Ásmundur Þórir Ólafsson vörubílstjóri og bassaleikari
Ásmundur Þórir Ólafsson, fyrrverandi stýrimaður og skipstjóri og núverandi vörubílstjóri og bassaleikari í hljómsveitinn Síðasti sjens, lauk samstarfi við VIRK fyrir nærri tveimur árum.
„Ég fór að vinna aftur 2014 í júní,“ segir Ásmundur Þórir. „Þá hafði ég verið frá vinnu í tvö og átti að baki samstarf við VIRK.“
Hvaða úrræði í því samstarfi reyndust þér best?
„Það var að taka meirapróf og gerast atvinnubílstjóri. Ég hafði áður verið langt kominn með rafvirkjanám en lauk því ekki. Sem ungur maður tók ég próf úr Stýrimannaskólanum, útskrifaðist nítján ára. Seinna fór ég á heimshornaflakk og var tiltölulega nýlega kominn úr því þegar ég fór að læra rafvirkjun í kvöldskóla með vinnu. En svo lenti ég í heimilisslysi, var á leiðinni niður í kjallara með fullt af þvotti þegar ég datt og eyðilagði næstum á mér hægri öxlina. Ég bar fyrir mig hægri höndina og lenti illa. Ég get eftir þetta slys ekki unnið upp fyrir mig. Níutíu prósent af rafvirkjavinnu er unnin upp fyrir sig þannig að sjálfhætt var við rafvirkjanámið.“
Hvernig komstu í samstarf við VIRK?
„Það var hringt í mig einn daginn frá VIRK, ég var gapandi hissa, ég vissi ekki einu sinni hvað VIRK var, ráðgjafinn sem hringdi útskýrði það fyrir mér. Þessi ráðgjafi starfar fyrir Rafiðnaðarsambandið hjá VIRK, hann kynnti sig sem og spurði hvort ég hefði áhuga á samstarfi. Ég veit ekki hver lét vita af mér hjá VIRK en ég var spurður hvort ég vildi koma á fund með ráðgjafanum og athuga hvort eitthvað væri hægt að gera fyrir mig. Ég fór á fundinn og þetta samstarf endaði sem sagt með því að ég tók meirapróf sem fyrr sagði.“
„Ég er í hljómsveit og spila á bassa. Hljómsveitin heitir Síðasti sjens og spilar á tónleikum og fyrir dansi hér fyrir austan og hvar sem er - ef því er að skipta. Ég hafði satt að segja mestar áhyggjur af því að geta ekki spilað framar. Mér finnst að ég hafi sloppið ótrúlega vel miðað við það sem bæklunarlæknirinn sagði mér að hann hefði þurft að gera í aðgerðinni.“
Ekki mörg störf sem komu til greina
Á hverju var byrjað í samstarfinu við VIRK?
„Mér voru kynntar hugmyndir að störfum sem ég skoðaði í samstarfi við ráðgjafann og við beittum útilokunaraðferðinni. Smám saman voru öll þau störf útilokuð sem ég taldi mig ekki geta unnið. Raunar voru ekki mörg störf sem komu til greina og ég hafði áhuga á önnur en bílstjórastarfið. Ég hafði verið megnið af starfsævinni á sjó sem stýrimaður og skipstjóri og var ekki tilbúinn til að fara að vinna á kassa í verslun eða afgreiða bensín.“
Fórstu að stunda heilsusrækt?
„Nei, ég var mest hjá sjúkraþjálfara á Selfossi. Ég bý á Eyrarbakka þannig að það var styst fyrir mig að sækja sjúkraþjálfun á Selfoss. Það leið nokkuð langur tími frá því að ég varð fyrir slysinu þangað til ég komst undir læknishendi að gagni. Ég fór að vísu til læknis strax eftir fallið en sá læknir klappaði mér bara á heilu öxlina og sagði að ég yrði orðinn góður eftir fjóra daga, þetta væri tognun og ég skyldi hvíla mig þessa daga. Dagarnir fjórir urðu að tveimur árum frá vinnu.
Ég þráaðist við að vinna í nokkrar vikur eftir fjögra daga hvíldina en var svo orðinn mjög slæmur að ég fór aftur til læknis. Sá læknir vísaði mér til bæklunarlæknis. Fimm dögum eftir að ég fór til bæklunarlæknisins var ég kominn undir hnífinn hjá honum. Hann hafði strax að lokinni skoðun sagt mér að áverkinn sem ég hafði orðið fyrir væri alvarlegur, einn vöðvi var slitinn, annar nærri slitinn og ein sin slitnaði líka. Nokkru eftir aðgerðina var svo hringt í mig frá VIRK og mér boðið samstarf sem fyrr sagði.“
Fékkstu endurhæfingarlífeyri?
„Já ég sótti um allt mögulegt með aðstoð ráðgjafans hjá VIRK, svo sem endurhæfingarlífeyri og dagpeninga en síðarnefnda upphæðin er svo lág að það tekur því varla að eyða pappír og bleki í slíka umsókn, endurhæfingarlífeyrinn hafði ég svo aðeins í skamman tíma. En það bjargaði mér að Rafiðnaðarsambandið studdi mig fyrsta árið og svo lífeyrissjóðurinn Stafir seinna árið.“
Hvað varstu lengi í samstarfi við VIRK?
„Örugglega um eitt ár. Ég sótti fundi með ráðgjafanum af og til og VIRK borgaði mestan hlutann af meiraprófinu.“
Mestar áhyggjur af spilamennskunni
Ertu ánægður með að vera orðinn atvinnubílstjóri?
„Já, ég er það. Ég get unnið við þetta og geri gagn. Ég ek gámaflutningabíl með krókheisi. Ég get þetta án þess að ofreyna á mér öxlina. Ég er, þó ég segi sjálfur frá, í nokkuð góðu formi miðað við aldur og fyrri störf. Ég er fimmtíu og sjö ára gamall og er nærri því eins og ballettdansari miðað við suma jafnaldra mína,“ segir Þórir og hlær.
Fékkstu svona mikla bót hjá sjúkraþjálfaranum?
„Já, hann náði öxlinni í það sem hún er í dag. Ég get lyft olnboganum tæplega í axlarhæð og það dugar til að ég get keyrt og sinnt almennum heimilisstörfum og meira að segja spilað á hljóðfærið mitt. Ég er í hljómsveit og spila á bassa. Hljómsveitin heitir Síðasti sjens og spilar á tónleikum og fyrir dansi hér fyrir austan og hvar sem er - ef því er að skipta. Ég hafði satt að segja mestar áhyggjur af því að geta ekki spilað framar. Mér finnst að ég hafi sloppið ótrúlega vel miðað við það sem bæklunarlæknirinn sagði mér að hann hefði þurft að gera í aðgerðinni.
Að mínu mati er VIRK nauðsynlegt batterí fyrir fólk sem lendir í til dæmis slysi eins og ég. Ég veit um einstakling sem veiktist og gat ekki unnið þá vinnu sem hann var í og er bótaþegi í dag. Þá voru engin úrræði í boði. Ég er mjög feginn að geta unnið, ég er ekki týpan til að vera á bótum. Get alls ekki setið heima allan daginn aðgerðarlaus.“
Saknar þú sjávarins?
„Nei og það er hættuleg hugsun að sakna – það gæti leitt til þess að ég færi á sjóinn aftur og þá hyrfi brosið á konunni. Hún er vel ánægð að hafa mig í landi. Ég er því mjög sáttur við þá aðstoð sem ég fékk hjá VIRK.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir