Anna Dóra Gunnþórsdóttir, mannauðsfulltrúi hjá Össur Iceland
Dagbjört Jónasdóttir, launafulltrúi hjá Össur Iceland
„Það er húsið nær Ölgerðinni,“ sagði Anna Dóra Gunnþórsdóttir, mannauðsfulltrúi til leiðbeiningar þegar hið umfangsmikla stoðtækjafyrirtæki Össur er sótt heim en það er eitt þeirra fyrirtækja sem fær viðurkenningu sem VIRKT fyrirtæki 2023.
Á annarri hæð að Grjóthálsi 5 í Reykjavík hittum við Önnu Dóru og Dagbjörtu Jónasdóttur, launafulltrúa, hjá Össuri Iceland ehf. til þess að ræða um reynslu fyrirtækisins af því að ráða til starfa þjónustuþega frá VIRK.
„Það hefur líklegast verið milli 2015 og 2018 sem atvinnulífstengill leitaði til fyrirtækisins og spurðist fyrir um hvort fyrirtækið vildi vera í atvinnutengingu við VIRK. Tekið var jákvætt í þessa fyrirspurn og við erum enn að ráða fólk til starfa sem kemur úr þjónustu frá VIRK,“ segir Anna Dóra, mannauðsfulltrúi.
Hvaða störf eru það almennt sem henta hjá Össuri fyrir þá sem eru að fóta sig í atvinnulífinu á nýjan leik?
„Framleiðslustörf, einkum í sílikondeildinni hjá okkur. Þar eru framleiddar sílikon hulsur sem gera fólki kleift að nota gervilimina frá okkur. Slíkar hulsur eru meðal annars settar utan um fótstubbinn sem gervifóturinn er svo tengdur við. Framleiðslustörf af þessu tagi eru nákvæmnisvinna og mikil þjálfun fer fram áður en fólk getur orðið fullgildur starfsmaður. Engum er hent út í djúpu laugina,“ segir Dagbjört og Anna Dóra kinkar kolli.
En hvernig starfar þessi deild?
„Sílikondeildin skiptist í stöðvar eða svokallaðar sellur og hver og einn heldur sig að mestu innan sinnar sellu. Vinnan er ekki erfið líkamlega að öðru leyti en því að hún útheimtir miklar stöður. Þetta hentar því kannski ekki fólki sem á erfitt með að standa lengi. Fólk sem þarna starfar þarf að geta staðið allan daginn því nánast öll vinna í framleiðslunni hjá okkur er svokölluð standandi vinna,“ segir Anna Dóra. „Þessar framleiðslueiningar eru þær deildir okkar sem einna helst hafa getað tekið á móti fólki frá VIRK,“ skýtur Dagbjört inn í.
Samskiptahæfni er mikilvæg
Hvernig nær fólkið frá VIRK sambandi við ykkur?
„Atvinnulífstengill frá VIRK hefur samband og sendir í framhaldi af því ferilskrá og síðan er viðkomandi aðili boðaður í viðtal,“ segir Anna Dóra.
Og hvað er það sem þið einkum lítið á í atvinnuviðtalinu?
„Samskiptahæfni er mikilvæg. Fólk þarf að geta rætt auðveldlega við samstarfsaðila og viðkomandi þarf að tala annað hvort íslensku eða ensku. Við göngum síðan um svæðið með þeim aðila sem er í atvinnuviðtalinu og sýnum honum hvað fram fer í hverri deild.
Síðan er haft samband við fyrri vinnuveitendur til þess að heyra í þeim hljóðið. Ef okkur líst svo vel á viðkomandi þá ráðum við hann í vinnu í þrjá mánuði til reynslu. Þetta á jafnt við um þá sem koma hingað frá VIRK og aðra sem við ráðum. Almennt komum við eins fram við þá sem koma frá VIRK og aðra sem hingað koma til starfa.“
Er fólk frá VIRK í minna vinnuhlutfalli en aðrir hér?
„Það hefur komið fyrir. Það eru dæmi um að fólk byrji í skertu starfshlutfalli en algengast er núna að fólk sé ráðið í fullt starf. Ég man eftir einum aðila sem byrjaði í 30% vinnu og smá jók svo við sig starfshlutfallið,“ segir Dagbjört.
„Ég hef eingöngu ráðið fólk frá VIRK í fullt starf, en það er líka stutt síðan ég tók við sem mannauðsfulltrúi,“ segir Anna Dóra.
Eru störfin svipuð í þessari sílikondeild?
„Nei. Hver sella sér um ákveðinn hluta af ferlinu. Ein sér til dæmis um að sauma utan um hulsuna, önnur sér um að pakka, sú þriðja að merkja og þannig mætti telja. Engin sella gerir það sama. Sellurnar eru tíu talsins núna – þeim hefur farið fjölgandi. Þess má geta að þar sem er saumað getur fólk setið hálfan daginn og staðið svo hinn helminginn,“ segir Dagbjört.
Samstarfið við VIRK hefur verið mjög gott
Hvernig hefur aðlögun gengið hjá þeim sem koma frá VIRK?
„Hún hefur gengið mjög vel hjá langflestum. Fólkið sem kemur frá VIRK er tilbúið til þess að vinna og mjög viljugt til starfa. Flestir sem koma frá VIRK eru Íslendingar en þó koma hingað líka starfsmenn af erlendum uppruna. Verkstjórarnir í framleiðslueiningunum taka við fólkinu og kynna það inni í sinni sellu. Þeir vita hverjir koma frá VIRK en eru ekkert sérstaklega að geta um það við samstarfsfólkið. Fólkið frá VIRK getur svo einsog aðrir leitað til verkstjórans ef eitthvað þarf að ræða,“ segir Anna Dóra.
Hvað hafa margir frá VIRK unnið hérna?
„Á bilinu tíu til tuttugu manns og af báðum kynjum. Í framleiðslueiningunum í sílikondeildinni er hlutfallið milli kynja álíka, kannski aðeins fleiri karlar. Lagt er upp úr stundvísi, nákvæmni og samstarfsvilja.
Samstarfið við VIRK hefur verið mjög gott. Atvinnulífstengillinn frá VIRK hefur samband og spyr hvort hann megi senda okkur ferilskrá einhvers tiltekins einstaklings í atvinnuleit. Sé ekki neitt laust þá biður hann okkur um að hafa viðkomandi aðila í huga síðar. Þegar eitthvað losnar þá skoðum við málið. Það liggja alltaf fyrir umsóknir hjá okkur og komi umsókn frá þjónustuþega VIRK þá er sú umsókn þar á meðal og skoðuð eins og hinar. Almennt má segja að allir séu hér á sama báti,“ segir Dagbjört.
Hvað margir vinna hjá Össuri Iceland ehf?
„Hér á Íslandi eru þeir um sex hundruð talsins,“ segir Anna Dóra. „Við erum eitt af stóru fyrirtækjunum,“ segja þær stöllur stoltar. „Hér innandyra er mjög mikið af sérfræðiþekkingu á hinum ýmsu deildum og fyrirtækið er alltaf að stækka. Mjög margir verkfræðingar með ýmis konar sérmenntun vinna hér og svo erum við með marga starfsmenn sem eru menntaðir í hinum ýmsu iðngreinum, einkum á verkstæðunum þar sem ýmsar vélar eru smíðaðar til notkunar í framleiðslunni. Má þar nefna smiði, rennismiði og rafvirkja. Þetta er ofboðslega blönduð starfsemi en allir borða svo í mötuneytinu,“ bæta þær við.
Starfsemin sem rekin er hjá VIRK er ótrúlega flott. Að koma fólki á þennan hátt aftur á skrið á vinnumarkaðinum og í lífinu.
Er vaxandi eftirspurn eftir vörum frá Össuri?
„Já. Þess má geta að stoðtækjafræðingar frá Noregsdeild Össurar hafa farið til Úkraínu. Þeir voru að kenna þarlendum á þau stoðtæki sem fólk þarf á að halda vegna afleiðinga stríðsins sem geisar þar. Erlendis eru á þriðja tug starfsstöðva sem tilheyra fyrirtækinu Össuri. Á heimsvísu er fyrirtækið með fjögur þúsund starfsmenn,“ segir Dagbjört.
Geta þjónustuþegar frá VIRK fengið vinnu við erlendar starfsstöðvar Össurar?
„Nei. Allar stöðvarnar eru reknar sem séreiningar og þjónustuþegar frá VIRK geta aðeins fengið vinnu hér í höfuðstöðvunum á Íslandi. En auðvitað er samstarf á milli þessara stöðva en starfsmannahald og allt slíkt er alveg bundið hverju landi fyrir sig. Sum Evrópulönd reka saman eina sameiginlega stöð. Þannig er staðan núna. Þetta er mikil breyting frá því Össur Kristinsson stofnaði þetta fyrirtæki árið 1971. Hann er ekki lengur hér. Forstjóri Össurar ehf. er Sveinn Sölvason,“ segir Dagbjört.
Starfsemin hjá VIRK ótrúlega flott
Hvernig eru launin í sílikondeildinni?
„Við gætum þess að vera alltaf nokkrum prósentum yfir lágmarkstaxta. Reynum að gera betur en almennt gerist á markaðinum, segir Anna Dóra.
Er ánægja með samstarfið við VIRK hér innanhúss?
„Svo sannarlega. Starfsemin sem rekin er hjá VIRK er ótrúlega flott. Að koma fólki á þennan hátt aftur á skrið á vinnumarkaðinum og í lífinu. Það er afskaplega gott að geta tekið þátt í þessu – svo gott fyrir hjartað. Atvinnulífstengillinn hefur komið hingað og skoðað aðstæður. Það var gagnlegt að hitta hann og kynnast honum aðeins,“ segir Anna Dóra.
Hafið þið bent fólki á að leita til VIRK ef það hefur orðið veikt eða örþreytt?
„Ég veit um tilvik þar sem trúnaðarlæknir okkar vísaði starfsmanni héðan til heimilislæknis til að sækja um hjá VIRK. Það eru reyndar nokkur dæmi um slíkt hér í gegnum árin. Þetta samstarf getur því að vissu leyti verið gagnverkandi. Eins og Anna Dóra sagði áðan þá gefur það manni gott í hjartað þegar maður veit að maður er að hjálpa og maður finnur gleðina hjá fólki yfir því að komast aftur á vinnumarkaðinn. Maður finnur og veit að starfsviljinn er svo sannarlega til staðar,“ segir Dagbjört.
Að loknu samtalinu í glerherberginu göngum við aðeins um húsakynni Össurar ehf. Þau eru björt og stór og enn er verið að byggja yfir starfsemina. Í hverri deild er fólk að störfum, í álíka ferðalag, nýliðaferð, fara þeir sem ráða sig til starfa hjá fyrirtækinu. Áhugi blaðamanns beinist ekki síst að sílikondeildinni þar sem fólkið frá VIRK starfar – þangað væri gaman að koma!
„Það er því miður ekki hægt, sílikondeildin er algjört leyndarmál. Þangað er ekki leyfilegt að fara með aðkomufólk,“ segja þær Anna Dóra og Dagbjört. Við það situr. Spennandi endir á athyglisverðri heimsókn í fyrirtækið Össur Iceland ehf.
Nánar um VIRKT fyrirtæki 2023.
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Ljósmynd: Lárus Karl Ingason