Fara í efni

Í starfi

Það er vissulega spennandi að byrja í nýju starf eða koma til starfa eftir að hafa verið fjarverandi í nokkurn tíma, en um leið er gott að huga að því að byrjunin takist virkilega vel.

Að byrja í nýju starfi

Ef þú varst að ráða þið í nýtt starf er full ástæða til að fagna. Innilega til hamingju!

Um leið og þú fagnar nýja starfinu er gott að fara yfir nokkur atriði sem geta komið sér vel fyrsta mánuðinn á nýjum stað. Flestir finna fyrir spenningi og smá kvíða þegar þeir byrja í nýju starfi og það er fullkomlega eðlilegt. Það getur því verið ágætt að renna yfir hvað þarf helst að hafa í huga til að allt lukkist vel.

  • Undirbúðu þig vel fyrir fyrsta daginn. Kvöldið fyrir fyrsta vinnudag er gott að fara yfir allar tímasetningar, staðsetningar og ferðamáta, kynna þér vel fyrirtækið, hafa til viðeigandi klæðnað og átta þig á hvort þú þarft að hafa eitthvað meðferðis. Góður undirbúningur dregur úr kvíða.
  • Sofðu vel. Farðu tímanlega að sofa til að vera í góðu jafnvægi. Það er eðlilegt að spenningur haldi fyrir þér vöku en hafðu þá samt í huga að vakna nógu snemma til að fara í sturtu, taka þig til og passa að lenda ekki í tímastressi um morguninn.
  • Hugaðu að viðeigandi klæðnaði. Þú hefur væntanlega lagt þig fram um að klæðast óaðfinnanlega þegar þú fórst í atvinnuviðtalið og ættir einnig að gera það þegar þú mætir til vinnu. Ef þú ert ekki viss um hvaða klæðnaður sé við hæfi er best að klæðast látlausum og snyrtilegum klæðnaði.
  • Sýndu þínar bestu hliðar. Mættu tímanlega fyrsta daginn og sýndu kurteisi og vinsemd. Kurteisi og vingjarnlegt viðmót kostar þig ekkert en getur skilað þér svo miklu.
  • Nýttu þér nýliðafræðsluna. Fyrstu dagana í vinnu er oftast í boði kynning á starfsemi fyrirtækisins og nýliðafræðsla sem þú ættir að nýta þér vel. Sýndu áhuga, spurðu spurninga og reyndu að læra og skrifa hjá þér sem allra mest. Þér finnst þú eflaust þurfa að taka mikið inn svona í upphafi en það er alveg eðlilegt og best að einbeita þér að einu í einu. Mundu að enginn ætlast til að þú kunnir allt á fyrsta degi en þess er vænst að þú sýnir áhuga og leggir þig fram við að tileinka þér menningu og verklag fyrirtækisins.
  • Leggðu þig fram um að kynnast samstarfsfólkinu. Það er alltaf nokkur áskorun að kynnast nýju samstarfsfólki en mundu að þetta fólk veit hvernig er að vera byrjandi í fyrirtækinu og því tilbúið að aðstoða. Gríptu tækifærin til að spjalla við kaffivélina eða í mötuneytinu því það hjálpar þér að komast inn í hópinn, kynnast óskráðu reglunum og starfsandanum.
  • Forðastu slúður. Reyndu eftir fremsta megni að láta ekki draga þig inn í slúður um samstarfsfólk eða yfirmenn.
  • Hugsaðu fyrirfram hvernig þú ætlar að kynna þig. Vertu búin að hugsa aðeins hvernig þú vilt kynna þig, dragðu upp jákvæða mynd af þér en vertu umfram allt þú sjálf/ur. Stattu með eigin gildum og viðhorfum án þess þó að stuða aðra.
  • Sýndu sveigjanleika og opið hugarfar. Leggðu þig fram um að læra hvernig hlutirnir eru unnir á nýja staðnum. Slepptu því að koma inn með gamla siði frá síðasta vinnustað. Jákvæðni, sveigjanleiki og opið hugarfar mun auðvelda þér aðlögun að nýja vinnustaðnum.
  • Gættu þess að stuða ekki samstarfsfólkið. Fyrstu vikurnar er mikilvægt að hafa hægt um sig og meðtaka frekar en að miðla af eigin visku. Það tekur tíma að ávinna sér traust á vinnustað. Þegar þér finnst þú hafa öðlast nokkuð traust getur þú gert þig meira gildandi með því að leggja til lausnir og leiðir.
  • Áttaðu þig á þínu ábyrgðarhlutverki. Leggðu þig fram við að kynnast yfirmanni þínum og eiga við hann jákvæð samskipti því það auðveldar þér að átta þig á hvar ábyrgð þín liggur.
  • Mættu til vinnu með allt sem þú hefur að bjóða. Mundu að mæta með alla þína færni og þekkingu til vinnu. Þú varst ráðin úr hópi umsækjenda af því að þú býrð yfir því sem fyrirtækið er að sækjast eftir.
  • Tengdu við samstafsmann sem getur leiðbeint þér. Líklegt er að fyrirtækið fái einhvern til að aðstoða þig fyrstu vikurnar en ef ekki skaltu finna samstarfsmann sem gæti aðstoðað.
  • Endurnýjaðu orkuna í frítíma. Hvíldu þig þegar heim er komið, slökktu á farsímanum og slakaðu á með vinum og fjölskyldu. Góð hreyfing, holl næring og nætursvefn er gullsígildi.

 

Endurkoma til vinnu eftir langt hlé – góð ráð

Ef þú hefur ekki verið á vinnumarkaði í langan tíma og ert nú komin/n með starf þá er ekki ólíklegt að þú upplifir allskonar tilfinningar því tengdu. Það er eðlilegt að upplifa blöndu af létti og kvíða (ásamt spennu og ótta) þegar þú ert að fara að taka fyrsta skrefið þitt út á vinnumarkaðinn eftir langa fjarveru. Til að róa taugarnar og hjálpa þér við þetta fyrsta skref þá höfum við tekið saman nokkur góða ráð fyrir undirbúninginn.

Byrjaðu að aðlaga daginn þinn að komandi vinnuskipulagi

Þegar þú ert atvinnulaus þá hefurðu líklega upplifað ákveðið frelsi þegar kemur að tímaskipulagi t.d. hvenær þú borðar, sefur eða hittir vini þína. Þegar þú þarf skyndilega að gjörbreyta dagsdaglegum venjum þá getur það verið dálítið erfitt að aðlagast. Því ættirðu að reyna eftir fremsta megni að skipuleggja daginn þinn með þetta í huga þ.e. að þú sért við vinnu ákveðinn hluta úr deginum. Þú getur byrjað á því að borða reglulega og breyta svefnvenjum í takt við komandi tíma.

Fækkaðu viðburðum utan vinnu

Þegar þú byrjar í nýju vinnunni þá máttu eiga von á því að finna fyrir mikilli þreytu fyrstu vikurnar. Líkami þinn er að aðlagast nýju dagskipulag og hugurinn fyllist af nýjum upplýsingum. Við mælum því með því, til að byrja með, að þú gefir þér tímann eftir vinnu til þess að hvíla þig. Bíddu aðeins með félagslega viðburði og „hittinga“ en það er mikilvægt að vanmeta ekki hversu orkufrekar þessar fyrstu vikur verða hjá þér. Jafnmikilvægt er að muna að þessi þreyta ætti að vera tímabundin. Þrekið verður fljótt að koma og þú ættir vera farin/n að finna fyrir betra jafnvægi eftir nokkrar vikur.

Sýndu þér auðmýkt og samkennd

Minntu þig reglulega á það að þú ert nýliði og það er eðlilegt að það taki tíma að komast inn í nýtt starf. Settu þér raunhæf markmið og ekki reyna að læra allt í fyrstu vikunni þinni. Áhugasemi er sannarlega styrkleiki en gefðu þér tíma til að fylgjast með samstarfsfólki þínu og hvernig flæðið virkar í þessu nýja umhverfi.

Ekki reyna að virðast alvitur

Löng fjarvera frá vinnumarkaði getur oft leitt af sér töluvert óöryggi í fólki og kveikt í þeim mikla löngun til þess að sanna sig í nýju starfi sem allra fyrst. En áhrifin af því að mæta eins og stormsveipur á nýjan stað getur haft öfug áhrif. Mundu að þú varst ráðin/n af því þú varst rétti aðilinn í starfið og uppfyllir settar hæfniskröfur. Þannig að í stað þessi að koma inn með látum þá ættirðu kannski að byrja á því að draga andann djúpt og gefa þér leyfi til þess að komast inn í starfið í rólegheitum. Spurðu spurninga og viðurkenndu að þú þarft að læra heilmargt áður en þú nærð tökum á starfinu. Þetta mun taka pressuna af þér ásamt því að nýju vinnufélagarnir fá mun betri tilfinningu fyrir þér ef þú ert auðmjúk/ur gagnvart því sem þú veist ekki .. ennþá!

Reyndu að kynnast nýju vinnufélögunum

Ef þér er ekki úthlutaður sérstakur leiðbeinandi inn í starfið þá er mjög gott að reyna að byrja á því að tengjast fólkinu í kringum þig. Þetta er mikilvægt svo þú sért óhrædd/ur við að spyrja spurninga og óska eftir aðstoð. Vantar þig ísbrjót? Spurðu hvar prentarinn er!

Sýndu stjórnendum virðingu

Ef þú ert að snúa aftur á vinnumarkaðinn en inn á nýjan starfsvettvang þá er ólíklegt að þú sért að fara beint í stjórnendastöðu. Þér kann að finnast erfitt að horfast í augu við þetta ef þú varst í stjórnendastöðu áður en það er mikilvægt fyrir þig að muna að þú ert ekki stjórnandinn lengur. Það er sjálfsagt að deila reynslu sinni en leyfðu þínum stjórnanda að sinna sínu starfi og hver veit nema að þú vaxir í starfinu með meiri reynslu.

Aftur í fyrra starf

Þátttaka á vinnumarkaði spilar stórt hlutverk í lífi okkar og henni fylgir margskonar ávinningur. Nokkuð augljós er ávinningurinn af fjárhagslegu öryggi en ánægjan og lífsfyllingin sem fólk fær þegar það getur lagt af mörkum til samfélagsins og notið virðingar fyrir störf sín er ekki síðri. 

Rannsóknir hafa sýnt að ávinningur af atvinnuþátttöku og samstaf við vinnufélaga getur flýtt verulega fyrir bata hjá fólki sem hefur lent í veikindum eða slysum. Þess vegna er það núorðið almennt talinn góður kostur í starfsendurhæfingu að reyna við hlutastarf samhliða annarri eflingu. 

Ef þú hefur verið í veikindaleyfi um einhvern tíma og ert með ráðningarsamband við fyrirtækið sem þú starfar hjá er til mikils að vinna fyrir þig að reyna að komast sem fyrst aftur til starfa. Mögulega treystir þú þér ekki í fullt starf strax en gætir hugsað þér að byrja í hlutastarfi og koma rólega til baka.

Fyrsta skrefið væri að ræða við yfirmann þinn um hvort og hvernig þið gætuð skipulagt endurkomu þína. Reynslan hefur sýnt að það geti verið gagnlegt að hafa í huga að setja upp sameiginlegt skipulag eða vinnuáætlun fyrir fyrstu vikurnar eða mánuðina. Skýr og afmarkaður tímarammi er gagnlegur þar sem verkefnin eru tilgreind og vinnutími. Ráðlegt er líka að endurmeta skipulagið reglulega og gera nauðsynlegar breytingar ef þarf.

10 atriði til að auðvelda endurkomu til vinnu

  • Haltu sambandi við samstarfsfólk og yfirmenn í veikindunum því það auðveldar þér leiðina til baka.
  • Fáðu tíma með yfirmanni þínum til að ræða endurkomuna.
  • Ræddu við hann um hvort mögulegt sé að byrja rólega og auka við þig smátt og smátt.
  • Ekki hafa of miklar áhyggjur. Það getur verið kvíðvænlegt að byrja aftur eftir fjarveru og það er fullkomlega eðlilegt. Mestar líkur eru á að þú fallir vel inn í starfið þitt á ný.
  • Leggðu tímanlega af stað til vinnu til að lenda ekki í tímaþröng og stressi.
  • Gerðu ráð fyrir að svara spurningum samstarfsmanna um fjarveru þína og hugsaðu fyrirfram hvernig þú ætlar að svara þeim.
  • Ef álag í vinnu var mjög íþyngjandi í aðdraganda veikindanna getur verið mikilvægt fyrir þig að ræða við yfirmann um að draga úr verkefnum eða gera nauðsynlegar breytingar á tíma eða aðstöðu til að allt fari ekki í sama farið á ný. Þú gætir nýtt þér endurkomusamtalið.
  • Sýndu þér þolinmæði og umburðarlyndi fyrstu dagana. Það tekur tíma að vinna upp starfsþrek að nýju og eðlilegt að finna fyrir óöryggi.
  • Mundu að ætla þér ekki of mikið og að vinna bara eitt verkefni í einu.
  • Leitaðu stuðnings hjá vinum, samstarfsfólki eða fagaðilum ef þú finnur fyrir miklu óöryggi eða kvíða.

 

Vellíðan í vinnu

Við verjum stórum hluta ævinnar við vinnu og viljum því flest láta okkur líða vel í vinnunni. Við vitum að stjórnun, skipulag, aðstæður og samskipti á vinnustaðnum hafa þar mikið að segja. Við vitum líka að okkar eigin viðhorf og nálgun skiptir mjög miklu máli.

Á VelVIRK.is er hægt að finna mörg góð ráð bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur til að auka vellíðan á vinnustaðnum. Nú ert þú mögulega að búa þér til nýtt líf á nýjum vinnustað og því tækifæri til að huga vel að þessum málum og tryggja vellíðan þína í vinnu. 

 

Verkfærakistan

Vinnuáætlun

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Líflínan þín - 60+

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Endurkoma til vinnu

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Heimurinn minn

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Click on Translation in the top-right corner on your computer or down below on your mobile for other languages. It will not be perfect but useful. / Kliknij w tłumaczenie w prawym górnym rogu aby wybrać język angielski lub inny. Nie będzie ono perfekcyjne ale przydatne.

 

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband