Dagný Haraldsdóttir
Senn flytur Dagný Haraldsdóttir að heiman og hefur búskap með kærasta sínum. Hún á að baki átakamikla sögu um alvarlega kvíðaröskun sem henni tókst með kjarki, dugnaði og úrræðum VIRK að snúa til betri vegar. En sú vegferð var sannarlega mörkuð miklum áskorunum.
„Ég varð snemma þunglynd og fékk þunglyndislyf árið 2011. Ég greindist líka með ADHD. Árið 2012 byrjaði ég að reykja gras. Ég gerði það af því ég vildi vera með félagslega en fljótlega tóku reykingarnar yfir. Ég hætti í skóla og missti vinnu. Árið 2013 fékk ég svo inni á Vogi og var á Bangsadeild, enda ekki nema sautján ára þá,“ segir Dagný í samtali við blaðamann.
„Eftir að hafa verið á Vogi ætlaði ég að snúa aftur í nám við Fjölbrautarskólann við Ármúla en sú fyrirætlun gekk ekki upp. Þess í stað fór ég að finna fyrir vaxandi kvíða, ástandi sem ég þekkti ekki áður. Ég tengdi kvíðann samt ekki grasreykingunum. Þær voru vissulega slæmar, ég varð framtakslítil og fór með alla peninga í þetta. Jafnframt reyndi ég að fela reykingarnar fyrir foreldrum mínum. Svo kom sem sagt að því að mér fannst komið nóg af svo góðu. Ég sótti sjálf um að komast í meðferð, fór heim og sagði foreldrum mínum að ég væri að fara á Vog. Þeim brá, þau höfðu ekki gert sér grein fyrir hvernig málum væri komið hjá mér.
Hvernig reyndist þér dvölin á Vogi?
„Mér fannst fínt að vera þar. Eftir tíu daga fór sneri ég aftur og var þá mjög dugleg að sækja fundi hjá SÁÁ. Einnig fór ég tvisvar í gegnum tólf spora kerfið. Ég eignaðist góða vini í þessum hópi en svo kom að því að mér fannst nóg komið af fundasókninni. Þá tók við annað tímabil. Ég var heima eða með vinum mínum. Um þetta leyti fór kvíðinn á ásækja mig. Köstin byrjuðu með því að ég fór að svitna, fékk mikinn hjartslátt og yfirliðakennd og fannst ég þurfa að kasta upp. Þegar þetta kom yfir mig forðaði ég mér heim. Fljótlega var svo komið fyrir mér að ég fékk ofsakvíðakast í hvert skipti sem ég fór út af heimili mínu.“
Gerðir þú þér grein fyrir hvað þú hræddist?
„Nei. Kvíðinn var óskilgreindur og spratt að því er virtist upp úr engu. Í framhaldi af þessari líðan minni missti ég samband við vini og kunningja og einangraðist heima. Ég reyndi samt að rjúfa þennan vítahring, fór til dæmis út að borða með bróður mínum. Fljótlega fór ég að finna fyrir kvíða, varð að fara fram á salerni til að kasta upp og var þar inni þar til foreldrar mínir sóttu mig.“
Fékkstu lyf við kvíðanum?
„Já ég fékk lyf en þau gerðu lítið fyrir mig. Það var erfitt að ná í lækni því ég gat ekki lengur farið út úr húsi og læknirinn kom ekki hingað. Þessi lyf hjálpuðu mér dálítið en ekki nóg til þess að ég gæti farið út. Heimilið var öruggur staður fannst mér. Ég fékk vist á göngudeild á Kleppi en það virkaði ekki fyrir mig – ég var í kvíðakasti allan tímann sem ég var þar. Heilbrigðisstarfsfólkið sagðist ekki vita hvað það gæti gert fyrir mig né heldur svarað því hvað væri að mér.
„Ég væri ekki komin á þann stað sem ég er á núna, andlega og starfslega nema fyrir þjónustuna sem ég fékk hjá VIRK. Hún skipti sköpum.“
Óskilgreindur kvíði hafði völdin
Eftir að heim kom tók ég að leita að sálfræðingi sem fengist til að koma heim til mín og sinna mér þar. Þetta kostaði nokkra leit en loks fann ég sálfræðing hjá Kvíðameðferðarstöðinni. Hann kom heim til mín og tók mig í meðferð. Þetta framtak mitt spratt af því að fjölskyldan mín ætlaði í sumarfrí árið 2015 og mig langaði að fara með. Ég sá hins vegar ekki fram á að ég kæmist til Ítalíu vegna kvíðans sem heltók mig ef ég vogaði mér út um húsdyrnar hér.“
Komstu með fjölskyldunni til Ítalíu?
„Já ég gerði það. Sálfræðingurinn kom til mín snemma vors og ræddi við mig. Hann greindi mig með víðáttufælni og hóf að hjálpa mér að takast á við hana. Hægt og rólega tókst mér að fara út fyrir dyrnar og síðar að setjast út í bíl ef hann var ekki í gangi. Ég varð að taka þetta mjög rólega, skref fyrir skref. Ég áttaði mig smám saman á að kvíðaköstin gengju yfir, ég yrði bara að halda áfram. Til Ítalíu komst ég með fjölskyldunni. Við fengum gistingu á ákveðnu svæði og ég fór ekkert út af því. Ég gat eigi að síður notið hinnar ítölsku sólar. Þetta var mikill sigur fyrir mig. Þess má geta að ég hef farið oft til útlanda eftir þessa ferð.
Eftir að ég kom heim frá Ítalíu hélt ég áfram meðferðinni hjá sálfræðingnum og nema sem starfaði undir hans handleiðslu. Sálfræðingurinn tók mig í viðtöl en neminn fór með mér út til að vinna bug á víðáttufælninni. Við fórum út að keyra. Ég ók og reyndi að forðast mikla umferð. Ég náði að skilja að kvíðinn var til staðar en það þýddi ekki að eitthvað hræðilegt væri að gerast. Þetta tók allt sinn tíma. Sem dæmi um kvíða minn get ég sagt frá því að ég gat ekki setið inni í kirkjunni þegar útför ömmu minnar fór fram.“
Örugg í Hringsjá
Hvenær fórstu í þjónustu hjá VIRK?
„Ég var orðin leið á að hanga heima allan daginn og horfa á sjónvarpið, vera í tölvuspili eða leika við hundinn minn. Ég gat ekki farið með hann út að ganga en nú geri ég það hiklaust – bara ekki of langt. Mamma stakk upp á því að ég leitaði eftir þjónustu hjá VIRK. Hún vissi að mig langaði að komast aftur í skóla og þegar ég hafði verið samþykkt inn í þjónustuna hjá VIRK komst ég er frá leið í nám hjá Hringsjá. Ég vildi ekki fara í heilsurækt, fannst óþægilegt ef ég myndi fá hjartsláttarkast eða eitthvað þess háttar. Ég vildi fara í sjúkraþjálfun. Ég hafði tvisvar lent í bílslysi og er slæm í baki. Endilega vildi ég líka halda áfram að sækja meðferð hjá sálfræðingnum mínum. VIRK borgaði þetta fyrir mig og allt þetta hjálpaði mér að vinna gegn kvíðanum. Ráðgjafinn minn hjá VIRK reyndist mér afar vel á leið minni út úr einangrun kvíðans.“
„Nú er ég að stíga það stóra skref að flytja að heiman í íbúð sem við kærastinn minn höfum fengið okkur. Framtíðin virðist því brosa við mér – allavega eins og er. Kvíðinn háir mér ekki lengur.“
Hvert var helsta markmiðið sem þú lagðir upp með hjá VIRK?
„Helsta markmiðið sem ég lagði upp með í samráði við ráðgjafann minn hjá VIRK var að ég útskrifaðist úr Hringsjá. Þar fer fram venjulegt menntaskólastarf nema hvað haldið er mun meira utan um hvern nemanda og á einstaklingsbundinn hátt. Áður en ég hóf námið í Hringsjá fór ég á námskeið þar, ég vissi að ég yrði að venjast umhverfinu til þess að verjast kvíðaköstunum. Ég mætti á námskeið í hálft ár til þess að þjálfa sjálfa mig í að takast á við kvíðann. Mér gekk ekki vel í fyrstu en á endanum tókst mér það sem ég ætlaði mér – að verða öruggari í umhverfi Hringsjár. Mér var vel tekið af kennurum og samnemendum og átti þarna góðan tíma í námi. Ég eignaðist líka í Hringsjá tvær af mínum bestu vinkonum. Félagslega reyndist mér því þetta umhverfi vel.“
Hvernig er staðan hjá þér núna?
„Hún er nokkuð góð. Ég er að vinna tuttugu prósent vinnu hjá Landspítalanum við umönnun. Við vinkonurnar sóttum um vinnu þar og fengum hana. Ég vil helst vinna næturvaktir öfugt við flesta aðra. Þá verð ég þreytt og sef í sjö til átta tíma að slíkri vakt lokinni. Ef ég er á kvöldvöktum er ég oft of taugaspennt til þess að ná að sofna. Morgunvaktirnar eru alls ekki fyrir mig.“
Í sjúkraliðanám og vinnu
Fórstu í nám eftir veruna í Hringsjá?
„Ég útskrifaðist úr Hringsjá árið 2018 og fór svo til náms á sjúkraliðabraut við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Það vorudálítið erfið umskipti fyrst vegna kvíðans en smám saman náði ég tökum á honum og vandist umhverfinu. Nú er ég á fjórðu önn á sjúkraliðabrautinni og gengur bara ágætlega. Upp á síðkastið hefur kvíðinn ekki verið það vandamál að hann stöðvi mig í neinu af því sem ég þarf og vil gera. Ég finn kannski aðkenningu að kvíða, fæ hjartslátt og svitna, en þá segi ég við sjálfa mig: „Þetta er bara kvíðinn – hann líður hjá.“ Þannig er þetta stundum þegar ég er að leið í vinnuna. En mér tekst að kæfa kvíðaköstin í fæðingu með þessari aðferð.“
Hvað varstu lengi í þjónustu hjá VIRK?
„Í það heila var ég þar í þjónustu í tvö ár, hætti vorið 2019. Úrræðin sem ég nýtti mér voru sem sagt sálfræðiþjónusta, sjúkraþjálfun og síðast en ekki síst námið í Hringsjá og kvöldskólanum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem ég og vinkona mín sóttum áfanga í sjúkraliðanámi til að flýta fyrir okkur. Það gekk vel. Við vinkonurnar erum saman í sjúkraliðanáminu og ef allt gengur að óskum þá útskrifumst við eftir ár.“
„Hvers vegna valdir þú sjúkraliðanám?
„Mér finnst þetta praktískt nám og líklega hefur eitthvað spilað inn í þetta val að amma mín var sjúkraliði. Kvíðinn háir mér ekki í samskiptum við fólk og mér líður vel í starfi mínu á Landspítalanum. Ég væri ekki komin á þann stað sem ég er á núna, andlega og starfslega nema fyrir þjónustuna sem ég fékk hjá VIRK. Hún skipti sköpum. – Nú er ég að stíga það stóra skref að flytja að heiman í íbúð sem við kærastinn minn höfum fengið okkur. Framtíðin virðist því brosa við mér – allavega eins og er. Kvíðinn háir mér ekki lengur.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason