Anna Linda Bjarnadóttir - Héraðsdómslögamaður
Í húsi Hjartaverndar að Holtasmára 1 er að finna lögmannsstofuna Lexista ehf. sem Anna Linda Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður hefur rekið í ellefu ár. Þar var Margrét Guðfinnsdóttir í starfsþjálfun í sumar. En hver voru tildrög þess?
„Margrét kom til mín í starfsþjálfun eftir að haft var samband við mig frá fyrirtækinu Sinnum, sem tekur þátt í starfsemi á vegum VIRK. Ég var spurð hvort ég gæti boðið konu að koma til mín í stafsþjálfun, sem hefði mikinn áhuga á að komast í umhverfi þar sem væri rekstur og bókhald. Ég var jákvæð gagnvart þessu og sagði strax já. Ég tel að samfélagið eigi að bjóða upp á vinnu og störf fyrir alla þá sem vilja og geta unnið úti. Ég hef líka fylgst með átakinu „Vinnandi vegur“ og finnst frábært að fólk skuli geta komið í starfsþjálfun til að sjá hvar hæfileikar þess liggja, auka starfsgetuna og auðvelda því að komast út á vinnumarkaðinn, það er hagur allra að þar takist vel til,“ segir Anna Linda.
En hvað varð til þess að Margrét sneri sér til VIRK?
„Ég var á námskeiði síðastliðið haust þegar ég þurfti að hætta störfum. Kona í námskeiðshópnum benti mér á VIRK. Ég hafði þá ekki heyrt getið um þá starfsemi. Ég er í SFR (Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar) og gerði þetta. Ráðgjafi minn, Soffía Eiríks frá SFR, spurði mig í vor, eftir að ég hafði verið hjá henni síðan í desember, hvort ég hefði áhuga á að komast í starfsþjálfun. Hún gerði margt fyrir mig, kom mér í meðferð hjá Gigtarfélaginu og fann fljótlega út að sjálfsmynd mín gæti verið betri, þannig að hún fékk fyrir mig tíma hjá sálfræðingi. Ég hafði verið vinnulaus frá 1. desember síðastliðnum, hafði áður unnið verkakonustörf. Nú fékk ég áhuga á að skipta algerlega um umhverfi. Ég hef haft áhuga á bókhaldi og rekstarumhverfi frá barnsaldri, löngum haldið heimilisbókhald og lengi langað til að vera bókari,“ segir Margrét.
„Hún kom hingað, eins og hún sagði sjálf, ekki allt of sjálfsörugg, – en með hverjum deginum sem leið efldist hún og eftir nokkra daga hætti hún að segja: „Ég er ekki viss um að ég ráði við þetta!“ Hún fór að taka með sér verkefni heim."
Áttaði mig smám saman á styrkleikum hennar
Anna Linda, hvað fórstu að láta Margéti gera þegar hún kom til þín?
„Ég hef ekki lesið mér til um aðferðafræði í starfsþjálfun og ekki áður fengið til mín fólk í starfsþjálfun frá VIRK eða Sinnum en ég hef verið með marga laganema í starfsþjálfun. Ég ákvað að hafa Margréti einfaldlega í sama prógrammi og laganemana. Í ferilskrá hennar stóð að hún hefði mikinn áhuga á bókhaldi og væri töluglögg. Ég tók til ársreikninga sem hún átti að gera fyrir félög sem voru í óvirkum rekstri. Þetta var nýtt fyrir henni, en hún gerði þetta vel. Síðar fékk hún það verkefni að útbúa fylgiskjalamöppu til að undirbúa færslu bókhalds. Þetta voru bankayfirlit og fjölmörg fylgiskjöl sem öll voru í einum hrærigraut í plastpoka; hún átti að raða þessu upp og gerði það mjög vel. Þess ber að geta að Margrét hafði verið í skrifstofunámi og grunnatriði í bókhaldi, sem og á forritin Word og Excel, sem var góður grunnur. Einnig las hún grunnatriði í skattarétti og félagarétti, því nauðsynlegt er að hafa einhvern fræðilegan grunn.
Smám saman áttaði ég mig á því hvar styrkleiki hennar lægi. Margrét er einstaklega töluglögg manneskja og eldsnögg að reikna út. Ég fór að einbeita mér að því að finna verkefni sem tengdust því. Ég bað hana að setja upp fyrir mig skjöl í Excel, svo sem drög að úthlutun fyrir dánarbú, og fleira. Þetta gerði hún einnig mjög vel. Í öðru máli fékk hún það verkefni að gera greiningu á gengisþróun japanska yensins, hún var frekar kvíðin fyrir því, en ég sagði að hún gæti þetta alveg úr því hún hafði leyst hin verkefnin. Auðvitað fékk hún leiðbeiningar og ég fylgdist vel með framvindu verksins. Hún gerði þetta mjög vel, setti upp alls kyns töflur á svo flottan hátt að ég hefði sjálf aldrei getað gert betur.
Ég legg einnig áherslu á að fólk fái verkefni við hæfi, sem ég veit að það mun ráða við. Ef verkefni eru aðeins of krefjandi veiti ég leiðbeiningar og vinn verkið jafnvel með viðkomandi. Ég læt fólk aldrei ströggla en geri kröfu um að reynt sé að leysa verkefnin eftir bestu getu og gefast aldrei upp. Að mínu mati er það besta leiðin til að byggja upp sjálfstraust í starfi. Svo er mikilvægt að stjórnandi sé jákvæður og kurteis. Þetta er fólk sem er í þjálfun, en er ekki útlært. Til þess verður að taka tillit.“
Margrét skýtur inn í að hún hafi verið mjög kvíðin þegar hún hóf störf hjá Önnu Lindu.
„Það var gaman að sjá þá breytingu sem varð á Margéti,“ segir Anna Linda. „Hún kom hingað, eins og hún sagði sjálf, ekki allt of sjálfsörugg, – en með hverjum deginum sem leið efldist hún og eftir nokkra daga hætti hún að segja: „Ég er ekki viss um að ég ráði við þetta!“ Hún fór að taka með sér verkefni heim. Mér fannst hún standa sig svo vel að ég gleymdi því að hún væri með gigt og spurði hana aldrei hvernig henni liði í bakinu eða höndunum – það liggur við ég skammist mín fyrir þetta,“ segir Anna Linda og þær hlægja báðar. „Með því að bjóða fólki að taka verkefni með sér heim er hægt að sýna sveigjanleika gagnvart þeim sem eiga erfitt með að sitja lengi við í einu.“
Hef áhuga á að bjóða fleirum í starfsþjálfun
Þegar þú ert að taka fólk inn á stofuna til þín, veltirðu þá vöngum yfir þeim verkefnum sem fólkið þarf að takast á við?
„Ég tek alltaf til verkefni fyrirfram og undirbý mig. Ef maður undirbýr sig ekki er eins gott að sleppa þessu, þetta er grundvallarskilyrði. Í fyrstu eru þetta verkefni sem ætla mætti að flestir með ákveðinn bakgrunn myndu ráða við, svo sér maður mjög fljótlega hvar styrkleikar fólks liggja og leggur áherslu á þá þætti. Í lögmannsstarfinu á maður samskipti við alls konar fólk, úr öllum stéttum samfélagsins. Þetta er starf sem eykur því mannskilning og skerpir á hæfileikanum til að setja sig í spor annarra. En auðvitað má lengi manninn reyna.
Í tilviki Margrétar þá kom hún fyrst til mín í viðtal ásamt sálfræðingi hjá Sinnum, við fórum yfir starfsferilsskrá hennar og ég taldi upp þau fyrstu verkefni sem ég hafði ætlað henni og reyndi auðvitað að hafa þau skemmtileg og spennandi. Hún átti að vera hjá mér í fjórar vikur samfellt, en vegna sumarfrís var hún hjá mér í tvær vikur og lauk starfsþjálfuninni á skrifstofunni hjá Sinnum, en ég hefði gjarnan viljað hafa hana áfram og lengur. Ég hef raunar áhuga á að vinna meira með VIRK og frammistaða og þakklæti Margrétar hafa orðið mér hvatning til þess að bjóða fleirum að koma í starfsþjálfun til Lexistu,“ segir Anna Linda.
Margrét bætir við að hún líti framtíðina nú björtum augum og hyggur á frekari starfsþjálfun í bókhaldi samhliða undirbúningsnámskeiði fyrir nám til þess að verða viðurkenndur bókari.