Fara í efni

Veikindafjarvera

Til baka

Veikindafjarvera

Tæplega 1500 starfsmenn sem taka þátt í verkefninu Virkur vinnustaður, sem er þróunarverkefni á vegum VIRK, voru spurðir  haustið 2011 um hversu lengi og hversu oft þeir voru fjarverandi frá vinnu á síðastliðnum 12 mánuðum vegna eigin veikinda. Þessar spurningar voru liður í spurningakönnun um vinnuumhverfið, líðan, starfsánægju og stjórnun á vinnustöðum.  Í ljós kom að starfsmenn töldu sig hafa verið frá vinnu vegna eigin veikinda að meðaltali í 8,7 daga á síðastliðnum 12 mánuðum og að þeir hefðu verið í 3,1 skipti fjarverandi á þessum tíma.  Þetta eru ákveðnar vísbendingar um viðmið fyrir veikindafjarveru en mikilvægt er að skoða fjarvistatölur í samhengi við menningu vinnustaðar og stjórnunarhætti. 

Ástæður veikindafjarveru

Ástæður veikindafjarveru geta verið margvíslegar og eru ekki eingöngu tengdar heilsufari og líðan. Starfsánægja, viðhorf á vinnustað til veikinda og til stjórnunar geta haft áhrif á það hvort starfsmenn skrá sig veika eða komi til vinnu þrátt fyrir smá slappleika. Réttindi fólks til veikindafjarveru og greiðslna í veikindum, félagsleg staða, hvort fólk  vinnur hjá því opinbera eða á almennum vinnumarkaði geta einnig haft áhrif.

Fjarvistir vegna geðrænna kvilla og geðsjúkdóma  hafa aukist og þá sérstaklega skammtímafjarvistir en talið er að um 25% starfsmanna í Evrópu hafi veruleg óþægindi af vinnutengdum geð- og streitu einkennum ár hvert.  Fram kemur á heimsíðu Vinnueftirlitsins að 27% einstaklinga telja sig búa við of mikla streitu tengda vinnunni á Íslandi og allt að fjórðungur veikindafjarveru sem vara í tvær vikur eða meira má rekja til of mikils álags. 

Hvað telst mikil eða lítil veikindafjarvera?

Menn velta oft fyrir sér hvað eðlileg veikindafjarvera er fyrir hvern og einn vinnustað eða starfsgrein. Einnig hverjar viðmiðunartölurnar eru fyrir Ísland og hvar við stöndum miðað við önnur lönd.  

• Upplýsingar um tíðni veikindafjarveru á Íslandi eru mjög fjölbreytilegar þar sem aðferðir við skráningu eru mismunandi. Samkvæmt norrænni skýrslu frá 2008, sem byggir á gögnum frá tryggingastofnunum Norðurlandanna, er talað um 2% veikindafjarveru á Íslandi. Þessar upplýsingar miðast við fjölda einstaklinga sem sækja bótarétt sinn til Tryggingastofnunar Ríkisins en flestir þeirra hafa átt langan veikindarétt hjá atvinnurekendum sínum og eða stéttarfélögum áður en þeir skrá sig hjá TR. Þessar tölur gefa því ekki rétta mynd af veikindafjarveru á Íslandi.
• Í skýrslu sem birt var á á heimsíðu Samtaka atvinnulífsins kemur fram að meðalfjöldi veikindadaga árið 2006 voru 8,4 dagar á árinu eða 3,8% vinnudagar á því ári. Gagnasafn sem þessar tölur byggja á heldur utan um skráningu veikindafjarveru frá fyrsta degi tilkynntra fjarvista hjá íslenskum fyrirtækjum. Líta má svo á að þetta gagnasafn sé þverskurður af íslensku atvinnulífi þar sem gagnasafnið er frá mörgum vinnustöðum með yfir 11.000 starfsmenn. Inni í þessum tölum eru þó undanskildir opinberir aðilar og þekkingarfyrirtæki, svo dæmi séu nefnd. Síðastliðin ár hefur meðaltal fjarvistadaga verið um 9 dagar eða um 3,8–4% vinnudaga á ári, en hlutfall fjarvista lækkaði aðeins á árinu 2010 niður í 3,7% á sama tíma og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.
Hér á Heimasíðu Virk eru ýmsar leiðbeiningar um hvernig hægt er að styðja starfsmenn í veikindum og draga úr fjarvistum sjá hér til hægri undir merkinu Virkur vinnustaður og á slóðinni:

http://virk.is/static/files/virkurvinnustadur/Tiu_rad_draga_ur_fjarvistum.pdf


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband