Málfríður F. Arnórsdóttir
Einn góðan veðurdag gekk blaðamaður VIRK á fund Málfríðar F. Arnórsdóttur sem starfar hjá Tollstjóra við Tryggvagötu. Hún hefur sögu að segja um veikindi sem næstum urðu til þess að hún yrði óvinnufær til langframa. Með viljastyrk og traustri aðstoð VIRK tókst henni að snúa málum þannig að hún er nú í fullu starfi og við allgóða heilsu.
„Ég var ellefu mánuði veikindaskrifuð og frá vinnu,“ segir Málfríður er við höfum fengið okkur sæti á vistlegri skrifstofu hennar. Ekki þarf að ræða lengi við Málfríði til að gera sér grein fyrir þar fer samviskusamur og góður starfsmaður. Málfríður lauk gagnfræðaprófi og hóf störf 24 ára gömul hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Fljótlega lauk hún svo námi í Tollskóla ríkisins. Hún er 54 ára gömul og á því töluvert eftir af sinni starfsævi.
„Ég greindist með slitgigt í hnjám og mjöðmum og vefjagigt 2009,“ segir Málfríður. „Vorið 2010 vildu heimilislæknir og gigtarlæknir að ég færi á heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði til hvíldar og í meðferð. Vefjagigtinni fylgja miklir verkir og ofboðsleg þreyta. Í Hveragerði fór ég í ýmis konar æfingar og gönguferðir, en fékk taugahnút á hægri rist, svokallaðan Mortonhnút. Ég fór því út úr dvölinni í Hveragerði verr á mig komin líkamlega en ég var þegar ég lagðist þar inn. Meðferðaraðilum mínum í Hveragerði gekk illa að átta sig á hvað væri að mér í ristinni og reyndu að beita gegn þessu leisergeislum og hitameðferð, en það kom fyrir ekki, öll hreyfing var óskaplega sársaukafull.
Þegar ég kom frá Hveragerði fór ég í segulómrannsókn og þá sást fyrir víst hvað að mér var. Oft eru svona taugahnútar skornir burt, en læknum tókst að draga mjög úr þessu með sterasprautum í mínu tilviki. Ég finn þó alltaf fyrir hnútnum, þótt að það sé ekki neitt í líkingu við það sem var.
Meðan á þessum veikindum stóð var ég fullkomlega óvinnufær. Ég hafði þá starfað í 17 ár á vöktum á Keflavíkurflugvelli við tollgæslu. Þar voru langar vaktir og þeim fylgdi mikið álag. Fljótt var augljóst að ég myndi ekki geta sinnt því starfi áfram. Mér leið ákaflega illa þegar ég gerði mér grein fyrir því, fann til mikils vanmáttar og þungsinnis.
„Ég er mjög þakklát fyrir þá aðstoð sem mér hefur verið veitt. Ég fór langt niður, en vegna þessa stuðnings tókst mér að ná mér upp og er mjög fegin að hafa ekki þurft að fara á örorku, það vildi ég í lengstu lög forðast. Ég er stolt af því starfi sem fram fer hjá VIRK og finnst að ástæða væri til að kynna þessa starfsemi betur, hún er mikilvæg í samfélaginu."
Bent á VIRK á Heilsustofnun NLFÍ
Það varð mér til bjargar að á heilsuhælinu í Hveragerði hafði mér verið bent á VIRK, sem mögulega gæti komið mér til aðstoðar. Ég fékk viðtal hjá Karenu Björnsdóttur, sem er fulltrúi BSRB í VIRK. Hún tók mér afar vel og hjálpaði mér að setja saman áætlun þar sem mér var m.a. hjálpað að komast í vatnsleikfimi hjá Gigtarfélaginu. Einnig fór ég á þrjú námskeið sem öll miðuðu að því að byggja upp sjálfsmynd mína, en hún hafði verulega versnað við þessi veikindi, álag og áföll. Ég fékk einnig sálfræðitíma auk þess sem ég var í reglubundnum viðtölum hjá Karen.
Þegar ég kom út af heilsuhælinu í Hveragerði átti ég inni sumarfrí og hafði ég samband við mannauðssvið hjá Tollstjóra, ræddi við Unni Ýr Kristjánsdóttur mannauðsstjóra, sem reyndist mér ákaflega vel. Ég var skráð í veikindaleyfi, en missti ekki vinnu. Ég sótti svo um tilfærslu í starfi í apríl 2011.
Ég var öll skökk og hölt meðan ég var að jafna mig en er frá leið varð ljóst að ég gæti unnið rólegra starf. Ég kom svo aftur til starfa hér í endurskoðunardeild Tollstjóraembættisins og hef verið að setja mig inní hið nýja starf. Flest var þar nýtt fyrir mér, en nú er ég búin að vera hér í ár og er nokkurn veginn komin inn í málin.
Ég er svo lánsöm að vinna með elskulegu fólki sem hefur sýnt mér mikinn skilning. Starfinu sem ég sinni núna fylgir minna andlegt og líkamlegt álag. Fyrst saknaði ég svolítið míns gamla starfs sem oft var spennuþrungið, en nú er ég mjög sátt.
Hjá VIRK er gengið skipulega fram í því að aðstoða fólk sem lendir í aðstæðum eins og ég. Í samráði við mig var metið hvað myndi gagnast mér og síðan var gengið í að koma mér í það sem ástæða þótti til. Það er haldið afskaplega vel utan um fólk hjá VIRK. Öll stéttarfélög á landinu eiga sem kunnugt er aðild að VIRK og eiga þar fulltrúa. Mér finnst oft að þessi starfsemi sé ekki nægilega kunnug fólki almennt. Hjá VIRK er manni sannarlega hjálpað eftir megni að komast aftur til starfa. Nú er ég í 100% starfi og heimilisumsvifin eru orðin lítil miðað við það sem áður var. Álagið hefur eflaust valdið miklu um að ég fékk vefjagigt. Það er svo algengt að konur beinlínis þræli sér út og búi við mikið álag vegna þeirra miklu krafna sem gerðar eru, bæði á vinnustað og heimafyrir. Í framhaldi af þessu missa margar konur heilsuna.
Ég þarf að fara varlega til þess að halda þeirri heilsu sem ég hef náð. Nú vinn ég mikið við tölvu og verð að gæta þess að standa upp með jöfnu millibili. Ég ferðast með strætó og geng svona 1 til 2 kílómetra á hverjum degi. Ég er ekki í vatnsleikfimi sem stendur, en get borið því vitni að hún er afar heilsusamleg.
Hvað heldurðu að hafi gerst ef þú hefðir ekki fengið aðstoð hjá VIRK?
„Ég hef einstaklega góðan heimilislækni, Jörund Kristinsson og hann var glöggur að sjá ýmis einkenni þess að ég væri undir allt of miklu álagi, en hefði ég ekki haft VIRK hefði heimilislæknirinn sennilega ekki getað aðstoðað mig nægilega; VIRK veitir manni svo mikinn stuðning, það gerir gæfumuninn. Ég er mjög þakklát fyrir þá aðstoð sem mér hefur verið veitt. Ég fór langt niður, en vegna þessa stuðnings tókst mér að ná mér upp og er mjög fegin að hafa ekki þurft að fara á örorku, það vildi ég í lengstu lög forðast. Ég er stolt af því starfi sem fram fer hjá VIRK og finnst að ástæða væri til að kynna þessa starfsemi betur, hún er mikilvæg í samfélaginu."