Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Til vinnu á ný í hálft starf

Til vinnu á ný í hálft starf

Gott samstarf VIRK og yfirmanna hjá Orkuveitunni varð til þess að Lára Baldursdóttir komst nokkrum mánuðum fyrr til vinnu, heldur en gert var ráð fyrir samkvæmt reglum á vinnustaðnum. Hún segir það hafa skipt sköpum fyrir sig að geta byrjað í hálfu starfi eftir margra mánaða veikindaleyfi.

Lára Baldursdóttir

Gott samstarf ráðgjafa í starfsendurhæfingu og yfirmanna hjá Orkuveitunni varð til þess að Lára Baldursdóttir komst nokkrum mánuðum fyrr til vinnu, heldur en gert var ráð fyrir samkvæmt reglum á vinnustaðnum. Hún segir það hafa skipt sköpum fyrir sig að geta byrjað í hálfu starfi eftir margra mánaða veikindaleyfi.

,,Ég fór í mikla bakaðgerð í október 2009 en þá hafði ég verið algjörlega óvinnufær í tvo til þrjá mánuði. Ég hafði um nokkurra ára skeið af og til verið slæm í baki. Þetta kom yfirleitt í köstum. Ég reyndi að þrauka eins lengi og ég gat í vinnunni og fannst eiginlega best að standa við störf mín. Ég var þó alltaf með mikla verki í þessum köstum, alveg niður í fætur, en verkjalyf virkuðu illa á mig,“ segir Lára sem starfað hefur hjá Orkuveitu Reykjavíkur í rúm 10 ár.

Brjóskeyðing milli hryggjarliða

Rannsóknir leiddu í ljós brjóskeyðingu á milli hryggjarliða. ,,Það var líka farinn að vaxa beinnabbi út úr því sem leit út fyrir að vera sprunga. Ég hef tvisvar dottið illa og sprungan kann að hafa myndast þá. Í aðgerðinni voru spengdir saman tveir hryggjarliðir og settir demparar fyrir ofan. Það var tekið bein úr mjöðminni á mér og grætt við hryggjarliðina. Hefði ég vitað hversu erfið aðgerð þetta var er ekki víst að ég hefði þorað að fara í hana. En ef ég hefði ekki farið í þessa aðgerð væri ég núna heimaliggjandi öryrki og gæti ekkert gert. Ég gat engan veginn verið áður en ég fór í aðgerðina,“ segir Lára.


Hún lá á sjúkrahúsi í þrjár vikur og var lengi að jafna sig heima á eftir. ,,Fyrstu mánuðina eftir aðgerðina mátti ég ekki gera neitt annað en að fara út að ganga til þess að reyna að öðlast kraft á ný. Það var svo þegar ég hringdi í BSRB til þess að kanna stöðu mína í sambandi við lengd veikindaleyfis og slíkt sem mér var bent á að hafa samband við Karen Björnsdóttur, ráðgjafa í starfsendurhæfingu. Við hittumst fyrst í febrúar og það gerði mér afar gott að rífa mig upp úr rúminu og hafa mig til fyrir fundina með henni. Viðmót hennar var svo gott og ég þurfti svo sannarlega á hjálp hennar að halda við að hringja á milli stofnana. Veikindin svipta mann ekki bara allri líkamlegri orku, heldur andlegri líka. Það er nógu flókið að snúast í svona málum þegar maður er heilbrigður, hvað þá þegar maður er illa haldinn af verkjum,“ greinir Lára frá.

Við hittumst fyrst í febrúar og það gerði mér afar gott að rífa mig upp úr rúminu og hafa mig til fyrir fundina með henni. Viðmót hennar var svo gott og ég þurfti svo sannarlega á hjálp hennar að halda við að hringja á milli stofnana. Veikindin svipta mann ekki bara allri líkamlegri orku, heldur andlegri líka

Gott að komast í fasta rútínu

Hún segir ráðgjafann einnig hafa komið því til leiðar að hún fékk að byrja í hálfu starfi en það hafði ekki verið í boði hjá Orkuveitunni. ,,Læknirinn minn hafði lagt til að ég byrjaði í 50 prósenta starfi í júní, færi svo í 80 prósenta starf í júlí og í 100 prósenta starf í september að loknu sumarfríi í ágúst. Þetta var ekki leyfilegt samkvæmt reglum á mínum vinnustað. Þar átti maður ekki að koma í vinnu fyrr en maður hefðu fulla starfsgetu. Karen ráðgjafi gekk í málið og úr varð að ég fékk að haga þessu eins og læknirinn hafði lagt til. Yfirmaðurinn á deildinni minni studdi mig líka vel í þessu ferli. Ef þetta hefði ekki gengið eftir hefði ég byrjað að vinna nokkrum mánuðum seinna en ég gerði. Það gerði mér hins vegar afar gott að byrja að vinna og komast í fasta rútínu eftir svona langa fjarvist frá vinnustaðnum. Ég var komin með hálfa starfsgetu og mér fannst óþarfi að sitja heima. Vissan um að ég myndi ekki ofgera mér um leið og ég byrjaði að vinna var líka góð. Ég hlakkaði virkilega til þess að byrja að vinna en oft er fólk kvíðið við tilhugsunina um að byrja í fullu starfi eftir löng veikindi.“

Notaleg tilfinning

Að sögn Láru hefur henni gengið vel að vinna fullan vinnudag. ,,Ég þyrfti að vísu að halda áfram í sjúkraþjálfuninni sem VIRK Starfsendurhæfingarsjóður greiddi fyrir mig. Ég á nokkra tíma eftir en hef ekki kunnað við að biðja um frí úr vinnu. Ég þarf hins vegar að gera það, meðal annars  til þess að fá að vita hversu mikið ég má hreyfa mig til þess að halda dampi. Ég veit reyndar að ég má ekki hlaupa. Karen hefur verið að spyrja mig að því hvort ég ætli ekki að nýta mér alla tímana. Mér finnst frábært að hún skuli hafa samband við mig til þess að fylgjast með því hvernig mér gengur. Það er mjög notaleg tilfinning og ég er afar þakklát fyrir alla aðstoðina sem ég hef fengið.“

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband