Jón Þór Jónsson
Næstum vorlegt er um að litast í versluninni GÁP við Faxafen. Reiðhjól að streyma inn sem gefa fyrirheit um betri tíð með blóm í haga eins og þar stendur. Við erum komin til að ræða við Jón Þór Jónsson sem lokið hefur þjónustu hjá VIRK og stendur nú vaktina í þessari verslun hress og sprækur.
Við Jón Þór setjum okkur inn í lítið tölvuherbergi til þess að ræða reynslu hans af þjónustunni hjá VIRK og það sem leiddi til þess að hennar varð þörf.
„Ég er lesblindur. Ég hef aldrei lesið bók, bara fyrirsagnir í blöðum. Og búið til kannski allt aðra sögu en fyrirsögnin gefur til kynna. Ef ég skrifa tölvupóst þá skrifa ég kannski sama orðið þrisvar og tek svo ekki eftir því fyrr en ég fer að lesa yfir. Ég sé töluvert í myndum en eftir að Storytel kom hef ég hlustað talsvert á hljóðbækur. Um þetta vissi ég ekki fyrr en þjónustuaðili hjá VIRK kom mér í greiningu og ég fékk lyf sem gera mér lífið léttara,“ segir Jón Þór.
Tekist á við áfallasögu
Hvað varð til þess að þú leitaðir til VIRK?
„Um er að ræða áfallasögu sem hófst 2004. Þá missti konan mín fót fyrir neðan hné vegna sjaldgæfs sjúkdóms. En það fór eins vel og mögulegt var. Ég var að vinna hjá Samskipum á þessum tíma, hafði byrjað þar árið 2000. Ég fékk góðan stuðning þar í þessu veikindaferli konunnar minnar. Ekki veitti af, samanlagt eigum við fjögur börn, ég og konan mín.
Um þetta leyti keyrði ég flutningabíl en árið 2005 var mér boðin staða sem akstursstjóri hjá Samskipum við að stýra akstri flutningabíl á leiðarkerfi Samskipa. Þetta er krefjandi starf og við sinntum því tvö. Ég hafði mikið að gera, byrjaði sjö á morgnana og var að langt fram á kvöld fyrsta árið. Allt gekk ágætlega fram að hruni. Þá dró mjög úr akstri úti um land líkt og allri annarri starfsemi í samfélaginu. Það leiddi til þess að sagt var upp fólki og verktökum. Sá sem var með mér að stýra þessari deild fór í annað, en ég var látinn halda áfram einn. Samhliða því var mikið um að vera í einkalífinu.
Ég bjó við mikið stress. Síminn var að hringja á nóttunni og þar fram eftir götunum, út af bílum og það urðu slys og eitt og annað. Og alltaf þurfti maður að standa sína plikt morguninn eftir. Rekstrarstjórinn á deildinni hætti og ég fékk verkefnin hans til mín.
Þetta gekk svona til ársins 2015, þá var það að ég sat fyrir framan tölvuskjáinn í vinnunni og eitthvað gerðist í höfðinu á mér. Samstarfsfélagi minn sagði: „Ég hef aldrei sé mann svona hvítan á ævinni.“ Það láku tár niður kinnar mínar, ég klæddi mig í jakkann og gekk út. Álagið var svo mikið að ég réð ekki við þessar aðstæður lengur.
Ég talaði við starfsmannastjórann sem sendi mig til trúnaðarlæknis fyrirtækisins. Hann skoðaði mín mál og sagði svo: „Jón minn, mér þykir leitt að segja það, en þú ert eiginlega alveg útbrunninn og ég er ekki viss um að þú eigir afturkvæmt í þetta starf.“.
Fann fyrir fordómum gagnvart kulnun
Þegar ég lít aftur sé ég að ég hafði fordóma – kulnun var ekki fyrir mig. Ég fór í frí en hafði óstjórnlegt samviskubit yfir því að vera heima. Eftir tvær vikur vildi ég fara að vinna fimmtíu prósent starf. Trúnaðarlæknirinn taldi mig fara of snemma af stað en mér fannst ég allur að koma til. Það entist í svona tvær vikur, þá var ég kominn í nánast þrefalt það vinnuframlag. Ég hafði lag á að gera mig dálítið ómissandi til vinnu og hafði svo endalausar áhyggjur af því að eitthvað klúðraðist.
Sölumannsstaða losnaði hjá fyrirtækinu. Ég sótti um og fékk starfið. Á sama tíma kom nýr yfirmaður á þessa deild og sá maður hefur verið mér sem klettur í gegnum erfitt ferli sem og konan mín.
Í desember 2019 þá gat ég ekki meira. Ég vissi varla í þennan heim né annan.
Haustið 2019 fór ég að finna fyrir einhverjum skringilegheitum aftur. Á þessum árum sem liðin voru hafði ýmislegt sorglegt gerst, dauðsföll og fleira. Ég tók finna fyrir miklum verkkvíða, átti erfitt með að einbeita mér og smám saman fór ég að verða hræddur. Á sama tíma komu upp aðstæður sem ollu því að við hjónin þurftum að hafa meiri afskipti af tveimur barnabörnum en áður og það breytti lífi okkar mikið.
Í desember 2019 þá gat ég ekki meira. Ég vissi varla í þennan heim né annan. Ég fór aftur til trúnaðarlæknisins sem minnti mig á að ég hefði farið of snemma af stað. „Ástand þitt er jafnvel orðið verra,“ sagði hann. Kulnunin var þó ekki bara vegna vinnunnar, þar komu inn margir þættir – lífið sjálft með allt sitt.
Í þjónustu hjá VIRK
Í framhaldi af þessu stakk trúnaðarlæknirinn hjá Samskipum upp á því að ég sækti um þjónustu hjá VIRK. Þegar þarna var komið sögu var ég svo illa haldinn að ég var tilbúinn til að gera hvað sem var. Og hugarfar mitt hvað snerti kulnun var orðið opnara vegna umræðunnar á þessum tíma. Ég ákvað strax að halda því ekki leyndu að ég leitaði til VIRK. Ég tala um þetta feimnislaust. VIRK á ekki að vera leyndamál.
Ég sótti um að fá þjónustu hjá VIRK í janúar 2020 og fékk þar inni um tveimur mánuðum síðar. Þá var kóvíd-faraldurinn skollinn á. Ég fékk viðtal hjá ráðgjafa VR hjá VIRK sem tók mér mjög vel.“
Hafðir þú einhverja hugmynd um hvaða meðferð myndi henta þér?
„Ég var alveg lost og vissi ekki hvernig ég ætti að tækla þetta. Ráðgjafinn var duglegur að taka mig í viðtöl og benda mér á ýmis úrræði. Í samstarfi við hann fékk ég að velja. Samskip höfðu staðið við bakið á mér, reynst mér mjög vel, borguðu fyrir mig sálfræðiþjónustu. VIRK leyfði mér að halda áfram hjá sama sálfræðingi. Sá sálfræðingur þekkti orðið öll mín mál. Við höfðum kafað ofan í margt, sem var bæði léttir en líka mjög erfitt.
Greining og lyf breyttu miklu
Sálfræðingurinn taldi hugsanlegt að ég væri með athyglisbrest. Í framhaldi af því fór ég í slíka greiningu og tikkaði í öll boxin. Ég reyndist vera með ADHD samhliða ofvirkni og hvatvísi. Ég átti erfitt með að einbeita mér og þegar ástandið fór að versna tók ég að gleyma ýmsu sem ég átti að gera.
Í kjölfar þessarar greiningar fór ég til geðlæknis. Ég var að byrja hjá geðlækninum þegar ég komst í þjónustu hjá VIRK. Geðlæknirinn ávísaði mér lyfi sem virkaði ágætlega fyrst en olli þreytu og syfju. Mér fannst það skrýtið, því ég veit ekki betur en það sé einhvers konar örvandi efni í þessum lyfjum. Þá fékk ég annað og dýrara lyf, sem reynist mun betur. Þetta breytti rosalega miklu hjá mér. Ég fór að kannast við sjálfan mig aftur – þann glaða mann sem ég hafði löngum verið. Ég er enn í eftirliti hjá þessum geðlækni með ákveðnu millibili. Þar á ég athvarf, sem er gott, því það er ekkert auðvelt að komast að hjá geðlækni.“
Áttirðu inni veikindarétt?
„Já, ég átti sex mánaða veikindarétt hjá Samskipum og síðan tók við veikindaleyfi hjá VR. Ég var frá vinnu frá því í byrjun desember 2019 og fór aftur að vinna 1. nóvember 2020. VIRK hjálpaði mér að ganga í gegnum þetta allt saman. Á vegum VIRK fór ég á námskeið sem heitir „Betri svefn“. Það var reyndar fjarnámskeið vegna kóvídsins. Ég fékk ekki svo mikið út úr því, en lyfin sem ég fékk hjá geðlækninum hjálpuðu mér þannig að ég fór að sofa betur. Ég hafði átt mjög erfitt með að sofa, að mér sóttu alls kyns hugsanir. Ég var í raun og veru alveg kengstressaður.
Námskeið sem reyndust vel
Ráðgjafi VIRK benti mér á námskeið sem heitir „Sigrum streituna“ hjá Primal Iceland og ég fór á þeirra vegum þangað. Þetta var snilldarnámskeið, eitt hið besta sem ég hef sótt og hef ég þó farið á ýmis námskeið í tengslum við störf mín.“
Hvað gerðuð þið hjá Primal sem var svona frábært?
„Viðmótið var einstaklega gott og jafnframt er farið með manni í gegnum allt sem snertir grunnstoðir líkamans, bæði hvað varðar hreyfingar og mataræði. Maður er látinn gera krefjandi æfingar og teygjur. Ég hafði þjáðst af verk eftir axlaraðgerð. Einar Carl Axelsson í Primal sagði við mig: „Ertu eitthvað slæmur í öxlinni?“ Hann lét mig leggjast á magann, setti höfuð mitt við gólf og hendina upp við vegg og teygði á líkamanum svo ég veinaði af kvölum. Verkurinn hvarf og ég hef ekki fundið hann síðan. Ég var mættur á þetta námskeið tuttugu mínútum fyrir sjö, tvisvar í viku. Á þessu námskeiði fékk ég bæði líkamlegt og andlegt enduruppeldi í formi æfinga og hugleiðslu.
Ég hitti þarna fólk sem var að glíma við það sama og ég og við vorum látin vinna alls kyns verkefni saman. Við þetta fékk ég einskonar uppljómun.
Í kjölfar þessa námskeiðs benti ráðgjafi VIRK mér á námskeið sem heitir „Heillandi hugur“. Allir sem voru í þeim hópi voru þjónustuþegar VIRK. Ég hitti þarna fólk sem var að glíma við það sama og ég og við vorum látin vinna alls kyns verkefni saman. Við þetta fékk ég einskonar uppljómun. Við unnum líka verkefni heima og héldum sambandi eftir að við hættum á námskeiðinu.
Eftirfylgni og nýtt starf
Eftir að ég fór að vinna aftur fékk ég um tíma eftirfylgni frá námskeiðshaldaranum. Einnig fékk ég eftirfylgni frá VIRK í fyrstu. Þótt ég sé útskrifaður úr þjónustu hjá VIRK þá veit ég að ég get leitað þangað aftur ef brýna nauðsyn ber til.“
Fórstu í sama starf og áður þegar þú hófst vinnu á ný?
„Ég ætlaði ekki að skipta um vinnu en sá auglýst eftir starfsmanni í reiðhjólaverslun. Ég er mikill reiðhjólamaður og þekkti aðeins til þessarar verslunar svo ég hringdi. Sá sem svaraði sagði við mig: „Já, það er verið að auglýsa eftir manni og þú ert rétti maðurinn.“ Hann sagði mér að þetta væri verslunarstjórastarf. Ég sagði að mér fyndist það full mikil ábyrgð og myndi vilja ábyrgðarminna starf.
Síðan fórum við konan mín í sumarfrí og ég tók ákvörðun um að fara aftur að vinna hjá Samskipum. Ég ákvað að hringja og láta vita að ég ætlaði ekki að þiggja starfið. En maðurinn bað mig að koma og hitta sig og föður sinn sem á fyrirtækið. Ég fór og sagði feðgunum sólarsöguna um það sem ég hafði gengið í gegnum. Sá eldri horfði á mig og sagði: „Þetta er merkilegt, vinur minn lenti í svona líka.“ Ég fann að hann hafði skilning á þessu. Það endaði því með því að ég sló til.
Ég byrjaði í skertu starfshlutfalli, umhverfið var ansi ólíkt. Margvísleg verkefni biðu mín. Og fljótlega var ég kominn í hundrað prósent vinnu.
Þegar ég gekk út frá þeim feðgum hringdi ég í yfirmann minn hjá Samskipum og sagði honum að mér hefði boðist vinna sem mig langaði til að taka en væri í vafa. Hans viðbrögð voru að segja í gríni: „Ætlarðu að yfirgefa mig?“ Svo bætti hann við: „Jæja, ég styð þig í öllu sem þú vilt gera, en þú átt alltaf afturkvæmt.“ Ég hafði svolitlar áhyggjur af hvernig Samskipum myndi reiða af án mín en tók starfinu í versluninn eigi að síður. En það var gott að hafa baktryggingu hjá Samskipum.
Þetta gerðist mánaðamótin september-október 2020. Ég lauk þjónustunni hjá VIRK í lok október það ár. Ég byrjaði í skertu starfshlutfalli, umhverfið var ansi ólíkt. Margvísleg verkefni biðu mín. Og fljótlega var ég kominn í hundrað prósent vinnu. Það var erfitt í fyrstu og ég var í dálitlu sjokki, en smám saman komst ég inn í starfið og allt fór að ganga vel. Nýir eigendur hafa nú tekið við fyrirtækinu.“
Ráðgjafinn stýrði ferlinu vel
Hvernig er svo staðan hjá þér í dag varðandi heilsuna?
„Heilsa mín er nokkuð góð eins og er. Mér líkaði þjónustan hjá VIRK frábærlega. Ráðgjafinn stýrði þessu vel. Ég hefði örugglega verið miklu lengur frá vinnumarkaði ef ég hefði ekki notið þeirrar þjónustu. Og námskeiðin sem ég sótti á vegum VIRK hjálpuðu mér afskaplega mikið. Ég er þó enn ákafur og hvatvís. Ég þarf því stöðugt að hafa varan á og halda í horfinu.“
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason