Hjördís Þorkelsdóttir
„Mig langaði að verða aftur virkur þátttakandi í lífinu, en ég gat ekki lengur gegnt gamla starfinu mínu. Stéttarfélagið mitt benti mér á VIRK Starfsendurhæfingarsjóð og þótt ég vissi lítið hvaða hlutverki hann gegndi þá fannst mér ekki saka að tala við ráðgjafa. Mig grunaði ekki að ég fengi svona mikla aðstoð. Ráðgjafinn fór bókstaflega yfir allt með mér; hvort mig langaði að mennta mig meira, ég fékk aðstoð við að byrja í líkamsrækt, geðhjúkrunarfræðingur kemur í heimsókn til mín vikulega, fjármál fjölskyldunnar voru tekin í gegn og svona mætti lengi telja. Í mínu tilviki virðist hreinlega enginn vandi, sem þessir ráðgjafar geta ekki hjálpað mér að leysa úr. Það er algjörlega ómetanlegt að fá svona hjálp.“
Hjördís E. Þorkelsdóttir er rúmlega fertug, gift og fjögurra barna móðir. Hún starfaði sem sjúkraliði á Hrafnistu í Hafnarfirði, en þegar gigtarsjúkdómur fór að herja á hana varð hún að hætta störfum. Hún hafði líka fengið taugaáfall árið 2005, en segir að þótt hún hafi vissulega fengið aðstoð þá hafi eftirfylgnin ekki verið nein. „Eftir langvarandi erfiðleika, sem tengdust áhyggjum af fjölskyldunni, fjárhagnum og versnandi heilsufari, fékk ég annað áfall í febrúar 2009. Ég hvarf af vinnumarkaði og satt best að segja leit ekki út fyrir að ég ætti greiða leið í annað starf. Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins, benti mér á VIRK og sagði að þar gæti ég fengið hjálp til að komast af stað á ný.“
Aftur á skólabekk
Hjördís hitti ráðgjafa fyrst í október 2009. „Það var tekið afskaplega vel á móti mér. Ég skýrði frá stöðu minni og ráðgjafarnir, Soffía og Karen, spurðu mig mjög ítarlega út í alla hluti. Aðstoð þeirra var frábær og ég var strax miklu sporléttari eftir fyrstu heimsóknina. Ég hafði til dæmis gælt við að fara í nám og var þá alltaf að íhuga nám sem tengdist sjúkraliðastarfinu, til dæmis iðjuþjálfun eða hjúkrunarfræði. Hins vegar fann ég að ég hafði ekki nægan áhuga á þessum fögum. Í viðtölunum hjá ráðgjöfunum tókst mér að greina betur hvað ég raunverulega vildi. Ráðgjafarnir fóru líka yfir nám mitt fram á þennan dag, árin sem ég var í Menntaskólanum við Sund og í sjúkraliðanáminu og þá kom í ljós að ég á mjög stutt eftir í stúdentspróf. Sjálf hafði ég haldið að ég ætti 2-3 annir eftir, en nú veit ég að mér nægir að setjast á skólabekk í eina önn. Og þegar stúdentsprófið er í höfn ætla ég að fara í sálfræði við Háskóla Íslands. Ég hlakka óskaplega mikið til að byrja í námi aftur. Það er langt síðan ég hef hlakkað svona mikið til einhvers.“
„Ráðgjafarnir höfðu lag á að byggja mig upp og núna hlakka ég til framhaldsins. Ef ég hefði ekki fengið þessa aðstoð væri ég áreiðanlega föst í sama doðanum og fyrr; ég fann ekki fyrir neinu nema þá helst vonleysinu. Og ég veit að ég hefði ekki getað gert þetta allt ein og óstudd; athugað stöðuna í náminu, farið að stunda ræktina eða á fjármálanámskeið.“
Margvísleg aðstoð
Hjördís ætlar ekki aðeins að huga að námi, því líkaminn þarf einnig að styrkjast. „Ráðgjafarnir útveguðu mér þriggja mánaða kort í Sporthúsinu og þar tók þjálfari á móti mér og útskýrði hvað ég þyrfti að gera til að styrkjast og léttast. Þennan þjálfara hitti ég alls sex sinnum, til að fara yfir prógrammið sem hann fól mér að vinna eftir og ræða um árangurinn.
Svo fengum við hjónin fjármálaráðgjöf. Þótt staðan sé slæm, þá létti okkur báðum mjög við að fá nákvæma úttekt á því hver hún raunverulega er. Núna vitum við hvað þarf að gera, horfumst í augu við vandamálin og tökumst á við þau í sameiningu. Þetta skiptir okkur bæði miklu máli. Ég veit að maðurinn minn var orðinn mjög þjakaður af fjárhagsáhyggjum, en samt ætlaði hann ekki að fást til að koma með mér í ráðgjöfina. Það eru auðvitað þung spor fyrir marga. En hann kom nú samt og sér ekki eftir því. Við sátum fimm daga námskeið, þar sem farið var yfir ýmis grunnatriði og svo fengum við sérstaka ráðgjöf. Þar var farið ítarlega í saumana á fjármálum okkar, en mannlegi þátturinn gleymdist ekki, því við fengum líka aðstoð við að skilja þau áhrif, sem fjárhagsvandinn hafði á tilfinningar okkar. Svo fengum við aðstoð við að semja þau bréf sem þurfti til að koma fjármálunum í réttan farveg.“
Börnin næm á líðan
Börnin finna vel að mömmu þeirra líður betur. „Þau eru næm á líðan manns og um leið og ég styrkist, styrkjast þau. Ég hef sjálf gert mér grein fyrir að ég er einstaklingur með eigin þarfir. Áður var ég alltaf að hugsa um aðra og vanrækti sjálfa mig algjörlega. Það varð til þess að ég var að niðurlotum komin og auðvitað var enginn styrkur í mér í þannig ástandi.“
Hjördís fer einu sinni í viku til Soffíu og Karenar. „Stuðningur þeirra er ómetanlegur, í stóru sem smáu. Karen lætur mig til dæmis skipuleggja tíma minn, sem ég hef aldrei gert áður, til að ég verði tilbúin í námið. Ég veit líka að þær sleppa ekkert af mér hendinni, þótt ég ljúki stúdentsprófinu. Þær ætla til dæmis að aðstoða mig við að sækja um háskólanámið. Ég veit líka að þær geta veitt góð ráð um námslán, sem ég þarf hugsanlega að taka þegar í Háskólann er komið. Núna fæ ég endurhæfingarlífeyri, af því að ég get ekki lengur starfað í mínu fagi.“
Í góðum höndum
Hjördís segist hafa verið heppin að fá ábendingu um starf VIRK. „Það var frábært að lenda í svona góðum höndum. Ég vona að sem flestir eigi þess kost, ef þeir þurfa svona stuðning. En ég veit að margir þekkja ekkert til þessa starfs. Vinir mínir hváðu margir þegar ég sagði þeim af VIRK og höfðu aldrei heyrt á hann minnst. Læknirinn minn var einn þeirra sem hafði enga hugmynd um að ég gæti fengið þessa aðstoð. Ég hef áhyggjur af því fólki, sem missir vinnuna eða verður að hætta að vinna af einhverjum orsökum og veit ekki af þessum möguleika. Sumir eru ekki í nægilega góðu sambandi við stéttarfélagið sitt, sem gæti bent á þetta.“
Uppbygging og tilhlökkun
Hún segir líðanina hafa batnað um leið og hún fór að hitta ráðgjafana. „Meira að segja áður en ég var farin að móta líf mitt upp á nýtt leið mér miklu betur. Ráðgjafarnir höfðu lag á að byggja mig upp og núna hlakka ég til framhaldsins. Ef ég hefði ekki fengið þessa aðstoð væri ég áreiðanlega föst í sama doðanum og fyrr; ég fann ekki fyrir neinu nema þá helst vonleysinu. Og ég veit að ég hefði ekki getað gert þetta allt ein og óstudd; athugað stöðuna í náminu, farið að stunda ræktina eða á fjármálanámskeið. Ég var alltaf svo kvíðin, að ég reyndi meira að segja að forðast að tala við nokkurn mann í símann. Áður var ég alltaf svo félagslynd, en undanfarin ár hef ég helst viljað vera heima. Núna hlakka ég til framtíðarinnar.“