Anna Hildur Guðmundsdóttir
„Ég vann á karllægum vinnustað þar sem voru stjórnunarhættir sem létu mér líða illa,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir sem nýtti sér þjónustu VIRK fyrir nokkrum árum og vill deila reynslu sinni af því sem gerðist eftir að hún missti vinnu og fylltist mikilli vanlíðan – hvernig henni tókst að bæta sjálfsmynd sína og heilsu og finna nýtt starf í fyllingu tímans.
„Orsök þess að ég hætti á mínum karllæga vinnustað var vöntun á samskiptum. Ég bý á Akureyri og starfaði þar en svo vildi þessi vinnustaður færa mig til í starfi og staðsetningu án samtals við mig. Þetta kom sér mjög illa fyrir mig þar sem ég var þá með börn á skólaaldri og aldraða og veika móður á heimilinu.
Ég neitaði að láta flytja mig til án samráðs og það leiddi til þess að mér var sagt upp. Á karllæga vinnustaðnum var aftur á móti litið svo á að ég hefði sagt upp. Sem sagt; það var ósamkomulag um starfslok mín. Í framhaldi af því leitaði ég strax til stéttarfélags míns. Það hóf málsókn og ég sótti rétt minn. Ég vann þetta mál en allt þetta ferli leiddi hins vegar til þess að ég varð óvinnufær.“
Hvað gerðir þú þá?
„Ég leitaði til heimilislæknis og hann tók mér mjög vel. Hann skildi ástand mitt og var sammála þeirri hugmynd að leita eftir þjónustu hjá VIRK. Hann gaf mér raunar tvo möguleika, að leita til VIRK eða sækja um að komast heilsustofnunina í Hveragerði. Ég samþykkti hvoru tveggja en þegar kom að því að ég kæmist í Hveragerði var ég komin inn hjá VIRK.“
Áfallið leiddi til vanvirkni
Hvernig kom þetta ástand við þínar aðstæður?
„Þegar ég var eiginlega búin með sjúkraréttinn minn hjá stéttarfélaginu að mér var bent á að ég skyldi leita til VIRK sem ég gerði þegar ég fór til læknisins. Ég hafði unnið að málefnum sem voru mér hugsjón og það var því mikið áfall að lenda í þessum samskiptaerfiðleikum á karllæga vinnustaðnum. Ég varð í framhaldi af þessum leiðindum beinlínis vanvirk.
Mér er minnisstætt þegar dóttir mín kom heim og ég hafði varla farið á fætur í sex vikur. Hún sagði: „Mamma við erum ekki vanar að sjá þig svona.“ Þá varð mér ljóst að ég þyrfti virkilega að leita mér aðstoðar. Ég gerði það sem fyrr sagði og vil taka það fram að mér fannst ekki erfitt að leita til VIRK, síður en svo.“
Vanvirkni mín leiddi til þess til þess að ég dró mig í hlé og átti erfitt með að taka ákvarðanir varðandi sjálfa mig, hvað ég ætti að gera og hvernig ég ætti að fylla upp í daginn, ef svo má að orði komast.
Hvernig kom þessi vanvirkni fram?
„Vanvirkni mín leiddi til þess til þess að ég dró mig í hlé og átti erfitt með að taka ákvarðanir varðandi sjálfa mig, hvað ég ætti að gera og hvernig ég ætti að fylla upp í daginn, ef svo má að orði komast. En þegar ég komst í þjónustu hjá VIRK fannst mér ótrúlega gott að hitta ráðgjafann. Ég fann í fyrsta viðtali að hann trúði á mig og að ég treysti honum til að finna leið fyrir mig til að vinna gegn þessum vanmætti mínum.
Við fundum út, ég og ráðgjafinn minn, að heppilegt væri að ég kæmi reglulega í viðtöl til hans. Ég hitti svo ráðgjafann hálfsmánaðarlega í um hálft ár. Það hentaði mér best – reyndist leiðin fyrir mig.“
Hætti að neita góðum uppástungum
Hvernig starfsendurhæfngaráætlun lögðu þið upp með?
„Ráðgafinn benti mér á að sinna grunnþörfum mínum, hreyfa mig daglega úti við því súrefnið gerir svo mikið fyrir heilann. Einn góður göngutúr getur verið á við góðan sálfræðitíma. Sérstaklega ef maður er til dæmis með vinkonu sinni eins og ég var. Ráðgjafinn sagði mér líka að gæta þess að borða góðan mat reglulega og hitta fólk. Ég er með gott net í kringum mig en var orðin neikvæð gagnvart því að gera nokkurn hlut sem stungið var upp á.
Eftir eitt samtalið við ráðgjafann áttaði ég mig á að ég mætti ekki alltaf segja nei. Ég ákvað í framhaldi af því að hætta að neita góðum uppástungum, svo sem að fara á kaffihús svo dæmi séu nefnd. Nánir vinir skildu hvað klukkan sló og tóku að hringja í mig og bjóða mér að fara hitt og þetta. Oft nennti ég alls ekki að fara – en samkvæmt ákvörðun minni mátti ég ekki neita. Þetta leiddi til þess að að smátt og smátt fór mér að líða betur.
Ráðgjafinn sagði svo við mig að ef ég gerði það sem við höfðum komið okkur saman um þá mætti ég vera löt með góðri samvisku og gera ekki neitt nema kannski horfa á sjónvarpið. Ég hef aldrei frá unglingsaldri verið atvinnulaus svo ég fékk sektarkennd ef ég var bara heima, fékk þá tilfinningu að ég væri í rauninn bara ekki neitt.
Ég er göngumanneskja, hef verið með hunda og þurft að fara út að ganga með þá um árabil. Í framhaldi af ákvörðuninni um að neita ekki þá tók ég að fara út að ganga í félagsskap í stað þess að fara ein.
Í heilt ár eftir áfallið vegna ólögmætrar uppsagnar átti ég bágt með að sofa en mér tókst með tímanum smám saman að koma svefninum í lag. Ég tók ekki lyf, vildi það ekki en fékk mér hins vegar óspart gott te og fór í sund á kvöldin, það hjálpaði.“
Áfallið olli höfnunartilfinningu
Ráðgjafi VIRK mælti með að ég færi til sálfræðings sem ég og gerði. Sálfræðingurinn var á Akureyri og það var mjög gott að hitta hann. Að fara til hans hjálpaði mér að vinna úr áfallinu og höfnunartilfinningunni sem það hafði valdið mér. Ég uppgötvaði hve starfið mitt hafði verið tengt minni persónu og sjálfsmynd. Þegar starf sem er manni svona mikils virði er tekið frá manni þá fer maður að efast um sjálfan sig. Það er erfitt. Mér fannst ég ómöguleg úr því mér var sagt upp.“
Hvernig gekk með fjármálin?
„Í fyrsta lagi er ég vel gift kona. Í öðru lagi fékk ég sjúkradagpeninga í þrjár mánuði hjá stéttarfélaginu og síðan gerði VIRK endurhæfingaráætlun fyrir mig þannig að ég fékk endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun.“
Ráðgjafinn setti mér í hverjum tíma fyrir verkefni sem ég átti að vera búin að leysa næst þegar ég kæmi. Það gat verið að fara í sund eða á kaffihús eða eitthvað annað sem fékk mig til að fara út af heimilinu.
Fórstu á einhver námskeið á vegum VIRK?
„Nei það varð ekki af því. Mér bauðst að fara á jóganámskeið en það var ekki á heppilegum tíma vegna aðstæðna heima fyrir. Ráðgjafinn hélt vel utan um mig. Hann hjálpaði mér að taka ákvörðun um að sækja um hvíldarinnlögn fyrir móður mína en veikindi hennar höfðu versnað á þessu tímabili. Mitt nánasta fólk hafði ráðlagt mér áður að sækja um fyrir mömmu en ég dró það á langinn. En þegar ráðgjafinn sagði að ég ætti að gera það þá sótti ég hins vegar umyrðalaust um. Það fannst manninum mínum næsta einkennilegt. Móðir mín lést fyrir fjórum árum.
Þegar maður lendir í svona áfalli sem brottrekstur úr starfi er þá er rosalega gott að komast til ráðgjafa sem hefur trú á manni og gefur manni þá vissu að staða manns muni breytast til hins betra. Ráðgjafinn sagði við mig: „Það er eðlilegt að gráta. Það er eðlilegt að vera reiður. Og það er eðlilegt skammast sín fyrir að vera ekki að vinna.“.
Mér fannst hræðilegt að vera komin í þá stöðu að vera fjárhagslega háð manninum mínum, það hafði ég aldrei verið fyrr – alltaf unnið og haft tekjur. Tekjumissirinn hafði slæm áhrif á sjálfsmyndina. Það var ótrúlega erfitt að segja: „Ég á engan pening – getur þú lagt inn á mig?“ Ég hef alltaf staðið mína plikt en var allt í einu komin bara heim og hafði engin verkefni önnur en heimilisstörf.“
Setti fram markmið sem stóðst
„Þegar maður lítur til baka þá gerðist margt neikvætt á sama tíma, ég missti vinnuna, ég varð vanvirk og mamma greindist með heilabilun. En hins vegar var ýmislegt jákvætt, svo sem að þar sem ég var ekki að vinna þá gat ég sinnt mömmu betur og ég tel líka að uppsögnin hafi á endanum verið til góðs. Ég losnaði úr mjög karllægu umhverfi og það var heppilegt fyrir mig. Ég hafði áður unnið mikið og af hugsjón en við þessa breytingu þá hætti ég að tengja sjálfsmyndina við starf í sama mæli og ég hafði áður gert.“
Hvernig gekk að samræma meðferðina hjá ráðgjafanum og einkalífið?
„Það gekk mjög vel. Akureyri er lítill bær og auðvelt að komast á milli. Ég var yfirleitt seinni partinn í viðtölum. Ráðgjafinn setti mér í hverjum tíma fyrir verkefni sem ég átti að vera búin að leysa næst þegar ég kæmi. Það gat verið að fara í sund eða á kaffihús eða eitthvað annað sem fékk mig til að fara út af heimilinu. Þetta tókst hjá henni. Í byrjun settum við í sameiningu fram markmið með góðum tímaramma og það markmið stóðst.“
Hver er staðan hjá þér núna?
„Ég komst fyrst í fulla vinnu hjá sveitarfélaginu mínu og það starf hentaði mér vel. Núna er ég hins vegar komin í nýtt starf sem tengist starfsreynslu minni. Ég er rosalega hrifin af VIRK og hef trú á þessu prógrammi, hvernig hlutirnir eru gerðir þar. Ég er viss um að ég væri ekki það sem ég er í dag ef ég hefði ekki notið þjónustu VIRK.
VIRK hefur þróast í takt við samfélagið og mætir þörfum fólks sem lendir í vanda og bendir á allskonar leiðir sem hægt er að nota sem forvarnir.
Í starfinu sem ég sinnti hjá Akureyrarbæ hitti ég stundum fólk sem virtist komið með allt of mikið á sínar herðar og sýndi þess merki að það væri að komast í þrot. Þá benti ég því gjarnan á VIRK og þjónustuna þar og öll þau úrræði og faglega traust sem þar er að finna.
VIRK hefur þróast í takt við samfélagið og mætir þörfum fólks sem lendir í vanda og bendir á allskonar leiðir sem hægt er að nota sem forvarnir. Það er hægt að koma í veg fyrir ótrúlega margt með því að nýta sér þær leiðir sem VIRK miðlar.“
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason