Björn Kristján Arnarson
Lífið hefur tilhneigingu til að taka ótal beygjur og fátt stendur í stað í tilveru fólks. Í samræmi við þessa staðreynd er ekki undarlegt þótt ýmislegt hafi breyst í lífi Björns Kristjáns Arnarsonar frá því hann sagði sögu sína í bókinni Þegar karlar stranda - og leiðin í land eftir Sirrý Arnardóttur. Sú bók kom út árið 2020.
„Aðstæður hafa breyst töluvert eftir það viðtal, þó ekki sé langt síðan það var tekið. Ég missti vinnuna og einnig fór ég í gegnum ADHD greiningarferli síðasta vetur og fékk staðfestingu á þeirri greiningu - nú hef ég í verkfærakistu minni tæki og tól til að takast á við þær breyttu aðstæður sem þetta skapar,“ segir Björn Kristján þegar við heimsækjum hann í parhús sem hann og kona hans hafa reist af stórhug á fallegum útsýnisstað í Kópavogi.
„Mér sjálfum hefði aldrei dottið til hugar að athuga hvort ég væri með ADHD. Frásögn vinnufélaga míns af hans ferli og hvernig hann lýsti því hvernig ADHD hefur áhrif á hans líf, hljómaði mjög kunnulega. Ég kannaðist nánast við öll einkennin sem hann taldi upp og ég fann að þetta væri eitthvað sem ég yrði að skoða nánar. Eftir þetta samtal fann ég stuttan spurningalista á netinu um ADHD og niðurstaðan var mjög afgerandi! Þannig að ég kom mér í samband við sálfræðing sem hjálpaði mér með þetta ferli og fyrir rétt rúmlega ári var greiningin staðfest."
Hefur þetta breytt einhverju í þínu lífi?
„Ég er farinn að skilja sjálfan mig aðeins betur. Ég fékk ávísað kvíða- og þunglyndislyfjum um sama leyti og ég fékk þjónustu hjá VIRK. Ég tók lyfin en mér fannst ég ekki vera þunglyndur, það var ekki mín tilfinning. Ég er með töluverða ofvirkni og nokkurn athuglisbrest og fólk sem slík einkenni hefur þarf alltaf að vera að. En ég er sífellt að læra á sjálfan mig. Við hjónin erum til dæmis á hugleiðslunámskeiði. Ég er að læra hvernig ég að fara að því að róa sjálfan mig niður, slaka á og kyrra hugann.
Óneitanlega eru töluverðar breytingar fyrirsjáanlegar í lífi mínu núna. Þegar ég hugsa til þess fer hugurinn af stað og ég tek að velta fyrir mér hvaða leið ég eigi að fara. Ég stend á ákveðnum tímamótum vegna vinnumissis og þessara nýju greininga – hugleiðslan er því mikilvæg fyrir mig núna.“
„Einn sendi mér póst og sagði að saga mín hefði opnað augu hans fyrir sinni stöðu og í framhaldinu hefði hann náð að koma sér í var. Annar vildi fá að vita hvernig ég bar mig að við að komast í þjónustu VIRK og lét mig vita þegar það gekk upp hjá honum. Fleira mætti nefna. Það var ánægjulegt að finna að reynslusaga mín skyldi hjálpa öðrum. Karlar eiga oft erfitt með að segja frá vanlíðan sinni.“
Gott ef reynsla mín hjálpar öðrum
Hvernig brást fólk í umhverfinu við frásögn þinni af kulnun í bókinni Þegar karlar stranda?
„Þeir sem fréttu af þessari reynslu minni eða lásu viðtalið við mig í bókinni tóku þessu vel. Sumir höfðu jafnvel samband við mig til þess láta mig vita að lesturinn hefði hjálpað þeim. Einn sendi mér póst og sagði að saga mín hefði opnað augu hans fyrir sinni stöðu og í framhaldinu hefði hann náð að koma sér í var. Annar vildi fá að vita hvernig ég bar mig að við að komast í þjónustu VIRK og lét mig vita þegar það gekk upp hjá honum. Fleira mætti nefna. Það var ánægjulegt að finna að reynslusaga mín skyldi hjálpa öðrum. Karlar eiga oft erfitt með að segja frá vanlíðan sinni,“ segir Björn Kristján.
Hann kveðst alinn upp af einstæðri móður og eiga þrjár eldri systur.
„Ég á góða að og það hefur reynst mér mikilvægt. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hve illa ég var staddur áður en ég fór á sínum tíma í þjónustu hjá VIRK. Konan mín sá hins vegar ákveðin hættumerki og fékk mig til að fara til læknis. Sumir reka sig það harkalega á vegg, eins og sagt er, að þeir ná ekki færni sinni til baka. Ég var heppinn að sleppa við það. Ég hef alltaf reynt að hjálpa mér sjálfur og lengi vel tókst mér það. En þegar kulnunin tók völdin þá gat ég ekki lengur hjálpað mér sjálfur. Ég hef löngum hreyft mig mikið, ekki síst úti við í náttúrunni. Farið í göngutúra og klifið fjöll. En það dugði sem sé ekki lengur.“
Hefur þú getað talað þig frá vanlíðan?
„Nei, það úrræði átti ég ekki í minni andlegu verkfærakistu. En ég á hins vegar mjög góða fjölskyldu, konu og börn og svo móður, systur, mága og frændfólk. Þetta fólk hefur verið mikilvægt í bataferlinu eftir kulnunina. Mamma er mjög sterk kona og góð fyrirmynd.“
Var faðir þinn náinn þér í uppeldinu?
„Nei, ekki get ég sagt það. Ég hitti hann helst við hátíðleg tækifæri. Ég veit svo sem ekki hvaða áhrif það hefur á dreng að alast upp án þeirrar fyrirmyndar sem faðir er. Ég velti þessu meira fyrir mér núna en áður fyrr. Þegar von var á dóttur minni fyrir tuttugu árum fannst mér ég hafa lítið við að styðjast í því nýja hlutverki sem beið mín. Ég ákvað loks að verða bara eins góður faðir og ég gæti. Þegar sonur minn fæddist þá fann ég fyrir svipaðri en jafnvel sterkari tilfinningu – gat ég orðið syni gagnlegur faðir þegar ég hafði varla neina fyrirmynd í slíku hlutverki? Að hafa föðurfyrirmynd hefur sína kosti og galla. En ég tók þá afstöðu að ég væri að byrja með autt blað og ákvað að nýta mér það á besta mögulegan máta. Þegar til kom hefur þetta gengið vel. Ég hef lagt mig fram og tel ástæðurnar fyrir kulnun ekki eiga rót í þeim tilfinningamálum; en hvað veit maður?“
Ekki vera ástfanginn af steypu
Hefur þú hugmynd um hvað olli því að þú varðst svona illa staddur?
„Við hjónin ákváðum að byggja hús, þetta parhús sem við sitjum nú í. Við sáum fyrir okkar að þetta yrði okkar fjölskylduhús þar sem börnin okkar gætu lifað sín góðu æskuár og snúið til síðar á fullorðinsárum. Við vorum ákveðin í að gera þennan draum að veruleika. Í hruninu 2008 reyndist erfitt fyrir suma húsbyggjendur að fóta sig efnahagslega og við hjónin sóttum um greiðsluaðlögun. Ég missti vinnu árið 2010 og allir kröfuhafar samþykktu greiðsluhlé nema Arionbanki. Hann reyndist okkur þungur í skauti. Þá þurfti ég virkilega að fara að berjast. Þetta skapaði mikið álag og stress. Samningar við Arionbanka náðust ekki fyrr en vorið 2018. Við hjónin vorum með lán í erlendri mynt og það var meira en að segja það að standa skil á slíku láni eftir hrunið. Við vildum endilega halda húsinu og tókst það. En vissulega kostaði það blóð, svita og tár. Stundum varð mér samt hugsað til orða lögfræðings sem sagði við mig eitt sinn: „Ekki vera ástfanginn af steypu.“ – En ég var ekki tilbúinn til að láta húsið mitt. Hreint ekki.“
Fékkst vinnu sem þú varst ánægður með eftir vinnumissinn 2010?
„Já, ég fór að vinna hjá Advania við söluráðgjöf og gekk þar fram af miklum krafti. Ég var alltaf tilbúinn til þess að gera mitt besta. Á sama tíma var ég að reyna að greiða úr skuldmálunum. Konan mín missti ekki sína vinnu sem betur fer. Allt gekk þetta upp að lokum. Við gátum staðið við okkar skuldbindingar og okkur miðaði hægt en örugglega við að ljúka við húsið okkar. Eins og sjá má er búið að koma hér mörgu í verk þótt allnokkur handtök séu engu að síður eftir.“
Björn Kristján sýnir mér myndband af húsinu nýmúruðu og síðar nýmáluðu. Hann bendir mér á nýtt gólfparkett og falleg led-ljós í lofti.
„Allt var þetta mikið verk,“ segir hann.
„VIRK gerði mjög mikið fyrir mig og þjónustan sem ég fékk þar kom mér á þann stað að ég gat hjálpað sjálfum mér til betri heilsu. Og nú þegar ég stend andspænis þeirri áskorun að finna nýja vinnu eða mögulega taka aðra stefnu í lífinu þá bý ég að þeirri reynslu sem VIRK veitti mér.“
Hætti að finna tilfinningar
En hvernig lýsti kulnunin sér?
„Ég hreinlega hætti að finna tilfinningar. Var hvorki glaður né reiður, fann í raun ekkert. Við það varð ég dauðhræddur. Ég var sannarlega með góða grímu, eins og þar segir, en smám saman fóru að myndast rifur í henni. Ég lagði mig fram um að vera hress og hugmikill í vinnunni og láta ekki á mér sjá að sífellt þrengdi að mér þótt ég vissulega væri ekki nógu meðvitaður um hvert stefndi. Advania reyndist mér góður vinnustaður og þegar ég þurfti að taka frí vegna þess að ég fór í þjónustu hjá VIRK vorið 2017 þá var það meira en sjálfsagt. Þeir vildu bara fá „Bjössa til baka.“ Líka var ekkert mál að leyfa mér að koma í hlutastarf, fyrst í þrjátíu prósent vinnu eftir fjóra mánuði. Síðar jók ég starfshlutfallið þar til ég var kominn í fullt starf níu mánuðum síðar.
Alls var ég í þjónustu hjá VIRK í þrettán mánuði. Þótt ég hafi misst starf mitt hjá Advania fyrir hálfu ári vegna hagræðingar innan fyrirtækisins þá er ég þakklátur fyrirtækinu fyrir hve vel það stóð við bakið á mér meðan ég var að ná heilsu á ný eftir kulnunarástandið. Það hjálpaði mikið þá að finna að ég ætti ekki á hættu að missa vinnuna. Nóg var samt. Maður reyndi að standa sig hundrað prósent alls staðar og það varð mér að lokum ofraun. Ég var farinn að finna að ég væri nánast ekki á svæðinu, ég vissi til dæmis ekki hvernig ég ætti að bregðast við aðstæðum í vinnunni, svo sem að mæta á fundi, halda kynningar eða standa að samningum. Jafnframt voru allir erfiðleikarnir samfara skuldamálunum og því að standa sig í stykkinu gagnvart fjölskyldu og ættingjum.“
Svefn er mikilvægur
Hvaða úrræði VIRK reyndust þér best þegar þannig var komið?
„Núvitundarnámskeið reyndist mér afskaplega vel. Fékk mig til að staldra við, ná sambandi við sjálfan mig og róa allar hugsanir aðeins. Ég fékk sálfræðimeðferð en hún gagnaðist mér ekki sérlega. Hreyfingin var mikill hluti af endurhæfingu minni. En eitt var það sem hrjáði mig og gerir raunar enn. Ég þjáist af kæfisvefni sem sennilega hefur komið til af álagi og streitu. Ég fór í svefnrannsókn og reyndist með öndunarstopp þriðju hverja mínútu, sum ansi löng - það lengsta stóð yfir í 110 sekúndur og púlsinn var kominn niður í 38 slög!
Eftir þetta fékk ég súrefnisvél til að sofa með – en sú vél og ég höfum því miður aldrei náð saman – við erum ekki vinir. Ég er ekki dæmigerður fyrir þá sem fá kæfisvefn, ég reyki ekki, drekk ekki, hreyfi mig mikið og er mjög vel á mig kominn líkamlega. En samt er þetta svona. Svefn er gríðarlega mikilvægur fyrir andlega og líkamlega heilsu. Ég hvet alla að huga vel að svefngæðum. Þess má geta að nú er ég á biðlista eftir að komast í dýpri og nákvæmari svefnrannsókn.
VIRK gerði mjög mikið fyrir mig og þjónustan sem ég fékk þar kom mér á þann stað að ég gat hjálpað sjálfum mér til betri heilsu. Og nú þegar ég stend andspænis þeirri áskorun að finna nýja vinnu eða mögulega taka aðra stefnu í lífinu þá bý ég að þeirri reynslu sem VIRK veitti mér. Ég trúi því að verkfærakistan sem ég fékk í hendurnar hjá VIRK muni skila mér enn á ný á góðan stað á vinnumarkaði. Meðan ég bíð eftir að það gerist geng ég á fjöll til að halda andlegum og líkamlegum styrk. Eftir að ég missti vinnuna hjá Advania hef ég gengið hundrað sinnum á Esjuna og núna hef ég ákveðið að ganga á Esjuna að minnsta kosti einu sinni í viku. Þetta með öðru er mitt verkfæri til að takast á við þá áskorun að móta stefnuna til framtíðar.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason