Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga
Inga Jónsdóttir iðjuþjálfi
Reykjalundur var frá upphafi staður væntinga og enn leitar þangað árlega fjöldi manns til þess að fá endurhæfingu og bæta heilsu sína. Samstarf hefur tekist með VIRK og Reykjalundi um vinnufærnimat. Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga og Inga Jónsdóttir iðjuþjálfi segja gagnkvæman áhuga ríkja á verkefninu.
Í sögulegu samhengi er Reykjalundur búinn að vera starfsendurhæfingarstofnun frá upphafi. Rétt sjötíu ár eru síðan Reykjalundur var tekinn í notkun, þá var staðurinn kallaður vinnuheimili fyrir berklasjúklinga. Hugtakið endurhæfing var ekki til árið 1945 en eigi að síður var unnið hér að endurhæfingu frá upphafi,“ segir Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Eftir að hafa gengið um húsakynni margvíslegra starfsstöðva Reykjalundar sitjum við þrjú saman við borð í fundarherbergi, Magnús, Inga Jónsdóttir iðjuþjálfi og blaðamaður. Fundarefnið er samstarf Reykjalundar og VIRK, en þessir aðilar hafa gert með sér samning með þann yfirlýsta tilgang að þróa starfsgetumat (vinnumat) og vinnustöðvar.
„ICF (International Classification of Functioning) er notað sem rammi utan um matið og niðurstöður þess. Þar er greint hvort um sé að ræða færniskerðingu og/eða þátttökuhindrun, ásamt því að tilgreina vanda. ICF er alþjóðlegt flokkunarkerfi á færni. Matskerfi sem auðveldar sérfræðingum sem að málum einstaklinga koma, að tala „sama mál“. Starfsendurhæfing notar sama ICF kjarnasett og VIRK, en auðvitað eru til fleiri slík matstæki.
Markvisst vinnufærnimat
Í vinnufærnimatinu vinna einstaklingarnir, að sögn Magnúsar og Ingu, ýmiss verkefni, þar sem metnir eru þættir eins og verkfærni, úthald, einbeiting og frumkvæði. Auk félagslegra þátta eins og samskipta og samvinnu, svo eitthvað sé nefnt. Markmiðið er að greina þannig styrkleika og starfsgetu fólks og gera atvinnuleit og endurkomu til vinnu markvissari.
„Á Reykjalundi var í upphafi reynt að starfshæfa ungt fólk með berkla til þess að það kæmist aftur til vinnu. Hér eru gamlar myndir á veggjum sem sýna fólk að störfum við bólstrun, smíðar og fleiri verkefni,“ segir Magnús.
„Árið 1960, þegar menn náðu tökum á berklunum, breytist Reykjalundur í almenna endurhæfingarstofnun smám saman. Slíkt starf miðar að því að auka færni fólks, þar með talið vinnufærni. Öll endurhæfing er í eðli sínu starfsendurhæfing. Á árunum frá 1980 og fram á miðjan tíunda áratuginn þróuðust hér átta sérhæfð svið. Starfsendurhæfingarsviðið var það síðasta og varð til um aldamótin. Upphaflega starfaði starfsendurhæfingarteymið á sérstökum samningi við Tryggingarstofnun ríkisins. Markmiðið var að koma til heilsu þeim sem voru að detta út af vinnumarkaði og fyrirbyggja að þeir færu á örorku.“
Hvers vegna ákváðuð þið hér á Reykjalundi að fara í samstarf við VIRK?
„Hér í starfsendurhæfingunni hefur okkur lengi fundist vanta gott mat á vinnufærni og ýmislegt hefur verið reynt gegnum árin. Verkefnið sem VIRK veitti stuðning var upphaflega hugmynd þáverandi yfirlæknis starfsendurhæfingarteymisins, Gunnars Kr. Guðmundssonar, og VIRK studdi hugmyndina. Þessi stuðningur gerði okkur kleift að einbeita okkur tímabundið að gerð matsins, sem og til kaupa á atvinnutækjum, búnaði og verkfærum.“
Hversu langt er þetta verkefni komið?
„Verkefnið er nú á lokastigi. Lokaþátturinn er að prófa matsferlið, eins og það hefur verið skilgreint. Búið er að velja matstæki, þróa starfsstöðvar, skilgreina störf og verkefni, auk þess að skilgreina tímaramma og ferlið í heild. Á síðasta hálfa ári höfum við verið með tíu einstaklinga á vinnualdri í forprófum á vinnufærnimati. Hverju mati lýkur með skilafundi, þar sem farið er yfir niðurstöður matsins með einstaklingnum og ráðgjafa hans.“
Verkefnið hefur gengið vel
„Það hefur gengið mjög vel,“ segja þau Magnús og Inga. „Verkefninu hefur miðað jafnt og þétt áfram, ef undan er skilið að við urðum að gera hlé í ár meðan endurbætur á húsnæði hér á Reykjalundi stóðu yfir,“ bætir Magnús við. „Eftir endurbæturnar fluttum við í stærra og betra húsæði, sem opnaði möguleika á fjölbreyttari starfsstöðvum. Hér eru skilgreindar sex starfsprófunarstöðvar; tvær fyrir skrifstofustörf, stöð fyrir sauma, tvær stöðvar með trésmíðavinnu, þar sem til dæmis eru gerðir stólar og loks eru gerð upp grill og reiðhjól,“ segir Inga. Hún getur þess einnig að Reykjalundur og Múlalundur hafi gert samkomulag sín á millli þess efnis að í vinnufærnimatinu sé hægt að fá að nýta aðstöðu hjá Múlalundi. „Við höfum ekki gert það ennþá, en þessi möguleiki er fyrir hendi. Þetta er spurning um hvernig vinnu við erum að leita að fyrir hvern og einn einstakling.“
Hvernig er valið inn í þetta samstarfsverkefni Reykjalundar og VIRK?
„Einstaklingarnir tíu, sem tekið hafa þátt í forprófun, voru valdir af VIRK. Við munum skoða hverjir hinna tíu nutu góðs af vinnufærnimatinu hér, hverjir minna - og svo framvegis. Hugmyndin er að fara yfir niðurstöðurnar og bæta það sembetur má fara.“
Eru þeir þátttakendur í forprófuninni allir með vinnusamband?
„Nei, við höfum fremur fengið hingað einstaklinga sem ekki eru lengur í vinnusambandi. Hafa jafnvel verið talsvert lengi utan vinnumarkaðar, í allt að þrjú ár.“
„Verkfærni, þekkingu, félagslega færni, samskipti og fleira. Við leggjum mikla áherslu á hvar styrkleikar fólks liggja. Vissulega þarf að þekkja hindranir, en mikilvægara er að finna hvernig má nýta styrkleika fólks. Hvaða möguleika veita þeir viðkomandi?"
Áhersla á styrkleikana
Hvað þarf að skoða?
„Verkfærni, þekkingu, félagslega færni, samskipti og fleira. Við leggjum mikla áherslu á hvar styrkleikar fólks liggja. Vissulega þarf að þekkja hindranir, en mikilvægara er að finna hvernig má nýta styrkleika fólks. Hvaða möguleika veita þeir viðkomandi? Eitt er að hafa góða verkþekkingu og annað að hafa úthald í að nýta hana. Það þarf því að hyggja að mörgum þáttum. Tölvukunnátta verður til dæmis stöðugt mikilvægari, mörg létt störf krefjast lágmarks tölvukunnáttu, að geta skráð, flett upp, sent skilaboð og þess háttar.“
Eru þeir sem eru í vinnufærnimati líka í þolþjálfun hér á Reykjalundi?
„Nei. Mikilvægt er að skilja þarna á millli. Megin starfsemi okkar á Reykjalundi er starfsendurhæfing, sem er miklu stærra dæmi. Þar sem mun fleiri aðilar koma að meðferð hvers einstaklings.
Í starfsendurhæfingu kemur fólk samkvæmt tilvísun frá heimilislækni. Einstaklingurinn fer í skoðun og mat hjá meðlimum teymisins. Síðan eru sett markmið með dvölinni. Meðferðin miðast síðan að því að ná markmiðum, til dæmis með styrktar- eða þolþjálfun, meðferð hjá sálfræðingi auk vinnuþjálfunar.
Hins vegar er svo vinnufærnimatið. Þá koma einstaklingarnir frá VIRK. Þeir eru hér hálfan daginn í vinnu í fjórar vikur, en ekki í annarri þjálfun. Matinu lýkur alltaf með skýrslu og skilafundi, þar sem saman koma skjólstæðingur, ásamt iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og ráðgjafa frá VIRK. Farið er yfir niðurstöður og við komum með ábendingar um hvað við teljum að geti verið næsta skref.“
Hvernig hefur prófunarfasinn gengið?
„Ótrúlega hnökralítið. Þegar forprófun á fimm einstaklingum var lokið fórum við yfir niðurstöður með VIRK. Fram kom meðal annars að það hefur ríkt almenn ánægja hjá þeim sem hafa tekið þátt í þessu verkefni okkar og VIRK,“ segir Inga.
„Það þarf að velja rétta fólkið í þetta,“ segir Magnús. „Tímasetning skiptir einnig miklu máli. Of oft semur fólk til okkar eftir að hafa verið nokkuð lengi frá vinnu. Því lengra sem líður frá því að viðkomandi hefur verið starfandi, því erfiðara er að snúa til baka á vinnumarkaðinn. Þetta er náttúrulegt fyrirbæri. Eftir því sem tíminn líður koma upp fleiri félagsleg, sálræn og jafnvel líkamleg vandamál. Það er manneskjulegt að bregðast þannig við slíkum aðstæðum.“
Inga bætir við að þarna komi vaninn líka til sögunnar. „Viðkomandi verður vanur að vera ekki í vinnu og aðlagar líf sitt eftir því.“
Fer fólk í endurhæfingu að loknu vinnufærnimati?
„Vinnufærnimati getur lokið með margskonar ákvörðunum. Kannski mælum við með því að viðkomandi fari í starfsendurhæfingu, hér eða annars staðar. Eða að hann fari í atvinnuleit. Í sumum tilvikum teljum við starfsendurhæfingu fullreynda. Þarna skiptir máli að hafa skoðað vinnufærni viðkomandi á kerfisbundinn hátt með áhorfi við vinnu og matstækjum, og meta svo stöðuna út frá því. Í niðurstöðum sem VIRK fær tilgreinum við hindranir, styrkleika og starfsgetu einstaklingsins.
Flestir hinna tíu sem VIRK vísaði til okkar í vinnufærnimat, lýstu vilja til að vinna. Matið hefur svo sýnt hverjir eru styrkleikar og hindranir hvers og eins. Matið hefur að mestu hvílt á iðju- og sjúkraþjálfara ásamt verkstjóra á verkstæðinu. Læknir kortleggur heilsufarsvanda hvers og eins. Auk þess höfum við þurft aðstoð félagsráðgjafa og sálfræðings. Við njótum þess þannig að hafa hér stórt, þverfaglegt teymi og getum því sótt okkur þá þekkingu sem þarf hverju sinni.“
Hvað eru þið tilbúin að taka marga í vinnufærnimat árlega?
„Það er í skoðun. En við vonumst til að geta tekið að minnsta kosti tuttugu einstaklinga í slíkt mat árlega. Við höfum þegar útskrifað átta af þeim tíu sem VIRK sendi til okkar.
Eftir að plastverksmiðjan var lögð niður á sínum tíma höfum við húsnæði til að nýta á margvíslegan hátt. Það er til dæmis hægt að koma hér inn með bíla og skapa vinnu við að þrífa þá. Við getum skapað aðstæður til að vinna við verkefni sem kallar á verkfærni sem og dómgreind viðkomandi við slík verkefni.
Styrkleiki okkar hér á Reykjalundi liggur meðal annars í þessum möguleika. Það er annað að fá að prófa verk eða tala bara um það við viðkomandi.“
Tenging við atvinnulífið
Hvað með tengingu við atvinnulífið?
„Ég sá fyrir mér strax og VIRK kom til, að þar væri kominn ákveðinn hlekkur milli atvinnulífsins og endurhæfingar,“ segir Magnús. „Og þar ætti ekki að ríkja einstefna heldur tvístefna. Skjólstæðingar VIRK eru metnir þar og vísað í ýmiss endurhæfingarúrræði. VIRK er tengt atvinnulífinu. Þannig eru ráðgjafar VIRK yfirleitt tengdir stéttarfélögum. Ég sé fyrir mér að VIRK gæti hjálpað til með tengingu skjólstæðinga til baka aftur á vinnumarkað.
Ef fyrir hendi er verulega skert færni, en ríkur vilji hjá einstaklingnum til að vinna, þá er oft hægt að finna flöt á því. Til dæmis í vernduðu umhverfi. Atvinna með stuðningi er nánast eitthvað hugtak sem varpað er fram á tyllidögum. En þessi möguleiki er mun algengari í nágrannalöndum okkar og gengur vel. Mikilvægt er að hafa tengsl við fyrirtæki, sem vildu taka við slíkum einstaklingum. Þó ekki væri nema tímabundið. Vinna á alvöru vinnustað myndi efla sjálfstraust fólks.“
Hver eru næstu skref?
„Að kostnaðargreina matið og skoða hversu marga við getum tekið. Hversu mikil þörfin er og útfrá því hversu mikinn mannafla þarf,“ segja þau Magnús og Inga. „Í framhaldinu þarf svo að gera samning við VIRK og kynna matið. Við erum að vinna í þessum málum. Þetta er spennandi viðfangsefni sem kallar á fleiri starfsstöðvar og fleiri verkefni.“
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason