Særún Magnúsdóttir grunnskólakennari
Særún Magnúsdóttir hafði þjáðst vegna sáraristilsbólgu í rúmlega þrjátíu ár þegar hún fór í aðgerð vegna sjúkdómsins í október árið 2015. Þá uppgefin á bæði sál og líkama. Fljótlega varð ljóst að Særún þurfti lengri tíma en hún hafði áætlað í að jafna sig eftir aðgerðina og eftir langvarandi álag og veikindi í gegnum árin. Þá frétti hún af VIRK og leitaði þangað með aðstoð heimilislæknis.
Aðdragandinn – uppgefin eftir margra ára veikindi
Særún Magnúsdóttir vinnur fullt starf sem umsjónarkennari á miðstigi. Starf sem er gefandi en jafnframt krefjandi.
„Ég útskrifaðist fyrir aðeins tæplega þremur árum síðan. Ég fór það seint í nám. Fram að því vann ég í banka, svo kom hrunið og þá gat ég ekki hugsað mér að vinna í þeim geira lengur. Mig hafði alltaf langað í kennaranámið en hafði ekki treyst mér. Svo dreif ég mig í námið, í fyrsta sinn sem það var kennt til fimm ára.“
Námið og allt álagið sem því fylgdi hafði neikvæð áhrif á heilsu Særúnar sem þá hafði verið veik í langan tíma fyrir. Á þeim tíma hafði hún prufað flest þau lyf sem í boði eru vegna sjúkdómsins. Þegar ekkert virkaði lengur þá var ákveðið að fara í skurðaðgerð á Landsspítalanum og fá stoma til að vinna bug á veikindum.
„Fyrst eftir aðgerðina var ég glöð og fann fyrir létti en svo hrapaði ég niður andlega. Þá fannst mér ekkert vera að gerast. Eins og allt væri stopp. Ég ætlaði mér að snúa til vinnu þremur mánuðum eftir aðgerð. En gerði mér ekki grein fyrir hvað ég var illa farin né hversu stór aðgerðin var í raun. Auk þess mæltu læknar og sjúkraþjálfari með því að ég tæki mér lengra frí en þrjá mánuði því ég þyrfti að ná góðum bata. Manneskja sem hefur alltaf verið í vinnu, sama hvað. Það var því áfall að geta ekki snúið til starfa strax aftur og mér fannst ég vera einskis virði. Þá kom VIRK sterkt inn.“
Getur þú lýst samstarfinu við VIRK?
„VIRK gerði mér kleift að hitta sálfræðing og sjúkraþjálfara reglulega ásamt utanumhaldi og hvatningu frá ráðgjafa VIRK. Einnig fékk ég kort í líkamsrækt í heilt ár. Það var þvílíkur munur að geta notfært sér þessa þjónustu vegna þess að á endurhæfingarlífeyri einum saman er ekki mögulegt að kaupa sér tíma hjá sálfræðingi hvað þá kort í ræktina. Þarna kom sér vel að geta leitað til VIRK því það létti mikið á mér andlega að þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjármálunum ofan á allt annað. Svo gáfu sálfræðingurinn og sjúkraþjálfarinn mér verkfæri sem ég get notað ef mér fer að líða illa. Hjá VIRK fann ég fyrir utanumhaldi, eftirfylgni og hvatningu sem var alveg frábært. Ég notaði einnig dagbókina sem VIRK gefur út. Þar skráði ég samviskusamlega niður hvernig mér leið, hvað ég hreyfði mig mikið, hve mikið vatn ég drakk og ýmislegt fleira. Með því að nota dagbókina varð árangurinn áþreifanlegri.“
Hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu
„Með aðstoð sjúkraþjálfara setti ég mér strax markmið. Eins notaði ég mikið dagbókina og skráði samviskusamlega niður hvernig mér leið hverju sinni. Ég fylgdist mjög vel með andlegri og líkamlegri líðan. Fyrir ári síðan setti ég mér það markmið að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Þá gat ég kannski gengið í 10 mínútur á hlaupabretti. Ég var bara eins og búðingur. En svo gerðist eitthvað í kringum mánaðarmótin apríl/maí. Ég fann að ég gat gert meira. Þá sótti ég app í símann minn, Couch to 5k og fór bara út og hljóp. Í framhaldinu hljóp ég 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Það var mikill sigur! Þá var ég líka nýbyrjuð að vinna aftur og þetta var bara svo geðveikur sigur. Ég hafði aldrei sett mér svona langtímamarkmið og staðið við það. Ég er bara svolítið að kynnast sjálfri mér aftur. Á þessum tíma var móðir mín að berjast við erfið veikindi. Hún lést svo í byrjun júli og það var mjög erfitt, við vorum mjög nánar og ég sakna hennar mikið. Ég hljóp því líka fyrir hana.“
„Nú segir fólkið mitt oft: „bíddu hver ert þú eiginlega?“. Vinkona mín til þrjátíu ára sagði við mig um daginn: „þú hlýtur að þurfa að læra að lifa upp á nýtt!“ En hún var vön því að ég kæmist ekki á viðburði og skemmtanir vegna veikinda. Ég þorði oft ekki úr húsi vegna þess að ég var svo hrædd um að komast ekki á klósettið í tíma. Þetta hélt svo aftur af mér félagslega. Ég var farin að loka mig af undir lokin. Núna er það nýtt fyrir mér að geta gert allt mögulegt. Ég borðaði til dæmis saltkjöt og baunir í fyrsta skiptið um daginn í langan tíma án þess að fá geðveika verki. Og ég er bara svo miklu glaðari. Mér finnst eins og ég hafi fengið annað tækifæri í lífinu.“
„Með aðstoð VIRK lærði ég að leyfa líkamanum að hvílast og hætti að skammast mín fyrir það. Mér þótti samt sem áður gott að snúa aftur til vinnu í ágúst. Ég er með mjög gott net af vinum og fjölskyldu í kringum mig. Þau hafa alltaf staðið við bakið á mér í gegnum allt. Það skiptir rosalega miklu máli.“
Aftur til vinnu
„Ég hafði ætlað mér að snúa aftur til vinnu þremur mánuðum eftir aðgerð. En sjúkraþjálfarinn minn taldi mig af því. Ég þurfti lengri tíma til að jafna mig, ekki bara eftir aðgerðina heldur einnig eftir áralöng veikindi. Ef ég hefði farið að vinna strax eftir þrjá mánuði, þá hefði ég ekki náð almennilegum bata. Þá hefði ég alltaf verið að eltast við skottið á mér, eins og ég var í raun búin að gera öll þess ár. Ég ráðfærði mig því við heimilislækni og hann var því sammála að ég ætti að reyna að slaka á. Skurðlæknirinn sem framkvæmdi aðgerðina var líka á sama máli. Aðgerðin tók fimm klukkustundir og því var um mikið inngrip að ræða. Ég er búin að vera mikið á sterum síðustu þrjátíu árin. Á þeim tíma þurfti ég oft að leita á sjúkrahús og var alltaf á einhverjum lyfjum. Meðfram veikindunum píndi ég mig áfram í vinnu.“
„Í mars árið 2016 var ég einfaldlega búin með batterýin. Þá kom VIRK inn í líf mitt. Með aðstoð VIRK lærði ég að leyfa líkamanum að hvílast og hætti að skammast mín fyrir það. Mér þótti samt sem áður gott að snúa aftur til vinnu í ágúst. Ég er með mjög gott net af vinum og fjölskyldu í kringum mig. Þau hafa alltaf staðið við bakið á mér í gegnum allt. Það skiptir rosalega miklu máli. Ég hef alltaf mætt skilningi og hvatningu. Ásamt vinum og fjölskyldu þá er það VIRK að þakka að ég er á þeim stað sem ég er á í dag en sé hreinlega ekki þunglynd. Í mars í fyrra dró ég mig inn í skelina sem ég hafði svo oft skriðið inn í þegar mér leið illa. Í gegnum VIRK fékk ég tíma hjá sálfræðingi sem veitti mér þá aðstoð sem ég þurfti á að halda. Öll þjónustan og stuðningurinn sem VIRK býður upp á ásamt því að losna við fjárhagsáhyggjurnar, setja sér markmið og standa uppi sem sigurvegari það gefur manni svo mikið.
Ég ætlaði mér alltaf að fara aftur að vinna. Ég gæti ekki hugsað mér lífið öðruvísi. Ég er svo þakklát fyrir að vera í fullu starfi sem grunnskólakennari á miðstigi með unglingana mína. Stundum verður maður svolítið þreyttur en þeir eru yndislegir. Ég mundi ekki vera í þessu starfi nema vegna þess að mér finnst það gaman og það gefur mér svo mikið. Strákurinn minn sem er að verða 19 ára hefur ekki þekkt mig öðruvísi en veika, hann er því líka að kynnast mér upp á nýtt. Þetta er nýtt líf.“
Texti og mynd: Berglind Mari Valdemarsdóttir