Elín Marta Ásgeirsdóttir
„Kvíðinn rak mig til sálfræðings. Hann benti mér á að ræða við heimilislækni sem svo sótti um þjónustu fyrir mig hjá VIRK“, segir Elín Marta Ásgeirsdóttir.
Við sitjum á fimmtu hæð í húsi Blindrafélagsins við Hamrahlíð en þar starfar Elín Marta og hefur gert um árabil.
„Ég byrjað að vinna hér sem sumarstarfsmaður árið 2009 en svo fór að ég ílentist hér. Fyrst vann ég í framleiðsludeild en þegar ég kom aftur til starfa eftir starfsendurhæfingu hjá VIRK þá var ég flutt til og gegni nú hundrað prósent starfi hjá Sjónstöðinni sem ráðgjafi í ADL (athafnir daglegs lífs) þar sem ég aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að aðlagast lífinu með sjónskerðingu. Ég neita því ekki að ég er stundum þreytt en ég ætla að láta á þetta reyna,“ segir Elín Marta og brosir.
„Ég er Hafnfirðingur fædd árið 1979 en bý núna í Reykjavík ásamt sambýlismanni og eigum við tvær dætur saman 11 og 6 ára svo á hann tvær eldri stelpur sem eru 18 og 26 ára. Ég er með BA í félagsfræði frá árinu 2009, útskrifaðist síðan sem náms- og starfsráðgjafi árið 2010 og tók svo viðbótardiplómu í starfsendurhæfingu árið 2020.
Ég var barnlaus þegar ég hóf hér störf en meðganga beggja dætra minna var mér erfið. Ég fékk meðgöngusykursýki á fyrri meðgöngu en gat haldið henni niðri með réttu mataræði en þurfti lyf á þeirri seinni. Í báðum tilvikum voru börnin tekin með bráðakeisaraskurði. Þetta varð mér erfið reynsla.
Ég hef misst barnið mitt!
Ég var kvíðin og ástandið versnaði. Ég fór að vakna upp á næturnar og athuga hvort yngri dóttir mín andaði ekki örugglega. Eina nóttina var ég viss um að barnið andaði ekki. „Dóttir mín er dáin, ég hef misst barnið mitt,“ hrópaði ég og gekk um gólf hágrátandi með barnið. Maðurinn minn kom mér til aðstoðar. Ekkert reyndist vera að barninu en ég titraði öll og skalf af kvíða. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum.
Ég átti æ erfiðara með að sinna því sem ég átti að gera og það tók ég nærri mér. Ég hef alltaf verið nákvæm og passasöm varðandi mín verkefni. Þegar svo við bættust erfiðleikar og miklar breytingar urðu á vinnustaðnum hér þá varð það mér ofviða. Ég grét svo sárt að yfirmanneskja mín bað mig að koma inn á skrifstofu. Þar lýsti ég líðan minni og mér var gefið viku frí til að jafna mig. Það reyndist ekki koma að nægilegu gagni. Þá fékk ég frí í mánuð en það dugði ekki heldur.“
Ég átti æ erfiðara með að sinna því sem ég átti að gera og það tók ég nærri mér.
Hvað telur að hafi helst ýtt þér í átt að kulnun?
„Þótt ég hafi haft jákvæðar upplifanir af fæðingunum þá reyndu þær mjög mikið á líkamann. Ég missti mikið blóð og sennlega er þar að finna upphafið af kulnuninni. Ég fékk mikinn fæðingarkvíða en ekki fæðingarþunglyndi, sem skimað er fyrir. Sem fyrr getið var ég alltaf að vakta yngri dóttur mína á nóttunni, ég hafði stöðugt á tilfinningunni að hún andaði ekki og hlustaði sífellt eftir andardrættinum. Þarna var um að ræða sjúkleg kvíðaköst og eftir situr áfallastreituröskun í líkamanum.
Ekki bætti úr skák að í ljós kom síðar að telpan er með ADHD og því töluvert fyrirhafnarsöm. Við sváfum því lengi vel báðar lítið. Ég vaknaði svona fimm sinnum á nóttu og svo vaknaði stelpan alveg um sexleytið á morgnana. Svona langvarandi svefnleysi gerir mann órólegan.
Eftir að ég kom til baka eftir fæðingarorlof höfðu ýmsar breytingar átt sér stað á vinnustaðnum, það var mikil óánægja og hættu ýmsir störfum. Ég fékk í kjölfarið í hendurnar svokallað Evrópuverkefni, sem var umfangsmikið. Ég þurfti að fara í nokkrar utanlandsferðir og varð frekar þreytt. Ég fór að finna það í vinnunni að mér leið ekki vel, var þreytt og orkulaus, var lítil í mér og tók ýmislegt inn á mig og grét oft. Það var eftir þetta verkefni sem ég ákvað að fara í nám og ég fór í námsleyfi og tók diplómu í starfsendurhæfingu.
Mér er minnisstætt að í einum tímanum var farið yfir kulnun og einkenni hennar. Hvert og eitt einkenni sem lesið var upp átti við mig, allt nema hárlos. Ég taldi mig ekki vera með hárlos og því ekki með kulnun. Svo kom á daginn að ég var með hárlos. Ég hef undanfarið sem óðast verið að fá ný hár, það er bataeinkenni,“ segir Elín Marta og sýnir mér nýju hárin.
Mér er minnisstætt að í einum tímanum var farið yfir kulnun og einkenni hennar. Hvert og eitt einkenni sem lesið var upp átti við mig, allt nema hárlos.
Árið 2021 sendi ég skilaboð inni á Heilsuveru og sagði: „Ég er komin í örmögnun, algert þrot“ og lýsti líðan minni. Þá var svo komið að ég sat bara og titraði í sófanum. Ég reyndi að fara í göngutúra og slaka á en það gekk ekki.
Ég var óstjórnlega kvíðin og viðbrögðin eftir því. Ef ég til dæmis var að prjóna og missti niður lykkju þá fór ég að hágráta. Í vinnunni voru þá í gangi ýmsar breytingar sem ég þoldi illa. Það endaði sem sagt með því að ég brotnaði saman. Það hjálpaði mér að fara til sálfræðingsins sem vinnan borgaði, en það var ekki nóg, ég þurfti meira.
Höndlaði ekki áreiti
Daginn sem ég brotnaði alveg saman var verið að breyta ýmsu hérna innanhúss og ég þoldi það ekki. Ég höndlaði ekkert áreiti á þessum tíma og átti erfitt með að vera í kringum fólk. Forstjórinn sá að það var eitthvað mikið að mér, bað mig um að koma inn á skrifstofu og lagði til að ég færi heim.
Þennan sama dag hitti ég sálfræðing og hann sagði við mig: „Þú ert ekkert að fara aftur að vinna núna.“ Mér fannst ég ekki þunglynd en afskaplega taugastrekkt, kvíðin og þreytt. Ég unni mér heldur engrar hvíldar heima, var alltaf að. Kvíðaköstin komu út af engu og stundum gat ég varla andað.
„Á kóvíd-tímabilinu var maður að vinna heima og hitti engan. Og meðfram vinnunni var ég að gera stór og mikil verkefni í háskólanum. Á meðan ég var að bíða eftir að komast í þjónustu hjá VIRK sem heimilislæknir hafði sótt um fyrir mig fór ég á námskeið hjá Yoga Shala í Skeifunni sem heitir Hvíld og hvati. Þar lærði ég hugleiðslu, öndun og djúpslökun. Fram að þessu hafði ég ekki haft trú á hugleiðslu en ég komst upp á lagið með hana þarna. Ég hef alltaf átt erfitt með að öðlast hugarró en hugleiðslan hjálpar mér. Ég notaði líka mikið hlaðvarp sem heitir Tracks to relax.“
Var tólf mánuði þjónustuþegi hjá VIRK
„Eftir sumarfrí fór ég að hitta ráðgjafa VIRK hjá BHM. Á þessum tólf mánuðum sem ég var í þjónustu hjá VIRK hafði ég tvo ráðgjafa. Í upphafi var ég spurð hvers konar hreyfingu ég vildi stunda, ég réði ferðinni, mér var ekki ýtt út í neitt nema það sem ég sjálf vildi. Svona einstaklingsmiðuð þjónusta virkar vel.
Ég byrjaði á að fara á námskeiðið Þjálfun í vatni – sundæfingar í sundleikfimi. Í slíku eru nokkur stig og ég fór í erfiðasta stigið. Þetta var mikið púl en ég elskaði það. Ég fékk líka úthlutað tímum hjá sálfræðingi og það hjálpaði mér óskaplega mikið. Smátt og smátt fór kvíðinn að minnka.
Hjá sálfræðingnum áttaði ég mig á að ég hefði sennilega alltaf verið kvíðin án þess að vita af því. Ég hef alltaf verið vandvirk og viljað hafa allt í besta lagi. Hef jafnan sagt „já“ við öllu sem ég hef verið beðin um. En ef eitthvað klikkaði hjá mér þá brást ég við með því að fara að gráta.
Sálfræðingurinn hjálpaði mér að finna út hvar kvíðinn lá og líka að takast á við hann. Hún beitti EMDR meðferð sem ég hélt fyrst að væri dáleiðsla en svo er ekki. Þetta snýst um róandi hreyfingar sálfræðingsins með fingrum sem maður fylgir með augunum. Slíkar æfingar gagnast vel við áfallastreituröskun. Ekki veitti af – um leið og ég fór að tala til dæmis um þau skipti sem ég hélt að barnið mitt hefði dáið fór ég öll að titra og þá gat sálfræðingurinn náð mér niður með þessari aðferð sem notuð er til að endurstilla tilfinningarnar.
Sálfræðingurinn hjálpaði mér að finna út hvar kvíðinn lá og líka að takast á við hann.
Ég fór einnig á námskeiðið Staldraðu við í Hafnarfirði þar sem við vorum fyrsta tímann í hópavinnu, svo fórum í klukkuttíma göngu, bara konur. Það var lítið talað, bara gengið og reynt að komast í tengsl við náttúruna. Þetta var þrisvar í viku í þrjár vikur. Ég þurfi að keyra suðureftir snemma morguns og þótti þetta rosalega erfitt en smám saman fór þetta að hafa áhrif og síðasta klukkutímann var svo beitt slökun eftir gönguferðirnar.
Maður átti sem sagt ekki að tala, bara upplifa. Mér fannst þetta svolítið tilgerðarlegt fyrst en sú tilfinning hvarf. Eftir þrjár vikur þá fannst mér þetta æðislegt. Ég sótti líka úrræðið Að setja mörk í lífi og starfi sem ég get mælt með. Ég fór að verða rólegri smám saman.
Ég var frá vinnu samtals í níu mánuði. Það var alltaf ætlunin hjá mér að koma aftur hingað til starfa. Við endurkomu hóf ég að þjónusta ungt fólk, blint eða sjónskert. Núna vinn ég við að þjónusta eldri borgara, sjónskerta og blinda, aðstoða þá með hjálpartæki og fleira þess háttar. Ég hef fundið fyrir miklu þakklæti hjá eldra fólkinu. Þótt maður geri ekki meira en rétta því stækkunargler fær maður þakkir fyrir.
Ég var frá vinnu samtals í níu mánuði. Það var alltaf ætlunin hjá mér að koma aftur hingað til starfa.
Í fjóra mánuði var ég í hálfu starfi, síðan í 80 prósent vinnu og er svo núna í 100 prósent starfi. Ég á þó afturkvæmt í 80 prósent vinnu ef full vinna reynist mér of erfið.“
Hvernig reyndist þér þjónustan hjá VIRK?
„Hún reyndist mér mjög vel. Ég gat alltaf haft samband við ráðgjafann og fengið viðtöl. Ég gat rætt þar allar áhyggjur mínar og svo náttúrlega fékk ég sem fyrr greindi námskeið og sálfræðiþjónustu sem ég þurfti. Sálfræðiþjónustan bjargaði mér algerlega.“
Kvíðalyf hafa hjálpað mér líka
Ertu búin að ná þér að mestu leyti?
„Já. Það hjálpaði mér líka að fá kvíðalyf. Þau fékk ég tiltölulega snemma í þessu ferli. Ég var í upphafi heldur tortryggin, en vinkona mín sem er sálfræðingur sagði: „Því ekki að prófa!“ – ég gerði það og er sátt. Nú kann ég líka að bregðast við ef ég er að fá kvíðakast. Þá dreg ég mig í hlé og nota þau ráð sem mér hafa verið kennd til þess að ná aftur hugarró – stilla mig af.
Maðurinn minn reyndist mér mjög vel í þessu öllu. Ég hef alltaf verið með alla bolta á lofti. Þarna missti ég þá alla en hann hjálpaði mér að tína þá upp og halda þeim uppi. Ég tók það ráð að skrifa niður það sem gera þurfti og hvaða verkefni ég vildi að hann tæki að sér. Þetta hefur gefist vel. Hann er líka farinn að finna ef ég er ekki á góðum stað og tekur þá við verkefnum ef honum sýnist að þess þurfi.
Þegar ég fór að fá bata vildi ég gera æ meira en fljótlega áttaði ég mig á því að þá færi ég aftur í sama farið. Ég hætti því í alls konar félagsstörfum og stjórnum í skólanum, skemmtinefnd í vinnunni og fleiru. Sem sagt, reyndi að hafa verkefnin hófleg.
Sálfræðingurinn sagði að ég væri of bóngóð svo nú sit ég beinlínis á höndnum á mér svo ég rétti þær ekki upp þegar þarf að fá einhvern til að gera eitthvað. Mér hefur aldrei fundist ég vera hvatvís, en líklega er ég það. Ég vil helst gera allt strax sem mér dettur í hug. Sálfræðingurinn velti í ferlinu upp þeirri spurningu hvort verið gæti að ég væri með ADHD en mér hefur ekki fundist það.“
Reynsla mín af VIRK er æðisleg
Hvernig meturðu stöðu þína núna?
„Mér finnst ég ekki alveg komin til baka og kannski gerist það aldrei. Allt breytist þegar maður eignast börn og með aldrinum. Áður reyndi ég að „bera grímu“ en ég hef ekkert að fela og mér hefur fundist gott að berskjalda mig – segja frá.
Ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þeirrar aðstoðar.
Hvað er langt síðan þú hófst störf að nýju?
„Það eru næstum tvö ár og þetta hefur gengið ágætlega. Eftir að ég lauk starfsendurhæfingunni, var búin með öll námskeið, sálfræðiþjónustuna og vinnuna með ráðgjöfunum þá fannst mér ég vera dálítið ein. Það var auðvitað hringt í mig og spurt hvernig mér gengi en eigi að síður fannst mér ég dálítið einmana um skeið. Ég hefði viljað láta halda lengur í höndina á mér. Að öðru leyti var reynsla mín af VIRK alveg æðisleg. Ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þeirrar aðstoðar.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Kalr Ingason