Erna Björk Jóhannesdóttir
„Áður fyrr, þegar ég fann fyrir depurð, þá leitaði ég alltaf skammtímalausna. Ég reyndi að sannfæra mig um að þetta myndi líða hjá með hækkandi sól, eða bara ef ég færi og keypti mér eina nýja flík. Svo fann ég að ég gat ekki lengur setið uppi með þetta vonleysi og sagði Soffíu ráðgjafa hjá Eflingu að ég vildi leita varanlegri lausna. Hún tryggði mér verkfærin til að takast á við vanlíðanina, en ég ber sjálf ábyrð á að nýta mér þau.“
Erna Björk Jóhannesdóttir er ung kona, eiginkona og móðir fjögurra ára drengs. Hún er með MS-sjúkdóminn og þótt ókunnugir sjái engin veikindamerki á henni hefur sjúkdómurinn eðlilega sett mark sitt á hana. Í byrjun síðasta árs missti eiginmaður hennar vinnuna og í júlí veiktist hann og varð að fara á sjúkrahús. „Ég beit bara á jaxlinn og reyndi að sannfæra mig um að ég réði við að hugsa um sjálfa mig og strákinn okkar. Auðvitað hefði ég átt að taka veikindaleyfi strax, því þetta var mér allt um megn. MS-sjúkdómurinn skipti þar ekki mestu máli, heldur andleg líðan mín. Fólk spurði mig stundum hvernig ég hefði það og ég sagðist alltaf hafa það stórfínt. Ef fólk neitaði að taka það svart gilt og spurði mig nánar átti ég til að fara að hágráta. Svo kom auðvitað að því að allt hrundi og ég fann að ég komst ekki lengra.“
Treysti Soffíu fyrir öllu
Erna Björk vann við móttöku á skrifstofu og leitaði til Soffíu Erlu Einarsdóttur, ráðgjafa hjá Eflingu. „Í fyrstu hélt ég að það yrði erfitt að segja henni alla sólarsöguna, en hún hefur þann eiginleika að maður treystir henni fyrir öllum sínum hjartans málum. Ég opnaði mig algjörlega fyrir henni. Hún benti mér á Kvíðameðferðarstöðina í Skútuvogi.“
Erna Björk fór í veikindaleyfi og sótti 8 vikna námskeið í Kvíðameðferðarstöðinni. „Tvisvar í viku settist ég niður með sálfræðingunum þar og fór yfir líðan mína. Ég var haldin ýmsum ranghugmyndum um sjálfa mig. Ég kveið því að mæta í vinnu, því mér fannst ég ekki standa mig nógu vel. Þegar gerð var athugasemd vegna smávægilegra mistaka sem ég gerði tók ég því allt of þunglega og missti móðinn. Á námskeiðinu lærði ég að taka gagnrýni á uppbyggilegan hátt. Ég gerði mér grein fyrir að ég er ekki skyggn og engin spákona, þótt ég væri sífellt að ímynda mér hvað annað fólk væri að hugsa um mig. Sjálfsmynd mín var svo veik að ég var alltaf sannfærð um að fólki þætti ég vitlaus og vanhæf. Ef ég var að tala og einhver greip fram í fyrir mér var ég viss um að það væri vegna þess að ég hefði ekkert áhugavert að segja. Þessi líðan var auðvitað óþolandi og litaði allt mitt líf. Núna hef ég náð að kasta þessum ranghugmyndum burt.“
„Ég er ekkert frábrugðin öðru fólki; ég þarf að eiga í mannlegum samskiptum til að mér líði vel. Það er mér mjög mikilvægt að geta verið í starfi, ég vil vera virk í samfélaginu."
Sterkari sjálfsmynd
Þegar námskeiðinu hjá Kvíðameðferðarstöðinni lauk leitaði Erna Björk til Lifandi ráðgjafar í Skipholti. „Ég sótti þar tíma í desember, sem beindust fyrst og fremst að því að styrkja sjálfsmyndina. Mér líður miklu betur núna. Maðurinn minn hefur líka náð ágætum bata og er nú að leita að nýju starfi.“
Erna Björk er sjálf farin að vinna aftur. Hún er núna í 65% starfi á bókasafni Dagsbrúnar í JL-húsinu við Hringbraut. „Hér er ég innan um bækur um verkalýðsbaráttuna fyrr og nú og uni mér ágætlega. Ég finn líka einn og einn reyfara í hillunum og les þá þegar ég tek pásur. Mig langar hins vegar til að starfa meira með fólki. Móttökustarfið var mjög skemmtilegt, því þar hitti ég fjölda fólks á hverjum degi. Ég nýt þess að velta fyrir mér hvernig ég eigi að aðstoða fólk og tryggja að það fari ánægðara út en það kom. Mannleg samskipti eru helsti styrkleiki minn.“
Hún á ekkert erfitt með að lýsa líðan sinni og segir vanda sinn ekkert feimnismál. „Ég sagði fólki af þeirri aðstoð sem ég fékk. Margir þekktu ekkert til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og fannst frábært að þessi úrræði væru í boði. Það kom vinum og ættingjum ekkert á óvart að ég færi á þessi námskeið. Ég hafi svo lengi verið neikvæð og það var stutt í tárin.“
Nauðsynlegt úrræði
Hún segir nauðsynlegt að hafa úrræði á borð við VIRK, sem styður við þá sem lenda í tímabundnum erfiðleikum. „Ég hef upplifað að vera eitt ár á örorkubótum. Þá einangraðist ég mjög mikið og mér fannst ömurlegt að heyra vart í öðru fólki dögum saman. Ég hef stundum grínast með að ég hélt konunum hjá 118 uppi á snakki þegar ég hringdi þangað, því mér leiddist svo mikið heima! Ég er ekkert frábrugðin öðru fólki; ég þarf að eiga í mannlegum samskiptum til að mér líði vel. Það er mér mjög mikilvægt að geta verið í starfi, ég vil vera virk í samfélaginu. Ef ég hefði ekki fengið þessa aðstoð hjá Soffíu og VIRK er hætt við að ég hefði einangrast heima í veikindaleyfi, niðurbrotin manneskja.“
Hún segir suma ef til vill veigra sér við að leita sér aðstoðar, af ótta við að ekki ríki trúnaður um slík mál. „Slíkt er ekkert áhyggjumál hjá VIRK. Ég fann að þar ríkti alltaf fullur trúnaður. Og svo þurfti ég ekki einu sinni að borga fyrir þessi námskeið sem stóðu mér til boða.“
Gleði, ekki vonleysi
Erna Björk lítur björtum augum til framtíðar. „Ég leita í gleðina, ekki vonleysið. Ég fór á námskeið í salsa-dansi og það var frábært. Áður fyrr hefði ég ekki treyst mér á slíkt námskeið. Ég hefði sannfært mig um að allir aðrir væru miklu betri en ég og myndu bara hlæja að mér. En núna hlæ ég sjálf ef ég tek feilspor. Þau skipta engu máli, ég skemmti mér konunglega á eigin forsendum.