Sigurbjörg Eva Stefánsdóttir
Þrautaganga Sigurbjargar Evu Stefánsdóttur var löng og ströng áður en hún leitaði samstarfs við VIRK og henni tók að batna. Ofsakvíðaröskun, þunglyndi, félagsfælni og fleiri einkenni gerðu henni ómögulegt að vinna og líf hennar í alla staði afar erfitt.
„Heilsa mín varð verulega slæm þegar ég varð ófrísk af dóttur minni. Í lok meðgöngunnar fór ég að fá rosaleg kvíðaköst og var mjög grátgjarnt. Ég hafði raunar lengi verið svolítið lífhrædd og óttast að eitthvað kæmi fyrir, en ekki fyrr fengið svona svæsin kvíðaköst,“ segir Sigurbjörg Eva Stefánsdóttir.
„Ég vaknaði einn daginn og fannst ég ekki geta andað. Leið óskaplega illa. Það þyrmdi yfir mig. Ég hafði verið áhyggjufull á meðgöngunni, verið næstum viss um að eitthvað myndi fara úrskeiðis, eitthvað myndi koma fyrir barnið eða mig. En þetta var öðruvísi. Hjartað í mér barðist á margföldum hraða, ég svitnaði og mér leið eins og ég væri að fara að detta niður. Ég var viss um að ég væri að deyja og hringdi í lækni óskaplega hrædd.
Ég bjó á þessum tíma í Danmörku, þar bjó ég samfleytt í níu ár. En fyrir rösku ári síðan flutti ég heim. Ég byrjaði mjög ung að vera með manninum mínum. Hann flutti út með foreldrum sínum og ég kom á eftir honum ári síðar. Hann var í námi í tæknigeiranum og ég fór að vinna. Þegar hann hafði lokið sínu námi fór ég að læra að verða matráður. Ég lauk því námi en varð ólétt meðan á því stóð. Það var með naumindum að ég gat fengið prófgráðuna mína.
Mér gekk ágætlega í náminu en átti samt svolítið erfitt á vinnustaðnum af því að maður sem ég vann með sýndi mér verulega ónotalega framkomu. Kannski af því að ég var útlendingur. Ég var þarna á námssamningi og áður en ég fór í fæðingarorlof var ég oft hálfgrátandi undan þessum manni og leið mjög illa.
Ég fékk fæðingarorlof nokkru áður en dóttir mín fæddist og var þá oftast ein heima. Þá fór ég að finna fyrir mikilli vanlíðan, andlegri og líkamlegri. Maðurinn minn vann langan vinnutíma og ég átti fáa að til að tala við.“
Hvernig gekk fæðingin?
„Hún var afskaplega erfið, en barnið fæddist og það var allt í lagi með það. Ég þurfti að vera í viku á sjúkrahúsinu og leið ótrúlega illa þann tíma. Ég grét og ég grét. Manninum mínum leist ekki á ástand mitt en taldi að þetta myndi lagast. En það lagaðist ekki Mér leið alveg rosalega illa fyrsta árið eftir að dóttir mín fæddist. Ég vissi hreinlega ekki af hverju ég eignaðist hana, mér fannst ég ekki almennilega geta tengst henni. Ég er gjörsamlega ósammála því að fólk segi að maður elski börnin sín frá því maður lítur þau fyrst augum því þannig leið mér bara ekki.
Ég hafði bara ekki þolinmæði og orku til að hugsa um barnið og mér fanst ég ekki vera nein mamma, fannst ég hræðilega vond að geta hugsað svona. Ég tek fram að ég var samt aldrei vond við dóttur mína, en mig langaði einhvern veginn ekkert að eiga hana. Mér fannst ég bregðast öðruvísi við en ég átti að gera. Allir lýsa þessu mömmuhlutverki sem eintómri gleði og hamingju. Hjá mér var þetta þvert á móti. Mér hafði aldrei liðið jafn illa og upplifað annað eins, af því að ég upplifði mig sem hræðilega mömmu og langaði bara að deyja. Ég íhugaði, ef ég myndi láta verða af því að deyja, hvernig ég þá ætti að fara að því. Hvernig best væri að fara að, þannig að ég myndi finna sem minnst fyrir því. Mig langaði ekki að lifa. Ég fann ekki minn tilgang í lífinu fyrst ég gat ekki einu sinni verið góð mamma sem elskaði barnið sitt.“
Greind með fæðingarþunglyndi
Og hvað tókstu til bragðs?
„Ég ákvað að drífa mig til heimilislæknis, sem greindi mig með fæðingarþunglyndi. Ég sagðist ekki finna orku til þess að sinna barninu eða taka til, vildi ekki gera neitt eða fara neitt. Læknirinn lét mig hafa þunglyndislyf og benti mér líka á að ég þyrfti að fara til sálfræðings. Ég tók lyfið í smáum skömmtum fyrst vikurnar en þegar ég tók fullan skammt fór lyfið svo illa í mig að ég endaði um nóttina með ofsahjartslátt uppi á bráðamóttöku. Mér var sagt að hætta að taka lyfið. Það tók mig tvo daga að jafna mig á þessari lyfjagjöf. Læknirinn vildi að ég tæki annað lyf en ég var orðin svo hrædd við lyf að ég vildi ekki taka neitt slíkt. Ég hætti að taka pilluna, verkjatöflur og vítamínpillur, ég vildi ekki töflur af neinu tagi. Ég var vissum að allt slíkt væri stórhættulegt.
Ég var þarna komin til sálfræðings, sem var ágætur en ég náði mér samt ekki. Maðurinn minn var í vinnu en hafði miklar áhyggjur af mér og barninu. Ég þoldi svo illa að vera ein heima. Þegar fæðingarorlofinu lauk eftir eitt ár fór ég aftur á vinnustaðinn til að ljúka námssamningum. En ég gat bara unnið í tvær vikur, þá var ég send í veikindafrí að læknisráði vegna kvíðakastanna sem hrundu yfir mig mörgum sinnum á dag. Ég útskrifaðist samt sem matráður, þó að ég missti tvær vikur í lokin af námssamningnum.
Ég einangraði mig alltaf meira og meira, vildi ekki fara út á meðal fólks, ekki hitta neinn. Það endaði með því að við fluttum heim til Íslands, heim til mömmu og pabba í litla íbúð í húsinu þeirra. Mig hafði langað heim í nokkur ár og þegar ég versnaði svona til heilsunnar þá ákvað maðurinn minn að þetta gengi ekki, við yrðum að flytja heim til Íslands.
Þegar heim kom fór mamma með mig til heimilislæknisins. Þá kom ég næstum ekki upp orði vegna kvíða. Ég gat varla horft framan í lækninn. Hann hafði miklar áhyggjur af mér og vildi setja mig á lyf. En ég þverneitaði. Læknirinn ræddi þá um kvíðameðferð gegnum geðdeild, ég vildi það ekki. Þá spurði læknirinn hvort ég væri tilbúin til að ræða við ráðgjafa hjá VIRK. Í ljós kom að ég átti rétt á samstarfi við VIRK, sem ég var ekki viss um fyrirfram.
Ég hitti svo ráðgjafa VIRK eftir skamman tíma. Í millitíðinni hafði mamma einnig samband við geðlækni sem hún þekkti. Hún mætti bara með mig til hans og þó hann hefði þegar alltof marga sjúklinga tók hann við mér. Hann sá og heyrði hvernig ég var á mig komin.
Ég hóf samstarf við VIRK í nóvember 2013. Ráðgjafinn ræddi við mig og spurði mig ýmissa spurninga, meðal annars hvenær ég sæi fyrir mér að ég gæti farið að vinna. Ég var fullviss um að ég gæti aldrei aftur farið að vinna, aldrei orðið eðlileg eða liðið vel. Sá ekki að ég gæti nokkurn tíma orðið „gamla ég“. Taldi að líf mitt væri ónýtt og skammaðist mín fyrir ástand mitt. Ég hélt mig inni, forðaðist gesti, gat varla farið í veislur, ef ég fór leið mér svo illa að ég stoppaði stutt við. Gat ekki farið í bíó, ekki borðað matinn minn ef ég fór út að borða. Leið skást heima. En þó ekki vel því kvíðaköstin komu eitt af öðru, líka þar. Þetta var erfitt einnig fyrir manninn minn. Mig langaði ekki að hlæja og bara ekki að vera til. En hann sýndi mér mikinn skilning. Hann vonaðist til, og hafði alltaf trú á, að ég myndi lagast.“
Þunglyndi, ofsakvíðaröskun, Félags- og víðáttufælni
Hvernig hófst samstarfið við VIRK?
„Ráðgjafi VIRK byrjaði á að láta mig halda dagbók, þar átti ég að skrá hvernig mér liði, hvernig ég svæfi og hvort ég hreyfði mig. Mitt fyrsta markmið samkvæmt áætlunum okkar ráðgjafans var að vakna á morgnana fyrir klukkan tíu og fara út að ganga svolitla stund. Það gekk ekki vel fyrst en fór svo að lagast. Ég byrjaði sem sagt á að færa dagbókina, vakna á morgnana, ganga úti og fara til geðlæknisins. Geðlæknirinn komst að því að hjartað í mér slægi alltof hratt vegna kvíða og ég fengi þess vegna slæm aukaslög. Hann sendi mig í hjartarannsókn en ekkert reyndist að hjartanu. Það slær bara óreglulega. Það var alltaf í „yfirkeyrslu“, ég fann alltaf fyrir því. Mér leið jafnan eins og ég væri í mikilli hættu stödd.
Ég fékk lyf. Það gekk ekki vel að fá mig til að taka það lyf. Mamma píndi það næstum ofan í mig. Ég sat út í horni með töfluna í hendinni og gat ekki andað fyrir kvíða, ég var svo hrædd. Mamma settist hjá mér og sagði við mig: „Það er tvennt í stöðunni, annaðhvort kemur þú þessu lyfi ofan í þig eða þú endar á geðdeild.“ Svo braut hún töfluna í fjóra parta og fékk mig til að taka einn fjórða partinn. Hún sat svo hjá mér því ég var yfirkomin af kvíða. En eftir tuttugu mínútur fann ég að hjartað fór að slá hægar. Um kvöldið hugsaði ég með mér: „Ég dó ekki af þessum fjórða parti, nú tek ég hálfa töflu.“ Ég var dauðhrædd en gerði það samt. Það var ótrúlega gott þegar hjartað fór að hægja á slættinum og ég fór að slaka aðeins á.
Kvíðaköstin héldu samt áfram en það smá dró úr þeim. Skömmu síðar fór ég í Kvíðameðferðarstöðina að ráði VIRK. Ég var þar í einkatímum hjá sálfræðingi. Þar var ég greind eftir að hafa sagt sögu mína og farið í nokkra tíma. Ég greindist með þunglyndi, ofsakvíðaröskun, félagsfælni og víðáttufælni. Ég hafði alltaf verið svolítið kvíðin frá því ég var barn, lét mömmu til dæmis hringja fyrir mig, en nú vandi ég mig af því. Eftir þetta var ég sett í meðferð gegn ofsakvíðaröskun sem byggði á hugrænni atferlismeðferð. Ég hafði enga trú á þessu en ákvað samt að leggja mig alla fram. Gera alla heimavinnu – ég hefði hvort sem er engu að tapa.
Tímarnir hjá sálfræðingum urðu fimmtán og mér fór að líða betur, hægt og rólega. Þetta prógramm þrælvirkaði. Ég fór að hafa trú á að ég gæti lagast. Ég fór einnig fyrir tilstilli VIRK í Heilsuborg. Sjúkraþjálfari tók þar á móti mér og útbjó æfingaprógramm sem hentaði mér og minni getu. Ég byrjaði einu sinni í viku, svo tvisvar og loks fjórum sinnum. Ég ræddi við sjúkraþjálfarann einu sinni í viku um hvernig mér gengi. Einnig hélt ég matardagbók. Ég var of þung. Ég hafði þyngst um 40 kíló á meðgöngunni. Ég borðaði alltaf þegar mér leið illa. Ég léttist um fimm kíló í Heilsuborg en bætti þeim aftur á mig. En ég hef léttst um tíu kíló eftir að ég byrjaði að vinna.“
Svo er ég ótrúlega þakklát fyrir það að maðurinn minn stóð við hliðina á mér í þessu öllu saman eins og klettur og hefur alltaf stutt mig, ég á honum margt að þakka. Líka mömmu og systur minni, þær hafa líka stutt mig afskaplega mikið. Ég er líka verulega ánægð fyrir aðstoðina sem ég fékk hjá VIRK. Hún var frábær. Ég á VIRK ótrúlega margt að þakka. Ég veit ekki hvar ég væri hefði ég ekki farið í samstarf við VIRK. Mér líður eins og ég hafi fengið annað tækifæri í lífinu.“
Fór að líða betur og betur
Hvenær fórstu að vinna?
Markmiðið var auðvitað að ég færi í vinnu, þótt það virtist mjög fjarlægt. Það tók mig níu mánuði þangað til ég fór að vinna. Þegar meðferðunum hjá Kvíðameðferðarstöðinni og Heilsuborg var að ljúka fór ég sjálf að hugsa um að gera ferilskrá. Ég var allt í allt sex mánuði hjá Heilsuborg, fyrst þrjá mánuði í umsjá sjúkraþjálfara, í aðra þrjá mánuði sá ég um æfingarnar mínar sjálf.
Sálfræðingurinn hjá Kvíðameðferðarstöðinni og ráðgjafi VIRK ákváðu í samráði við mig að skrá mig á félagsfælninámskeið. Það leist mér ekki vel á, en fór samt. Ég átti að mæta í ellefu skipti, einu sinni í viku. Ég hafði fulla trú á þessu en fannst verulega óþægilegt að mæta þarna með bláókunnugu fólki. Allir horfðu niður í gólfið í fyrstu tímnum. Mig langað bara að hætta og fara út. En ég þraukaði.
Námskeiðið hjálpaði mér hægt og hægt og mér fór að líða betur og betur. Þá fór ég að velta fyrir mér að ég gæti hugsanlega farið að vinna. Í síðasta tímanum í ofsakvíðameðferðinni svaraði ég spurningum eins og ég hafði jafnan gert áður. Í fyrsta skipti þá voru allar tölurnar mínar eðlilegar. Sálfræðingurinn sýndi mér hvernig ég hefði svarað í upphafi og ég varð bæði hissa og glöð að sjá hve mér hafði farið fram. Ég trúði því varla að ég hefði náð þessum árangri á svo stuttum tíma. Ég hugsaði: „Vá, hvað ég er komin langt!“ Þá fór ég að spá í vinnu.
Áður en ég fór að að sækja um vinnu fór ég fyrir tilstilli ráðgjafa VIRK í einn tíma hjá Hugtaki. Þar var mér hjálpað að laga feriliskrána. Og fékk fullt af góðum ráðum og var bent á hvar atvinnuauglýsingar væri að finna. Ég kastaði mér af fullum krafti og jákvæðni út í að sækja um vinnu. Á einni viku sótti ég um allskonar störf. Í vikunni þar á eftir var ég boðuð í ýmis viðtöl en fór bara í eitt. Það var vegna vinnu sem ég vildi og fékk. Í framhaldinu hóf ég störf sem skólaliði í ágúst síðastliðnum. Ég vinn með börnunum, í mötuneytinu og við þrif. Þetta er fjölbreytt starf og skemmtilegt. Mér var vel tekið. Nú vinn ég fulla vinnu eins og ekkert sé. Og ég keyri í vinnuna. Áður hafði ég ekki getað keyrt bíl vegna kvíða.
Ég eignaðist strax vinkonu í vinnunni sem ég hitti oft utan vinnutíma. Ég get farið út að skemmta mér og farið í bæinn. Mér líður vel og elska að vera til. Ég get gert allt sem mig langar til. Samband mitt og mannsins mína hefur aldrei verið betra og ég er lifandi og áhugasöm mamma. Ég fæ enn kvíðaköst en ég kann að takast á við þau og læt þau ekki hafa áhrif á líf mitt. Ég er enn á hjartalyfinu, mér finnst ég þurfa á því að halda. Öðrum lyfjum er ég ekki á. Ég hitti geðlækninn minn ennþá. Ég er eðlileg manneskja eins og allir aðrir – ég er frjáls.
Mér finnst ég hafa byrjað að elska dóttur mína hægt og rólega og lært að lifa lífinu sem mamma, svona upp úr eins árs aldri hennar. Samviskubitið þjáði mig, meðan ég var sem verst, yfir því að hafa nokkurn tíma hugsað svona er hræðilegar hugsanir eins og um sjálfsvíg. Mér líður oft enn illa yfir því, vegna þess að ég elska dóttur mína. Hún er það fallegasta og besta sem hefur komið fyrir mig. Ég gæti ekki ímyndað mér líf mitt án hennar.
Svo er ég ótrúlega þakklát fyrir það að maðurinn minn stóð við hliðina á mér í þessu öllu saman eins og klettur og hefur alltaf stutt mig, ég á honum margt að þakka. Líka mömmu og systur minni, þær hafa líka stutt mig afskaplega mikið.
Ég er líka verulega ánægð fyrir aðstoðina sem ég fékk hjá VIRK. Hún var frábær. Ég á VIRK ótrúlega margt að þakka. Ég veit ekki hvar ég væri hefði ég ekki farið í samstarf við VIRK. Mér líður eins og ég hafi fengið annað tækifæri í lífinu.“
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir.