Fara í efni

Starfsendurhæfingarsjóður - starfsendurhæfing á vinnumarkaði

Til baka

Starfsendurhæfingarsjóður - starfsendurhæfing á vinnumarkaði

Á síðustu 10 árum hefur einstaklingum sem ekki  taka þátt á vinnumarkaði vegna skertrar starfsgetu fjölgað mikið.  Fjöldi örorkulífeyrisþega er um 15.000 og hefur fjölgað um ríflega 6000 manns á síðustu 10 árum. Kostnaður samfélagsins vegna þessa nemur tugum milljarða króna á ári auk þess sem lífsgæði hjá viðkomandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra eru skert. 

Kostnaður á vinnumarkaði vegna veikinda og slysa nemur að auki milljörðum króna á ári en draga má verulega úr þessum kostnaði með stjórnun og fyrirbyggjandi aðgerðum.  Til viðbótar þessu námu greiðslur TR vegna örorkulífeyris 17,2 milljörðum króna á árinu 2008 og lífeyrissjóðanna um 8,4 milljarða, sem er um 17% af heildargreiðslum þeirra til lífeyrisþega.  Það er því hagsmunamál einstaklinga, atvinnurekenda og samfélagsins í heild að snúa þessari þróun við.  Rannsóknir hafa sýnt að öflug starfsendurhæfing skilar verulegum ávinningi – bæði fjárhagslegum og ekki síst í betri lífsgæðum þátttakenda.

Þörf á markvissari vinnubrögðum......

Þó hér á landi hafi starfsendurhæfing verið til staðar í áratugi og gott fagfólk hefur af miklum metnaði byggt upp öflug starfsendurhæfingarúrræði – sérstaklega fyrir einstaklinga án fagmenntunar sem hafa verið utan vinnumarkaðar í talsverðan tíma – hefur réttur einstaklinga til slíkrar þjónustu aldrei verið skilgreindur hvorki í lögum né kjarasamningum. 

Af þessum sökum hefur skort á að einstaklingum hafi kerfisbundið verið boðið upp á úrræði sem þessi og snemmbær inngrip hafa að takmörkuðu leiti verið til staðar. Ennfremur hefur ekki farið í gang neitt markvisst ferli þegar einstaklingar sækja um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins sem stuðlar að því að hvetja þessa einstaklinga og veita þeim aðstoð til sjálfshjálpar. Varanleg örorka einstaklings er í dag metin eingöngu út frá læknisfræðilegum forsendum og í mati sem er einungis í formi eins viðtals hjá lækni.  Þegar á örorku er komið er sjaldan haft samband við þessa einstaklinga og þeir hvattir til aukinnar virkni.  

Þessum vinnubrögðum þarf að breyta, það þarf markvisst að veita öryrkjum og þeim sem búa við langvarandi veikindi meiri þjónustu og hvatningu. Það þarf að byggja upp kerfi þar sem gripið er snemma inn veikindaferli sem leiðir til varanlegrar örorku og óvirkni á vinnumarkaði.  Um þetta hefur verið rætt í nokkur ár á vegum opinberra aðila án þess að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana og nauðsynlegar breytingar gerðar.  Í ljósi þessa aðgerðarleysis ákváðu aðilar vinnumarkaðarins að semja um viðbrögð við vandanum sín á milli og tryggja jafnframt verkefninu nægjanlegt fjármagn til að koma málum á hreyfingu.

Snemmbært inngrip
Snemmbært inngrip er lykilorð í starfsendurhæfingu og forsenda þess að unnt sé að ná góðum árangri – þetta er bæði niðurstaða fjölda erlendra rannsókna og reynslu fagmanna á þessu sviði.  Það þarf að bjóða upp á þjónustu um leið og fyrirséð er að einstaklingur er frá vinnu í meira en fjórar vikur vegna heilsubrests.  Það er mikilvægt að ná til þessara einstaklinga snemma og hvetja þá til að nýta sér þjónustu sem eykur virkni þeirra og þátttöku.  Hér á landi er snemmbært inngrip af þessu tagi ekki mögulegt nema í samstarfi við atvinnurekendur og stéttarfélög því réttur til launa og bóta í veikindum liggur að mestu leiti hjá atvinnurekendum og í sjúkrasjóðum stéttarfélaga.

Framfærsluskylda hins opinbera vegna veikra einstaklinga kemur oft ekki til fyrr en mjög seint í ferlinu – oft ekki fyrr en einu og hálfu ári eftir að viðkomandi veiktist.  Þessu er öðruvísi farið á hinum Norðurlöndunum en þar eru launagreiðslur í veikindum að verulegu leiti fjármagnaðar af opinberum aðilum og einstaklingar þurfa að eiga samskipti við opinberar stofnanir mun fyrr en hér á landi vegna bótagreiðslna til framfærslu  

Aðilar vinnumarkaðar og uppbygging og þróun velferðarkerfisins
Til að stuðla að breyttum vinnubrögðum í þessum málaflokki og tryggja aukna þjónustu við einstaklinga sem búa við heilsubrest af einhverjum toga þá ákváðu aðilar vinnumarkaðarins – öll helstu samtök launamanna og atvinnurekenda hér á landi – að semja um stofnun og starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs í kjarasamningum á árinu 2008.  Það er ekki nýtt að aðilar vinnumarkaðar semji um mikilvæg mál velferðarkerfisins í kjarasamningum – hvorki hér á landi né á hinum Norðurlöndunum.  Samtök launamanna hafa einnig í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki við að byggja upp það velferðarkerfi sem við búum við í dag og auk þess er stór hluti velferðarkerfisins hér á landi til staðar vegna samstarfs verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda og má þar t.d. nefna lífeyrissjóðina, atvinnuleysistryggingar og rétt til launa og bótagreiðslna í veikindum.  Með stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs hafa aðilar vinnumarkaðarins ákveðið að taka ábyrgð á þessum málaflokki og byggja upp öfluga starfsendurhæfingu á vinnumarkaði – samfélaginu öllu til heilla.

Hlutverk og verkefni Starfsendurhæfingarsjóðs
Hlutverk sjóðsins er m.a. að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu starfsendurhæfingar og öðrum úrræðum.  Sjóðurinn hefur einnig það hlutverk að styðja við rannsóknir og þróun á sviði starfsendurhæfingar og efla þekkingu og reynslu á þessu sviði hér á landi.  Starfsendurhæfingarsjóður starfar í náinni samvinnu við sjúkrasjóði stéttarfélaga þar sem skipulögð hefur verið ráðgjafaþjónusta á sviði starfsendurhæfingar fyrir launamenn sem búa við skerta vinnugetu vegna heilsubrests.  

Átján ráðgjafar í starfsendurhæfingu starfa nú hjá stéttarfélögum um allt land fyrir tilstuðlan sjóðsins og veita þeir einstaklingum aðstoð og ráðgjöf á sviði starfsendurhæfingar.  Þessir ráðgjafar hafa  fjölbreytta reynslu og menntun sem nýtist á þessu sviði.  Þeir fá auk þess sérstaka fræðslu, þjálfun, leiðsögn og aðstoð frá sérfræðingum Starfsendurhæfingarsjóðs.  Flestir ráðgjafanna tóku til starfa síðastliðið haust og hafa þeir tekið á móti nokkur hundruð einstaklingum í ráðgjöf.  Nú þegar eru margir einstaklingar komnir aftur í  vinnu sem geta þakkað árangur sinn og vinnugetu þeirri aðstoð og ráðgjöf sem þeir fengu hjá þessum ráðgjöfum.

Auk þjónustu ráðgjafa hjá stéttarfélögum um allt land þá fjármagnar Starfsendurhæfingarsjóður nauðsynlega sérfræðiþjónustu og úrræði til að stuðla að aukinni vinnugetu einstaklinga.   Dæmi um þessa þjónustu og úrræði er t.d. þjónusta sérfræðinga sem leggja þurfa sérstakt mat á vinnugetu einstaklinga, þjónusta sálfræðinga og sérhæfð starfsendurhæfingarúrræði sem boðin eru af sérfræðingum og starfsendurhæfingarstöðvum víða um land.  Í flestum tilfellum er hér um að ræða sjálfseignarstofnanir sem reknar eru af félagasamtökum til að uppfylla þörf fyrir þjónustu og úrræði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu.

Samvinna við opinbera aðila og samræming á aðferðum og þjónustu
Starfsendurhæfingarsjóður leggur áherslu á að vinna með opinberum stofnunum og hefur m.a. lagt mikla vinnu í þróun á nýju starfshæfnismati í samvinnu við sérfræðinga frá ýmsum opinberum stofnunum.  Með nýju starfshæfnismati lögð til samræming á  þjónustu sem allir eiga að njóta vegna skertrar starfshæfni hvort sem þjónustan kemur frá  stéttarfélögum eða opinberum stofnunum og hvort sem hún er  fjármögnuð af Starfsendurhæfingarsjóði eða opinberum aðilum.  Tilurð Starfsendurhæfingarsjóðs og aukið fjármagn í málaflokkinn m.a. frá atvinnulífinu og ætti þannig að verða til þess að opinberar stofnanir hafi meiri möguleika á að veita þeim sem standa utan vinnumarkaðar betri þjónustu.  Þess má geta í þessu samhengi að um 80% örorkulífeyrisþega hjá TR fá einnig greiddan örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum – þ.e. þessir einstaklingar hafa verið á vinnumarkaði og munu því eiga rétt á aðstoð sem fjármögnuð er af Starfsendurhæfingarsjóði.  Sjóðurinn mun því í framtíðinni standa straum af kostnaði af meiri hluta þeirrar starfsendurhæfingu sem þörf er á hér landi.

„Einkavæðing“ og þjónusta stéttarfélaga
Sú gagnrýni hefur komið fram að sjóðurinn muni með starfsemi sinni ýta sérstaklega undir einkavæðingu innan velferðarkerfisins.  Þessu er til að svara að Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun og er ekki rekin í ágóðaskyni.  Starfsemi sjóðsins lýtur einkum að því að byggja upp og halda utan um störf ráðgjafa hjá stéttarfélögum um allt land og fjármagna úrræði sem ekki eru greidd af hinu opinbera heilbrigðis og menntakerfi.  Starfsendurhæfingarsjóður veitir ekki heilbrigðisþjónustu og greiðir  ekki fyrir heilbrigðisþjónustu sem er fjármögnuð af hinu opinbera. Hins vegar er lögð  áhersla á að vinna vel með fagfólki innan heilbrigðiskerfisins og þá sérstaklega með heimilislæknum og öðru starfsfólki heilsugæslustöðva.  Enda  sjá  margir heilsugæslulæknar tækifæri í samstarfi við sjóðinn og fagna því að geta vísað skjólstæðingum sínum á þjónustu sem þessa – þjónustu sem miðar að því að byggja brú milli heilbrigðiskerfisins og vinnumarkaðarins sem hefur ekki áður verið til staðar.

Stór hluti þeirrar þjónustu sem Starfsendurhæfingarsjóður er að byggja upp hefur ekki verið til staðar áður og því er á engan hátt hægt að tala um að verið sé að einkavæða þá þjónustu. Það er ekki verið að færa hana milli aðila heldur byggja hana upp frá grunni.  Þess ber einnig að geta að opinberar stofnanir hafa nú til margra ára gert þjónustusamninga við ýmsa einkaaðila um þjónustu á sviði starfsendurhæfingar.  Oftast er um að ræða sjálfseignarstofnanir en einnig fyrirtæki og einstaklinga sem selja sína sérfræðiþekkingu

Velferð á vinnumarkaði og norræn velferðarkerfi
Sú gagnrýni hefur einnig komið fram að Starfsendurhæfingarsjóður stuðli að „vinnumarkaðsvæðingu á velferð“ og sé ekki í „anda norrænna velferðarkerfa“.  Ekki er ljóst hvað átt er við með vinnumarkaðsvæðingu á velferð í þessu samhengi en hitt er ljóst að á Norðurlöndum hafa aðilar vinnumarkaðar átt ríkan þátt í því að stuðla að og byggja upp það velferðarkerfi sem er við lýði í þessum löndum í dag.  Þar er einnig viðurkenndur réttur stéttarfélaga að semja um aðstoð og þjónustu fyrir félagsmenn sína.  Eitt einkenni norrænna velferðakerfa er gott samstarf milli verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ríkisvaldsins hvað varðar þróun og uppbyggingu á velferðarkerfinu. 

Samningar á vinnumarkaði hafa gegnt stóru hlutverki og aðilar vinnumarkaðar hafa m.a. lagt ríka áherslu á að byggja upp gott stuðningskerfi við einstaklinga sem standa höllum fæti á vinnumarkaði. Í þessu samhengi er tilvist Starfsendurhæfingarsjóðs í fullu samræmi við anda norrænna velferðarkerfa.  En þó Norðurlöndin hafi sameiginlega sýn til grundvallaratriða við uppbyggingu og þróun samfélagsins þá eru þau um sumt ólík innbyrðis og hafa valið sér ólíkar leiðir með ýmsa þætti.  Þannig hefur Ísland nokkra sérstöðu þegar kemur að launa- og bótagreiðslum í veikindum þar sem atvinnurekendur og stéttarfélög gegna mun stærra hlutverki hér á landi en á hinum Norðurlöndunum,  því er fullkomlega eðlilegt að þessir aðilar hafi forystu um uppbyggingu á starfsendurhæfingu á vinnumarkaði.

Nánari upplýsingar um Starfsendurhæfingarsjóð er að finna á heimasíðu sjóðsins http://www.virk.is/ og í síma 5355700


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband