Valborg Sigrún Jónsdóttir
Brosandi kemur Valborg Sigrún Jónsdóttir til dyra og býður mér í bæinn. Innandyra fæ ég stórfenglegar viðtökur. Hundurinn Stormur fer eins og stormsveipur um stofuna og ber greinilega nafn með rentu – hann stekkur til mín með hvert leikfangið af öðru. „Hann er bara unglingur en samt búinn að vera á nokkrum heimilum,“ segir Valborg svolítið afsakandi. En ég er ekki komin til að leika við Storm heldur til að ræða við „mömmu" hans, hana Valborgu sem fyrir nokkru lauk starfsendurhæfingu hjá VIRK og ætlar að deila reynslu sinni með samborgurum sínum.
„Aðdragandinn að því að ég fór í þjónustu hjá VIRK var sá að árið 2016 ég fékk illvíga iðrakveisu sem mér gekk erfiðlega að losna við. Ég hélt nánast engu niðri og missti mikinn vökva vegna niðurgangs. Auk þess lenti ég í „tannveseni“ og þurfti að taka breiðvirk sýklalyf sem reyndu mjög á „góðu“ þarmaflóruna,“ segir Valborg eftir að hafa borið fram kaffi og Sörur sem hún sjálf hafði bakað. Stormur gerir ítrekaðar tilraunir til þess að ná athyglinni svo það endar með því að Valborg setur hann í búr sitt svo við fáum stundarfrið.
„Svo mjög var af mér dregið þegar þarna var komið sögu að ég var beinlínis farin að rugla. Ég endaði á bráðamóttöku. Nokkurn tíma tók að finna út hvað amaði að mér. Ég ætlaði auðvitað að fara til vinnu strax og ég gæti. Ég fékk lyf sem virkuðu en skömmu síðar fór ég í jarðaför náins ættingja og þá tóku veikindi mín sig upp aftur. Mínum ágæta heimilislækni leist þá þannig á mig að hann ráðlagði mér að sækja um þjónustu hjá VIRK. Mér fannst það alls ekki fyrir mig. Ekki það að ég væri ekki hrifin af starfsemi VIRK – ég taldi bara að ég væri alls ekki nógu lasin til þess að eiga rétt á þjónustu þar, taka pláss sem mér veikara fólk þyrfti á að halda,“ segir Valborg þegar hún er aftur sest við kringlótta borðið í stofunni.
„Ég fékk símhringingu frá VIRK í byrjun febrúar 2017, fyrr en ég átti von á eftir að ég hafði samþykkt að sækja þar um. Ég fór til þess ráðgjafa og komst að þeirri niðurstöðu að vissulega myndi mér gagnast sú þjónusta sem mér bauðst hjá VIRK,“ segir Valborg.
„VIRK hjálpaði mér algjörlega að ná mér á strik. Ég fékk þar einskonar nýja skólagöngu. Hvert og eitt úrræðið sem mér var boðið nýttist mér á leið minni til bata.“
Hvernig var sú áætlun sem þú lagðir upp með í félagi við ráðgjafann?
„Ég ræddi bara heilsufar mitt vítt og breitt við þann fyrsta og það var mjög gott. Jafnframt fékk ég að vita að ég myndi fá fljótlega fá annan ráðgjafa. Við þann ráðgjafa ræddi ég fyrirhugaða starfsendurhæfingaráætlun. Alls urðu ráðgjafarnir fjórir á tveimur árum og það var fínt að hitta þá alla. Hver og einn hafði góð ráð mér til handa og fjölbreytileg.
Sú áætlun sem ég lagði upp með í byrjun var að skrá mig á námskeið hjá Heilsuborg sem kallaðist heilsulausnir. Ætlunin var að ég myndi hreyfa mig meira og reglulegar en ég hafði gert, taka fæðið til endurskoðunar og raunar lífstíl minn. Ég þurfti að þróa allt kerfið upp á nýtt. Það var gott að fá slíkt utanumhald. Einnig fékk ég tíma hjá sálfræðingi og markþjálfa, sem og námskeið í hugleiðslu og núvitund. Hjá Heilsuborg var ég reyndar búin að skrá mig áður en ég fór til VIRK á námskeið sem hét orkulausnir, ég var orðin svo orkulaus.
Veikindin hentu mér fram af brúninni
Í byrjun þjónustunnar hjá VIRK stefndi ég alfarið á að ná upp líkamsþrótti mínum og fara síðan að vinna sem fyrst. Ég veitti á þessum tíma forstöðu frístundaheimili sem var mikil vinna. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en síðar að ég var þegar á leið í kulnun þegar ég veiktist af iðrakveisunni. Fyrrnefnd veikindi voru í raun það sem „henti mér fram af brúninni.“ Mér fannst gaman í vinnunni en eigi að síður var ég þar undir langvarandi ofurálagi – en mér hættir líka til að vinna alltaf eins og ég sé á vertíð, ég er skorpumanneskja,“ segir Valborg og brosir.
Hún stendur á fimmtugu en lítur út fyrir að vera yngri. Röskleiki hennar og glaðlegt fas gefa þó ekki rétta mynd af heilsufari hennar.
„Hjá VIRK sagði ráðgjafi við mig að ég ætti kannski að skoða hvort vefjagigtin væri að hrjá mig meira en ég gerði mér grein fyrir. Satt að segja hafði ég lengi verið með vefjagift en ég hafði bara tekið þeim verkjum sem sjálfsögðum, ekki hugsað neitt meira um það. Ekki heldur um sjálfsofnæmissjúkdóminn sem veldur mér síþreytu og augnvandamálum.
Í vegferðinni hjá VIRK kom í ljós smám saman að þar átti ég nokkuð langa leið fyrir höndum. Ég bjóst við að ég gæti farið að vinna fulla vinnu eftir að þjónustunni lyki en þar fór ég nú aldeilis villu vegar," segir Valborg og hlær.
Tal okkar berst að bakgrunni Valborgar. Hún kveðst hafa farið ung að heiman og unnið ýmis störf.
„Ég bjó sem barn lengst af á Siglufirði, var reyndar að eigin ósk í umsjá föður míns um tíma eftir skilnað foreldra minna þegar ég var átta ára. En sú vist reyndist ekki hið rétta svo ég fór aftur til mömmu. Hún hafði þá nýverið kynnst öðrum manni sem varð fóstri minn og ég kallaði pabba.
Grunnskólanám mitt var fjölbreytilegt, ég var í nokkrum skólum en lauk grunnskólaprófi á Siglufirði. Eftir það fór ég í Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki. Ætlaði að verða rafvirki. Í ljós kom að sú leið hentaði mér ekki svo ég fór til Reykjavíkur með þá fyrirætlun í farteskinu að verða snyrtifræðingur. En það var dýrt að vera til fyrir sunnan – þótt ég leigði með vinkonu minni. Námið sat því á hakanum.
„Andleg heilsa mín var á þessum tíma orðin frekar slöpp, mér fannst að ef ég gæti ekki unnið hundrað prósent vinnu þá væri ég í raun og veru einskis nýt. Það er ekki góður staður að vera á.“
VIRK hjálpaði mér að ná mér á strik
Ég var um þetta leyti í sambandi við tónlistarmann og lífið í því umhverfi var æði skrautlegt. Ég vann á ýmsum stöðum. Á Hressingarskálanum meðan hann var og hét, á Púlsinum og einnig í Tékkkristal. Svo gerðist það árið 1992 að ég kynntist verðandi eiginmanni mínum á samkomu í Skátabúðinni – ég hugsaði mér þá að fara að starfa með björgunarsveitum. Af því varð minna en efni stóðu til en manninn minn hef ég haldið tryggð við. Árið 1997 eignuðumst við dóttur og tíu árum síðar son. Það var á áætluninni að eignast þriðja barnið árið 2017 – en þá var ég bara lasin svo við tókum þennan hund, hann Storm,“ segir Valborg glettin á svip og bætir við að í Grafarholti hafi fjölskyldan búið í sautján ár.
Varðandi frekari atvinnuþátttöku bætir Valborg við að hún sé löggiltur fasteignasali frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
„Ég starfaði á nokkrum fasteignasölum. „Korteri fyrir hrun“ stofnaði ég svo mína eigin fasteignasölu. Það var ekki góð tímasetning en ég slapp við gjaldþrot reynslunni ríkari,“ segir hún og stendur upp.
Stormur er orðinn óánægður í búrinu og lætur það berlega í ljós. Valborg leyfir honum að sleppa út og hann sýnir þá tillitssemi að leggjast spakur í sófann. Viðtalið getur því óhindrað haldið áfram. Ég spyr Valborgu hvað hafi reyndist henni best í þjónustunni hjá VIRK?
„VIRK hjálpaði mér algjörlega að ná mér á strik. Ég fékk þar einskonar nýja skólagöngu. Hvert og eitt úrræðið sem mér var boðið nýttist mér á leið minni til bata. Ég ákvað í upphafi að ef ég fengi inni í þjónustu hjá VIRK þá myndi ég taka þeim leiðbeiningum og úrræðum sem mér byðust. Ég fór því í VIRK með opnum huga. Ég var síðan í fullri vinnu við að fara eftir fyrirmælum og áætlunum sem ég og ráðgjafarnir mótuðum saman,“ segir hún.
Hvernig gekk þetta hjá þér fjárhagslega?
„Ég átti í upphafi einhvern veikindarétt en svo var ég svo lánsöm að fá endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun. Mér finnst ég ótrúlega heppin að fá að vera í heil tvö ár í þjónustu hjá VIRK. Ég hefði í raun ekki getað sleppt neinu af því sem mér bauðst þar. Mér hættir til að fara of geyst í sakirnar en það var haldið vel utan um mig og séð um að ég færi ekki fram úr mér,“ segir Valborg.
„Ég kynntist líka frábæru fólki, bæði meðferðaraðilum og líka fólki sem var með mér á námskeiðum – konum og körlum sem voru heilsufarslega á sama stað og ég. Í þessu ferli gaf ég mér tíma til að taka áttir og mér skildist að ég gæti sennilega ekki unnið eins og ég hafði áður gert. Af þessum hugsunum varð ég örvæntingarfull. Hugsaði: „Hver myndi svo sem vilja ráða mig í vinnu úr því ég get ekki unnið fullt starf?“ Ég sem áður hafði verið sjálf að ráða fólk til starfa á frístundaheimilinu.
Andleg heilsa mín var á þessum tíma orðin frekar slöpp, mér fannst að ef ég gæti ekki unnið hundrað prósent vinnu þá væri ég í raun og veru einskis nýt. Það er ekki góður staður að vera á. En ég hef verið svo ótrúlega heppin að hitta á rétt fólk á réttum tíma til að hjálpa mér eftir að ég hef „rekist á veggi“, sem ég hef nokkrum sinnum gert á lífsleiðinni.“
Lenti á nokkrum „veggjum“ í bataferlinu
Hvenær fórstu að hugsa til þess að snúa til baka á vinnumarkaðinn?
„Ég fékk tækifæri til þess að fara á námskeið til þess að gera ferilskrá og undirbúa mig undir að sækja um vinnu. Ég hafði gert ferilskrá áður en þetta var miklu skilvirkara. Það var líka lærdómsríkt að sjá að það var fullt af öðru fólki í svipuðum sporum og ég var sjálf á þessum tíma. Ég þurfti dálítið að takast á við eigin fordóma í gegnum þetta ferli og það var mjög gott.
Svo kom þar sögu að ég fór í vinnuaðlögun í skóla hér í Grafarholti, þar sem ég þekki til. Þar fékk ég það mat að ég ætti helst ekki að fara í hærra starfshlutfall en fjörutíu prósent. Mér fannst þetta í fyrstu algjörlega út í hött. Ágætt fyrir aðra en alls ekki fyrir mig. – Þetta mat varð mér erfitt og ég þráaðist við. Starfið á frístundaheimilinu beið mín – en þegar til átti að taka þá treysti ég mér ekki til að snúa til baka. Fann að það yrði mér ofraun að fara í næstum hundrað og fimmtíu prósent vinnu. Um tíma leið mér því eins og ég væri dálítill „lúser“.
Í endurhæfingarferlinu, af því ég var ekki að „gera neitt“ nema sinna heilsunni, þá skráði ég mig í háskólanám. Ég hafði áður haft lítinn áhuga á kennslustörfum en sneri við blaðinu og hugðist verða kennari. Þetta var satt að segja eina áætlunin sem ég gerði í samráði við ráðgjafa VIRK sem ekki gekk upp. Hundrað prósent háskólanám reyndist mér ofviða – ég lenti „á vegg“. Reyndar lenti ég á nokkrum veggjum í endurhæfingunni en tókst að jafna mig á því.
Vegna þeirrar reynslu þá hugsa ég að það henti ágætlega að fá leiðbeiningar í markþjálfun þegar fólk er komið talsvert á veg í bataferlinu. Ég fór of fljótt í slíkt og farin að gera mér væntingar um að ljúka jafnvel háskólanámi meðfram endurhæfingu. Það reyndist langt því frá raunhæft markmið. Núna hef ég ákveðið að taka mér hlé frá þessu námi, ég er ekki búin með fyrstu þrjú árin og er ekki viss um að ég ljúki við þau. Mig langar í þessa menntun en ég er ekki viss um að ég geti eða vilji vinna í hundrað prósent starfi sem kennari. Sú spurningin sækir því á mig hvort það sé þess virði að halda þessu námi til streitu – ég held varla.“
„Ég er með í „verkfærakistunni“ ótrúlega mörg verkfæri sem ég fékk í hendur í starfsendurhæfingunni hjá VIRK. Ég er um þessar mundir að endurraða í þeirri kistu og gengur það bara vel. Þjónustan hjá VIRK bjargaði mér ekki aðeins heilsufarslega heldur fékk mig til að endurskoða margt.“
Finnst ég hafa fengið annað tækifæri
Hvenær laukstu þjónustu hjá VIRK?
„Ég lauk þjónustunni skömmu áður en Covid 19 faraldurinn hófst hér. Fyrir röskum tveimur árum var mér boðið starf sem stuðningsfulltrúi í skólanum þar sem ég hafði verið í vinnuaðlögun og tók því boði. Það starf hefur verið mér ánægjuleg reynsla. Ég hef líka tekið að mér forfallakennslu í stöku tilvika. Ég er í fjörutíu prósent vinnuhlutfalli og það gengur ágætlega upp.
Ég er með í „verkfærakistunni“ ótrúlega mörg verkfæri sem ég fékk í hendur í starfsendurhæfingunni hjá VIRK. Ég er um þessar mundir að endurraða í þeirri kistu og gengur það bara vel. Þjónustan hjá VIRK bjargaði mér ekki aðeins heilsufarslega heldur fékk mig til að endurskoða margt. Ég áttaði mig á að hvatvísi mín og tilhneiging til að fara fram úr sjálfri mér gæti hugsanlega stafað af því að ég væri með ADHD. Eftir að endurhæfingunni lauk gekk ég í að fá greiningu varðandi slíkt. Niðurstaðan er að ég er með ADHD og sú vissa hjálpar mér að takast á við lífið og áskoranir þess á markvissari hátt en áður.
Í það heila er þjónusta VIRK eitthvað það besta sem hefur hent mig. Mér finnst ég hafa fengið annað tækifæri. Ég þurfti að endurræsa kerfið. Sú aðgerð hefur á margan hátt bjargað mér og minni fjölskyldu. Ég veit ekki hvort ég var svona einstaklega heppin með samskipti við fólk á þessari vegferð eða hvort ég hef bara verið með sólgleraugu allan tímann – en það var ekkert sem mér stóð til boða hjá VIRK sem ekki var við hæfi.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason