Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Þakklát fyrir frábært framtak

Þakklát fyrir frábært framtak

Sama ár og Elísabet Sigurðardóttir kennari greindist með krabbamein gekk hún í gegnum skilnað. Aðstoðin sem hún fékk frá VIRK við að koma sem sprækust aftur til starfa var þess vegna vel þegin.

Elísabet Sigurðardóttir

Sama ár og Elísabet Sigurðardóttir kennari greindist með krabbamein gekk hún í gegnum skilnað. Aðstoðin sem hún fékk frá ráðgjafa Kennarasambands Íslands, Margréti Gunnarsdóttur, og VIRK Starfsendurhæfingarsjóði við að koma sem sprækust aftur til starfa var þess vegna vel þegin.

,,Ég greindist með brjóstakrabbamein fyrir rétt rúmu ári eða í janúar 2009. Ég var í veikindaleyfi í heilt ár og rétt áður en ég hugðist snúa aftur til starfa fékk ég bækling sendan heim um þjónustu VIRK. Daginn eftir að ég fékk bæklinginn hringdi ráðgjafinn í mig og boðaði mig í viðtal. Þetta var skömmu eftir að ég hafði fengið síðustu geislana í meðferðinni eða í desember síðastliðnum,“ greinir Elísabet frá.

Elísabet kveðst ekkert hafa vitað um það sem í boði var fyrr en hún fékk bæklinginn. ,,Mér finnst það frábært framtak að senda ekki bara bæklinginn, heldur einnig að hringja í þá sem hafa fengið aðstoð úr sjúkrasjóði. Það getur nefnilega verið mikið átak að taka upp símtólið og biðja um þjónustu þótt hún sé án endurgjalds.“

Gott að opna sig

Á fundinum með Margréti ráðgjafa var ákveðið að Elísabet fengi tíma hjá sálfræðingi og kort í líkamsrækt. ,,Við ræddum fram og til baka hvað hægt væri að gera fyrir mig til þess að ég yrði sem sprækust þegar ég hæfi aftur störf nú í janúar. Ég var spurð að því hvað mér sjálfri fyndist þurfa að gera og ég bað um tíma hjá sálfræðingi. Ég var ekki bara búin að greinast með krabbamein og vera í erfiðri meðferð. Ég var líka búin að vera að ganga í gegnum erfiðan skilnað,“ segir Elísabet.

Hún hefur farið til sálfræðings hjá Kvíðameðferðarstöðinni undanfarna mánuði. ,,Ég fékk ákveðinn tímafjölda og þetta er búið að vera frábært. Ég er í hugrænni atferlismeðferð og það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið. Meðferðin hefur styrkt mig mikið andlega. Það er svo gott að hafa einhvern stað til þess að fara á einu sinni í viku og opna sig. Í hugrænni atferlismerð lærir maður að greina vandann og þær tilfinningar sem koma upp í tengslum við hann. Maður lærir jafnframt að horfa á málin frá öðru sjónarhorni. Það er miklu auðveldara að takast á við vandamálin á þennan hátt.“

Aðspurð segir Elísabet að sér hafi að vísu ekki fundist allt vonlaust þegar hún fékk vitneskju um þá þjónustu sem í boði var. ,,En þetta var ansi erfitt. Ég varð ein með strákinn minn í kjölfar skilnaðarins en hann var þá 13 ára. Veikindi foreldra geta þar að auki tekið á börn og ég þurfti að reyna að halda utan um hann.“

,,Fólk þarf ekki að fara í fulla stöðu. Það getur komið í bakið á manni ef maður fer of hratt af stað, bæði líkamlega og andlega. Ég er samt hrædd um að það viti ekki nógu margir af þessari frábæru þjónustu. Það er um að gera að nýta sér það sem maður á rétt á þegar maður er búinn að greiða í alls kyns sjóði.“



Afar þakklát

Núna er Elísabet í hálfu starfi í Snælandsskóla í Kópavogi og hún fær endurhæfingarlífeyri á móti. ,,Ég er afar þakklát fyrir að hafa ekki þurft að fara í fullt starf. Með þessu móti get ég byggt mig betur upp. Ég er vissulega í endurhæfingu. Ég fékk þriggja mánaða kort í líkamsrækt og og innifalið í þeim pakka voru nokkrir tímar hjá sjúkraþjálfara. Hann segir að ég hafi hafi styrkst talsvert. Ég var orðin svo rosalega lin.“

Elísabet var í raun nýkomin aftur til starfa í Snælandsskóla þegar hún veiktist í fyrra. ,,Ég bjó í Englandi í fimm ár en hafði kennt í Snælandsskóla í nokkur ár áður. Ég get ekki lýst því hvað ég var fegin að vera komin heim og inn í íslenska heilbrigðiskerfið á ný þegar þetta dundi allt yfir. Þá var gott að vera ekki úti þar sem það getur verið mikið mál að leita sér þjónustu. Hér eru stutt að fara þegar sækja þarf þjónustu og svo er auðvitað fjölskyldan manns hér og vinirnir,“ tekur hún fram.

Aukinn þróttur

Að sögn Elísabetar hefur hún farið eftir ráðleggingum lækna sem hafa bent henni á að fara varlega af stað. ,,Fólk þarf ekki að fara í fulla stöðu. Það getur komið í bakið á manni ef maður fer of hratt af stað, bæði líkamlega og andlega. Ég er samt hrædd um að það viti ekki nógu margir af þessari frábæru þjónustu. Það er um að gera að nýta sér það sem maður á rétt á þegar maður er búinn að greiða í alls kyns sjóði. Ég vona jafnframt að það verði hringt í alla sem fengið hafa greitt úr sjúkrasjóði. Það treysta sér ekki allir til þess að hafa samband af fyrra bragði og biðja um þjónustuna þótt þeir eigi rétt á henni.“

Elísabet kveðst horfa björtum augum til framtíðarinnar. ,,Krabbameinsmeðferðinni er að mestu lokið en ég verð undir eftirliti næstu fimm árin. Ég finn hvernig þrótturinn hefur aukist með allri aðstoðinni sem ég hef fengið.“

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband