Fara í efni

Laun og bætur

VIRK hefur ekki með framfærslu að gera og ber ekki ábyrgð á framfærslu einstaklinga.

Í töflunni hér að neðan má finna yfirlit yfir þá aðila sem geta komið að greiðslu launa eða framfærslubóta ef um er að ræða skerta starfshæfni vegna veikinda eða slyss.

Hér er eingöngu um að ræða yfirlit, en mikilvægt er að einstaklingar leiti sér aðstoðar og nánari upplýsingar hjá þeim sem tilgreindir eru í töflunni. Ráðgjafar hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga munu einnig aðstoða einstaklinga í þessum efnum.

Tafla - Yfirlit yfir laun og bætur í kjölfar veikinda eða slyss

 


Tegund réttinda/bóta


Lýsing


Nánari upplýsingar

Launagreiðslur frá atvinnurekanda

 

Launamenn eiga rétt á greiðslu launa í fjarveru vegna veikinda eða slysa. Tímalengd greiðslna ræðst bæði af starfsaldri og af gildandi kjara- og ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns. 

Nánari upplýsingar um rétt til launa í veikindum er hægt að fá hjá stéttarfélagi starfsmanns og/eða atvinnurekenda viðkomandi.

 

Greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga

 

Sjúkrasjóðir stéttarfélaga greiða dagpeninga í veikinda- og slysaforföllum. Tímalengd og fjárhæð greiðslna er mismunandi eftir sjóðum og ávinnslu réttinda hjá viðkomandi starfsmanni. 

Nánari upplýsingar um bótarétt hjá sjúkrasjóði er að finna hjá stéttarfélagi starfsmanns.

 

Greiðslur úr lífeyrissjóðum

 

Ef starfshæfni starfsfólks er skert til lengri tíma vegna veikinda eða slyss gæti viðkomandi átt rétt á lífeyri úr samtryggingarsjóði lífeyrissjóðs eða lífeyrissjóða. 

Nánari upplýsingar um rétt til lífeyris úr lífeyrissjóði er að finna hjá lífeyrissjóði starfsmanns.

 

Bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins

 

Tryggingastofnun ríkisins greiðir bætur og lífeyri vegna örorku og endurhæfingar. 

 

Á vefsíðu Tryggingastofunar www.tr.is er að finna upplýsingar um greiðslur vegna örorku og endurhæfingarlífeyris. Þar er líka reiknivél sem gefur niðurstöðu um rétt til bóta m.v. mismunandi forsendur.

Fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi

 

Sveitarfélögum er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Einnig er heimilt að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna óvæntra aðstæðna og áfalla. 

Nánari upplýsingar um fjárhagsaðstoð sveitarfélags er að finna hjá félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags.

 

Bætur hjá tryggingafélagi

 

Ef viðkomandi hefur keypt sér sérstakar tryggingar þar sem um er að ræða framfærslubætur vegna veikinda eða slysa þá getur hann átt rétt á að fá greiðslur. 

Nánari upplýsingar um bótarétt má nálgast hjá viðkomandi Tryggingafélagi.

 

 

Algengur ferill framfærslu í veikindum 

Ef um er að ræða fjarveru frá vinnu í lengri tíma þá er algengur ferill í bótagreiðslum eftirfarandi:

  1. Starfsmaður byrjar á að fá greidd laun frá atvinnurekanda í veikindum í samræmi við rétt sinn.
  2. Eftir að launagreiðslum lýkur fær starfsmaður greidda dagpeninga frá sjúkrasjóði stéttarfélags. Samhliða þeim greiðslum er hægt að sækja um sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands.
  3. Eftir að bótatímabili hjá sjúkrasjóði stéttarfélaga lýkur þá taka við bætur frá lífeyrissjóði og/eða Tryggingastofnun eftir aðstæðum.

Áður en fjárhagsaðstoð er veitt frá sveitarfélagi er fyrst athugað hvort viðkomandi eigi rétt til bóta hjá öðrum aðilum.

Ef um er að ræða greiðslur frá tryggingafélagi þá gilda skilmálar þeirra trygginga sem viðkomandi hefur fjárfest í.

Hér er um að ræða algengan feril en ekki þann feril sem alltaf á við. Aðstæður fólks eru einstaklingsbundnar og stundum flóknar og því er mikilvægt að hver og einn leiti sér aðstoðar við að sækja rétt sinn til framfærslu vegna veikinda eða slysa.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband