Guðrún
„VIRK Starfsendurhæfingarsjóður er frábært framtak stéttarfélaganna. Ráðgjafarnir eru alltaf reiðubúnir að leita lausna og hafa hjálpað mér að hjálpa mér sjálf. Ég rataði ekki ein út úr því völundarhúsi sem ég var í. Ef ég hefði ekki fengið þessa aðstoð hefði ég líklega neyðst til að draga verulega úr vinnu og þurft að treysta á verkjalyf til að þrauka af dagana. Ég er sannfærð um að þessi aðstoð heldur mér í vinnu um ókomin ár.“
Guðrún var í fullu starfi, en snemma árs 2009 rak hún sig enn einu sinni á hversu erfitt var að kljást við bakverkina, sem höfðu fylgt henni í 20 ár, eða frá því að hún var 25 ára. Hún fékk brjósklos æ ofan í æ og af því leiddu alls konar aukakvillar. „Ég var alltaf hjá sjúkraþjálfara og fékk hluta kostnaðar endurgreiddan hjá stéttarfélaginu mínu. Í átta ár starfaði ég á rannsóknarstofu, en mér reyndist of erfitt að standa allan daginn og gafst upp. En í nýja starfinu sat ég allan daginn og ekki var það betra fyrir bakið. Ég sneri því aftur á gamla vinnustaðinn, sem bauð mér vinnu þar sem ég er meira á ferðinni, ég hvorki stend né sit allan daginn.“
Skilningur hjálpaði mikið
Guðrún var ánægð með umbreytinguna, en þegar álagið jókst í starfinu fyrri hluta árs 2009 fann hún að allt leitaði í sama farið. Hún fór á sjúkrahúsið í Stykkishólmi þar sem Jósef Blöndal læknir tók vel á móti henni. „Ég upplifði mig í raun hrausta, en veiki hlekkurinn var þessi hryggjarliður, sem alltaf var til ama. Jósef sagðist ekki geta veitt mér neina töfralausn, en hann gæti sýnt mér hvað ég gæti sjálf gert. Hann var fyrsti maðurinn sem ég hitti sem gerði sér algjörlega grein fyrir hversu mikil áhrif langvarandi bakveiki getur haft fyrir fólk. Sá skilningur hans hjálpaði mér mikið.“
Þegar dvölinni í Stykkishólmi lauk var ljóst að Guðrún þurfti hjálp, ef henni ætti að takast að sinna starfi sínu áfram. „Þá frétti ég af VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. Ég var ákveðin í að reyna að rjúfa þennan hring sem ég var í, þar sem ég gekk fram af mér með vinnu með reglulegu millibili og var svo jafnvel rúmföst dögum saman vegna verkja. Eitt árið var ég svo slæm að ég var nánast búin að lesa allar bækurnar, sem taldar voru upp í Bókatíðindum, því ég lá alltaf fyrir og las. Það telst kannski eini kosturinn við bakverkina; ég hef lesið margar, góðar bækur!“
„Einu sinni heyrði ég gamla konu segja, að fyrst mér væri sendur þessi heilsubrestur væri mér ætlað að ráða við hann. Og það ég ætla mér að gera – með ráðgjöf og aðstoð.“
Margar lausnir til
Soffía ráðgjafi hjá Eflingu tók á móti Guðrúnu þegar hún leitaði til VIRK. „Hún hefur leitað allra leiða til að hjálpa mér. Hún sendi iðjuþjálfa til mín í vinnuna, til að meta hvort ég gæti borið mig betur að við störfin og þannig reynt minna á bakið. Hann stillti meðal annars skjáinn á tölvunni og benti mér á að sitja aldrei lengur í einu en 40-60 mínútur. Iðjuþjálfinn kom líka heim til mín og gaf margar gagnlegar ábendingar, fór yfir staðsetningu á heimilistækjum og bannaði mér að fara út í búð nema með sérstakan aðstoðarmann til að bera alla pokana. Hann bannaði mér líka að stunda heimilisstörf lengur en í 40 mínútur á dag, en ég hef átt dálítið erfitt með að fylgja þeirri stífu reglu. Mér hefur þó tekist að ná þeim tíma niður í 40-60 mínútur þegar mikið liggur við. Svo fór ég til endurhæfingarlæknis og sjúkraþjálfara, allt saman að ráði Soffíu. Ég fékk ákveðnar ábendingar frá þeim, en annars studdist ég að mestu áfram við ráðleggingar Jósefs. En Soffía hefur líka bent mér á ýmislegt, sem getur létt mér lífið. Iðjuþjálfarar selja til dæmis ýmis verkfæri, sem létta heimilisstörfin og grindur fyrir blöð og tölvur og fleira í þeim dúr. Það eru svo margar lausnir til, en þá verður fólk líka að vita af þeim.“
Guðrún hefur einnig stundað sérstaka bakleikfimi hjá Hörpu Helgadóttur sjúkraþjálfara. „Þessi bakleikfimi, sem kallast Breiðu bökin, skiptir miklu máli. Soffía ráðgjafi hefur sótt um styrki fyrir mig, svo ég geti nýtt mér þessi úrræði, því þau kosta auðvitað sitt.“
Frábært framtak
Hún segist óttast um geðheilsu sína, ef hún neyddist til að hætta að vinna. „Mér finnst mjög mikilvægt að geta stundað vinnu. Með þeirri aðstoð, sem ég fæ hjá VIRK, get ég haldið starfinu mínu. Mér kom á óvart að þetta úrræði væri til. Sjóðurinn er frábært framtak og þótt starfið kosti áreiðanlega eitthvað hlýtur sá kostnaður að vera svo miklu minni en sá sem hlýst af því að missa fólk út af vinnumarkaðnum. Sumt af því, sem VIRK hefur gert fyrir mig, er kannski smátt út af fyrir sig, en þegar allt er lagt saman er ljóst að stuðningurinn hefur skipt sköpum. Ég hef tekið miklum framförum og núna veit ég hvar mörkin liggja og að ég verð að virða þau. Ég hef jafnvel getað verið án verkjalyfja dögum saman, sem hafði ekki gerst um árabil. Pillurnar slökkva bara á sársaukanum, en laga ekkert. Nú er kominn tími til að reyna að laga.“
Guðrún á sér það takmark að bakverkirnir hverfi alveg. „Ég veit að það takmark er enn langt í burtu, en ég ætla mér að komast þangað. Sá skilningur, sem ég hef mætt, hefur aukið mér sjálfstraust og styrk. Ég fann oft fyrir því áður fyrr að fólk áleit bakverki ekki „raunverulegt“ heilsufarsvandamál og þá brást ég gjarnan við með því að ætla mér um of. Til allrar hamingju sýnir vinnuveitandi minn mér hins vegar mikinn skilning.
Einu sinni heyrði ég gamla konu segja, að fyrst mér væri sendur þessi heilsubrestur væri mér ætlað að ráða við hann. Og það ég ætla mér að gera – með ráðgjöf og aðstoð.