Harpa Fönn Sigurjónsdóttir
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir er fertug kona sem lauk starfsendurhæfingu hjá VIRK samhliða vinnu í janúar á þessu ári eftir að hafa notið þjónustu VIRK í ár.
„Aðdragandi þess að ég sótti um þjónustu hjá VIRK var sá það hafði mikið mætt á mér í þrjú ár. En það dró úr mér að sækja um ég hafði heyrt að maður þyrfti kannski að vera alveg orðin óvinnufær til þess að eiga erindi til VIRK. Þess vegna hélt ég lengi áfram á hnefanum sjálf,” segir Harpa Fönn.
„Mamma mín lést fyrir eigin hendi fyrir þremur árum síðan. Ég var ófrísk þegar þetta gerðist en missti það fóstur. Ég brást við þessum áföllum með því að hefja bataferli sjálf, vinna með heilsuna, enda var ég frekar vön sjálfsvinnu. Ég fór í fjölskylduráðgjöf, stundaði jóga og sund en ég fann eigi að síður að það sem áður var allt í lagi fyrir mig að gera var orðið mér mun erfiðara. Svo varð ég aftur ófrísk hálfu ári eftir að mamma dó en missti það fóstur líka. Í þriðja sinn varð ég ófrísk og eignaðist þá dóttur sem nú er tæplega tveggja ára. Fyrir áttum við hjónin dreng sem nú er að verða fimm ára.
Áföllin voru mér erfið og þótt að það sé yndislegt að eignast börnin sín þá breytir koma þeirra lífi manns. Ég var þrjátíu og fimm ára þegar sonur minn fæddist og sannarlega breytist lífsstíll manns við að eignast börn. Það er krefjandi. Þegar dóttir mín var sex mánaða þá áttaði ég mig á að það stefndi í óefni ef ég héldi svona áfram,” segir Harpa Fönn.
Hvað gerðir þú þá?
„Ég leitaði til heimilislæknisins míns og hann sendi mig í sálfræðimeðferð og fjölskylduráðgjöf hjá heilsugæslunni sem var mjög gott. Eigi að síður var þetta ekki nóg. Auk þessa notaði ég þau ráð sem ég sjálf hafði leitað uppi, sjúkraþjálfun, jóganámskeið og meðferð hjá kírópraktor. Þessi úrræði voru orðin mér mjög kostnaðarsöm og þar við bættust kaup á vítamínum og bætiefnum sem ég tók til að reyna að ná betri heilsu.
Allt þetta kostaði um níutíu þúsund krónur á mánuði. Ég sá því fram á að ég yrði að hætta þessu eða vinna meira til að geta borgað heilsueflinguna. En ég gat ekki hugsað mér að vinna meira en það fjörutíu prósenta starfshlutfall sem ég var og er í. Ég starfa sem lögfræðingur hjá mjög skilningsríkum vinnuveitanda. Ég hef líka fengið mjög mikinn stuðning frá manninum mínum.
Þegar ég áttaði mig á að ég yrði að fá frekari hjálp fór ég aftur á fund heimilislæknisins sem þekkir sögu mína mjög vel. Hann stakk upp á að ég leitaði eftir þjónustu hjá VIRK.”
Hvernig leist þér á þá hugmynd?
„Ég er mjög drífandi manneskja og mér leist vel á að leita úrræða hjá VIRK. Ég hafði ekki neina fordóma gegn því enda er umræðan orðin svo opin og fólki finnst ekkert óþægilegt við það að leita sér hjálpar áður en ástandið leiðir til algjörrar kulnunar. Fráfall mömmu var mikið áfall, ég hafði alltaf getað leitað til hennar. Ég missti því mikið þegar hún dó.”
Mér finnst mjög skemmtilegt í vinnunni og því mikilvægt að geta haldið áfram mínu starfi þar.
Dýrmætt að vinna samhliða endurhæfingu
Hvað kom til að þú leitaðir eftir starfsendurhæfingu samhliða þínu hlutastarfi?
„Ég rökstuddi á fyrsta fundi með matsaðila VIRK, þegar ekki var búið að ákveða hvort ég fengi þjónustu, að það væri ekki endilega vinnan sem ylli heilsutjóni mínu heldur margir aðrir samverkandi þættir. Mér finnst mjög skemmtilegt í vinnunni og því mikilvægt að geta haldið áfram mínu starfi þar.
Vinnuveitandi minn sýndi mér sem fyrr sagði mikinn skilning og úr því að ég gat haldið stöðu minni og liðið vel á vinnustaðnum þá vildi ég það. Ég vildi ekki bregðast á þeim vettvangi og það var mér dýrmætt að geta haldið áfram að vinna samhliða starfsendurhæfingunni. Nú er ég komin í áttatíu prósent vinnu þannig að greinilega hefur þetta allt verið til góðs.”
Hvernig var tekið í þessa hugmynd þína um vinnu samhliða starfsendurhæfingu?
„Mér leið strax eins og ég fengi þjónustu á þeim kjörum en mér fannst erfitt að bíða í mánuð þar til ég komst í viðtal hjá ráðgjafa VIRK. Þegar ég hitti svo ráðgjafann komum við okkur saman um að heppilegt væri að ég héldi áfram þeirri heilsurækt sem ég hafði stundað áður en ég kom í þjónustu hjá VIRK.
Ég hafði unnið talsvert í sjálfri mér og minni líðan – eftir svona áföll eins og ég varð fyrir þá er líkaminn lengur að jafna sig en ella. Ég var til dæmis enn með grindargliðnun þegar þetta var og glímdi við ýmsan annan stoðkerfisvanda. Ég hélt því áfram því sem ég hafði áður gert, var hjá sjúkraþjálfara og kírópraktor en svo var ákveðið að ég færi í úrræði til að styrkja mig - Pílatesæfingar í World Class. Ráðgjafinn benti mér á þetta úrræði sem var rétt hjá heimili mínu – ég var bíllaus á þessum tíma.
Ég lærði smám saman hvar mörkin mín eru og gæti þess að fara ekki fram úr þeim.
Magnað og áhrifaríkt úrræði
Ég ákvað líka að reyna að nota daglega hreyfingu til að byggja mig upp, ganga eða hjóla þangað sem ég ætti erindi. Pílatesæfingarnar hjálpuðu mér ótrúlega mikið. Smám saman breyttist líðan mín úr því að vera með daglega verki í það að fá verki af og til. Þá benti ráðgjafinn mér á EMDRáfalla- og sálfræðimeðferð sem ég ákvað að prófa.
Þetta reyndist vera mjög magnað ferli en ég er fegin að hafa ekki farið beint í það heldur haft tíma til að jafna mig dálítið. Þetta úrræði er áhrifaríkt en bæði andlega og líkamlega erfitt. Eftir fyrsta tímann gat ég varla hreyft mig í tvo daga. Þetta er ekki samtalsmeðferð eins og sálfræðiþjónustan var heldur er maður að endurheimsækja líðan eftir hin ýmsu áföll. Verið er þá að hjálpa manni út úr andlegum óþægindum þannig að þau leggist ekki á líkamlega líðan.
Líklega hefði ég ekki farið í þetta úrræði né heldur í World Class nema sem hluti af starfsendurhæfingu hjá VIRK. Það er svo margt sem mér finnst að hið opinbera ætti að taka þátt í en gerir ekki, það er til dæmis dýrt að vera í meðferð hjá kírópraktor en það hjálpaði mér mikið.”
Hvernig gekk þér í EMDR-meðferðinni að vinna úr áfallinu sem fráfall móður þinnar var?
Ég verð að viðurkenna að þessi meðferð dugði ekki að fullu til þess að vinna úr þessu eina áfalli, enda var það kannski ekki markmiðið. En þessi aðferð er tæki til að hjálpa manni að takast á við erfiðar aðstæður. Það var mjög gott að geta hreinsað til margt annað sem safnast hafði fyrir á vegferðinni allt frá barnæsku.”
Stundum fannst mér jafnvel gott að komast aðeins út af heimilinu, komast í vinnuna og hugsa þar um allt önnur viðfangsefni en þau sem erfiðara var kannski að hugsa um.
Vinnan færir mér hamingju
Hvernig gekk þér að vinna meðfram starfsendurhæfingunni?
„Vinnan mín færir mér mikla hamingju, ég er í draumastarfinu. En vissulega getur starf verið erfitt eins og allt annað í lífinu, jafnvel umönnun barnanna. Ég lærði smám saman hvar mörkin mín eru og gæti þess að fara ekki fram úr þeim. Þótt ég sé útskrifuð frá VIRK eru ýmsir hlutir sem ég verð að gera enn í dag. Ég veit að ég mun ekki geta sinnt hundrað prósent vinnu – maður ætti þó aldrei að segja aldrei – kannski get ég það eftir fimm ár? Fyrir hálfu ári tókum við hjónin mjög stóra ákvörðun, við minnkuðum við okkur húsnæði um þrjátíu fermetra og losnuðum þannig við einhverjar skuldir. Ég þurfti ekki að fara á lífeyri í starfsendurhæfingunni en VIRK borgaði fyrir mig ýmis heilsueflandi úrræði.”
Hafði þjónustan hjá VIRK einhver áhrif í sambandi við þá ákvörðun að fara í minna húsnæði?
„Já, ég held það. Ég hef lært að forgangsraða upp á nýtt og vil ekki fara í sama ástand aftur og ég var í áður. Minni fjárhagsáhyggjur þýða minna áreiti. Það var rosaleg frelsun. Ég losnaði líka við þá hugsun að ég yrði að vinna meira. Að losna við skuldir þýddi að ég get leyft mér að vinna hlutastarf án þess að hafa áhyggjur. Þetta var vissulega erfið ákvörðun en ég er mjög glöð með hana.”
Hvað viltu segja um það úrræði að vera í vinnu jafnhliða starfsendurhæfingu?
„Það hefur reynst mér vel. Tilfinningin um að vera einhvers virði sem ég fékk við það að halda áfram að vinna hjálpaði mér. Stundum fannst mér jafnvel gott að komast aðeins út af heimilinu, komast í vinnuna og hugsa þar um allt önnur viðfangsefni en þau sem erfiðara var kannski að hugsa um. Ég held samt að ég hefði aldrei getað þetta samhliða hundrað prósent vinnu eða hlutavinnu sem jafngilti slíku vinnuálagi.
Vinnuveitandinn minn og ég gátum púslað þessu mjög vel saman. Í fyrirtækinu sem ég vinn hjá var komin reynsla á hlutastörf – einnig meðfram aðstæðum í samfélaginu jafnhliða Covid 19 faraldrinum. Það ástand hefur kennt okkur að við getum sinnt ýmsu í gegnum tölvur, svo sem fundum, í stað þess að þeytast úr einum stað í annan. Líka hefur fólk komist upp á lag með að vinna hluta af starfi sínu heima.”
Umræða nútímans er opnari en hún var og það er ekkert að því að leita sér hjálpar áður en í algjör óefni er komið.
Þakklát fyrir samstarfið við ráðgjafa VIRK
Hvernig gekk að vinna með ráðgjafa VIRK?
„Það var frábært, ég var heppin með ráðgjafa, er þakklát fyrir samstarfið við hana. Það er mikilvægt að ráðgjafinn hlusti á þjónustuþegana. Við erum öll mismunandi, eitt hjálpar einum en öðrum ekki. Ef maður er sjálfur búinn að finna leiðir sem hjálpa manni þá er um að gera að halda því áfram. Ég hélt áfram í samvinnu við ráðgjafann að gera það sem mér fannst skila mér árangri, svo sem sjúkraþjálfunin og meðferð hjá kírópraktor. Hið nýja var Pílatesæfingarnar og EMDR-áfalla- og sálfræðimeðferðin.”
Heldur þú að starfsendurhæfing samhliða vinnu sé fyrir alla?
„Kannski ekki fyrir alla. Sumir þurfa að kúpla sig alveg út frá því sem þeir voru að gera. En ef maður getur það þá held ég að jafnvel örlítil virkni, kannski námskeið, hjálpi til í starfsendurhæfingunni. Að hafa eitthvert markmið.
Eitt var það sem ég gerði áður en get ekki enn haft inni í lífi mínu og það er tónlistin og sköpun á því sviði. Ég hef ekki getað opnað mér leið þangað eins mikið og ég gjarnan vildi. Listamenn þurfa kannski að taka sér alveg hlé eða hugsa sköpunarstarfið upp á nýtt. Þar held ég að séu aðstæður þar sem fólk getur bara verið annað hvort eða. Áföllin og breytingin á lífsháttum mínum hafa óneitanlega lokað dálítið leið minni að tónlistarsköpun. En á hinn bóginn hef ég í staðinn getað sinnt vinnunni, fjölskyldunni minni og mér sjálfri betur. Hægt og rólega kemur hitt aftur held ég. Núna er ég með mín tæki og tól til að takast á við lífið og kröfur þess.”
Telur þú að rútínan sem endurhæfing krefst komi niður á listsköpun?
„Já, maður verður að koma sér í ákveðna rútínu. Maður getur ekki verið kannski í tvo sólarhringa í miðju sköpunarferli og gleymt að borða og sinna nauðþurftum. Slíkt er ekki það hollasta sem maður gerir og gengur nærri manni. Ég hef orðið að endurhugsa og hrista talsvert upp í lífsmáta mínum. En maður hættir aldrei að skapa. Nú er ég farin að hekla. Mamma kenndi mér það hálfu ári áður en hún dó. Ég fór og keypti mér heklunál og fór að hekla og það gefur mér gleði. Sköpunarþörfin fer sínar leiðir.
Óráðlegt að bera saman áföll
Það er þannig að maður hefur ákveðið stolt. Ég hefði getað farið þá leið að viðurkenna ekki vanmátt minn og endað í kulnun. En það er ekkert til að skammast sín fyrir að lenda á hraðahindrun. Fólk þarf ekki að fara niður á botninn til þess að geta farið upp sjálft. Umræða nútímans er opnari en hún var og það er ekkert að því að leita sér hjálpar áður en í algjör óefni er komið. Ég hef ekki mikið rætt um reynslu mína af þjónustunni hjá VIRK í mínu starfi en ég hef rætt hana þess meira við ungar mæður sem eru kannski hart keyrðar.”
Hefur þú betri skilning á aðstæðum fólks eftir þessa reynslu þína?
„Já samkennd manns stækkar. Maður breytist við svona lífsreynslu. Mig langar í þessu sambandi að benda á að óráðlegt er að bera saman áföll. Það er misjafnt hvar hver einstaklingur er staddur. Bara það að vera fjölskylda í dag er rosalega erfitt. Það er einnig mikil samfélagsleg pressa á fólki. Slíkt reynir á. Það er ekki hægt að setja áföll í einhverja kassa ef svo má segja.”
Sjá nánar um Starfsendurhæfingu samhliða vinnu.
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason