„Þær hafa verið mjög góðar. Flestir hafa skilað sér í fullt starf. Þeir sem ekki hafa gert það hafa breytt starfshlutfalli. Einn eða tveir hafa skipt um starfsvettvang. Til þess að svona úrræði geti gengið þá höfum við boðið upp á hlutaveikindasamning til þriggja mánaða með möguleika á framlengingu upp í hámark sex mánuði. Reynslan sýndi okkur að oftar en ekki nægðu ekki þrír mánuðir þannig að flestir sem voru í þessu þróunarverkefni voru sex mánuði og í einstaka tilvikum teygðum við okkur upp í sjö mánuði. Eins og fyrr var sagt þá eru þetta ekki kjarabundin réttindi heldur úrræði sem byggir á sveigjanleika með það að markmiði að koma til móts við sitt starfsfólk þar sem brýn þörf var fyrir slíkt.
Í þessu úrræði er byggt á góðu samstarfi starfsmanns, stjórnanda og ráðgjafa VIRK. Starfsmaðurinn mætir til vinnu í fyrirfram ákveðið starfshlutfall sem ákveðið er í samvinnu þessara þriggja aðila og í endurhæfingu á vegum VIRK í hlutfalli á móti. Með undirskrift þátttökusamnings gefur viðkomandi starfsmaður leyfi fyrir upplýsingaflæði milli þeirra sem fara með mál hans hjá Landspítala og hjá VIRK.“
Hverjum hentar þetta úrræði?
„Þarna fer fram samtal eins og fyrr sagði milli starfsmanns, stjórnanda og trúnaðarlæknis og þar er metið hvort svona úrræði geti komi viðkomandi að gagni eða hvort hann þurfi að fara í fullt veikindaleyfi um tíma til að ná heilsu á ný. Við höfum dæmi um að þegar starfsmaður var kominn til ráðgjafa hjá VIRK þá var mat ráðgjafans það að hlutastarf væri ekki nóg, viðkomandi þyrfti að gefa sig allan í starfsendurhæfinguna. Svo væri hægt að skoða skert starfshlutfall síðar. Hlutlaust mat ráðgjafa VIRK sker úr um hvað hentar í hverju tilviki.“
Reynslan er að það er viss endurhæfing í að vinna ef það er viðkomandi ekki of erfitt. Það er mikilvægt að halda sér virkum.
Var starfsfólk ánægt með að geta unnið samhliða endurhæfingu?
„Já, það var einmitt það góða við þetta og í samræmi við okkar trú hér á spítalanum að það væri hollt og gott að vera í vinnu svo framarlega sem það er unnt. Oft er erfitt fyrir fólk að horfast í augu við að það sé veikt og verði að hætta að vinna. Því finnst það þá vera eitt með sín vandamál. Ef hægt er fara í hlutaveikindi og vinna samhliða endurhæfingu virðist oft ganga betur að endurheimta fyrri heilsu og styrk.
Reynslan er að það er viss endurhæfing í að vinna ef það er viðkomandi ekki of erfitt. Það er mikilvægt að halda sér virkum. Hverjum hentar þetta úrræði best er ekki gott að segja til um. Þar koma mörg atriði til, eðli veikinda og einstaklingsbundnir þættir. En reynslan sýnir að það er mikilvægt að grípa fljótt inn í – forvörn borgar sig alltaf.“
Besta að hafa allt upp á borðum
Hvaða áhrif hefur þetta haft á samstarfsfólk þeirra sem eru í hlutastarfi samhliða endurhæfingu?
„Við ráðlögðum bæði þeim sem nýta þetta úrræði og eins stjórnendum þeirra að hafa þetta uppi á borðum. Segja frá að þetta sé í gangi. En auðvitað er það stundum svo að starfsmaður vill ekki upplýsa samstarfsfólkið um sín persónulegu mál, heilsu og líðan, en reynslan sýnir að það er betra að samstarfsfólkið viti hvernig málinu sé háttað, ekki síst til að geta stutt betur við bakið á þeim sem þess þurfa.“
Ánægð með árangurinn af samstarfinu við VIRK
Hvernig er þá samstarfi VIRK og Landspítala háttað núna?
„Eftir að þróunarverkefninu lauk ákváðum við að halda áfram með úrræðið starfsendurhæfing samhliða vinnu. Það er í raun að mestu óbreytt fyrir utan að við höfum ekki forgang að tveimur plássum hjá VIRK eins og gert var meðan á þróunarverkefninu stóð. Ef meðhöndlandi læknir starfsmanns vísar honum í starfsendurhæfingu samhliða vinnu þarf viðkomandi starfsmaður að fá mat trúnaðarlæknis Landspítala á því hvort það henti með tilliti til starfs og heilsu hans. Annars er ferlið eins og venjan er hjá VIRK. Starfmaður okkar fer í viðtal og er metinn hlutlaust af þeirra ráðgjafa.“
Hvernig hefur árangur þessa úrræðis verið að ykkar mati?
„Við erum afskaplega ánægð með þann árangur sem þetta úrræði í samstarfi við VIRK hefur skilað. Meðan þróunarverkefnið stóð yfir þá höfðum við möguleika á forgangi að endurhæfingu fyrir tvo starfsmenn á mánuði hjá VIRK en við nýttum það aldrei að fullu. Það er langtímaverkefni að innleiða svona úrræði, kynna það og fá fólk til að muna að þetta sé möguleiki. Samstarfið við VIRK hefur í heild gengið mjög vel. En eftir að þróunarverkefninu lauk haustið 2020 hefur eftirspurn verið minni sem við teljum að geti tengst Covid. Við vitum að þörfin er áfram fyrir þessu úrræði og munum nýta það okkar starfsmönnum til heilsubótar.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason