Fara í efni

Styrkir VIRK haust 2017

Til baka

Styrkir VIRK haust 2017

VIRK veitir styrki tvisvar á ári til virkniúrræða, rannsókna- og þróunarverkefna en VIRK er heimilt samkvæmt lögum 60/2012 að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu m.a. með styrkveitingum. Ákvarðanir um styrkveitingar eru teknar af framkvæmdastjórn VIRK að fenginni umsögn frá sérfræðingum sjóðsins. 

11 aðilar hlutu styrk að þessu sinni. Sérstaklega var horft til virkniúrræða miðuðum að ungu fólki og til rannsóknar- og þróunarverkefna tengdu ungu fólki í styrkveitingum VIRK nú m.a. vegna þess að hlutfall yngra fólks meðal einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK hefur farið vaxandi undanfarin ár.

Rannsóknarstyrki hlutu neðangreindir:

Björk Vilhelmsdóttir. Hvað hindrar ungt fólk sem er utan vinnu og skóla í að nýta sér virkniúrræði? 
Eigindleg rannsókn sem kortleggja mun hindranir, ekki síst fjárhagslegar, sem koma í veg fyrir virkni ungs fólks á vinnumarkaði eða í skóla, sem nýtir sér fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, atvinnuleysisbætur eða eru með endurhæfingar- eða örorkulífeyri. 

Margrét Einarsdóttir. Vinnutengd heilsa og öryggi 13-19 ára ungmenna: Þáttur vinnuskipulags, fræðslu og öryggisþjálfunar.
Eigindleg og megindleg rannsókn sem athuga mun vinnutengda heilsu og öryggi 13-19 ára ungmenna hvað varðar vinnuslys, vinnutengda stoðkerfisverki, vinnuskipulag, fræðslu og öryggisþjálfun. Skoðað verður hvernig hægt sé að auka öryggi vinnandi ungmenna og draga úr líkum á skertri starfsgetu og varanlegri örorku með bættu vinnuskipulagi, öryggisþjálfun og fræðslu.

Hulda Þóra Gísladóttir. Einstaklingar með skerta starfsgetu- möguleikar á vinnumarkaði.
Eigindleg rannsókn þar sem umsækjandi tekur viðtöl við stjórnendur fyrirtækja og kannar hver reynsla þeirra sé af því að taka á móti starfsfólki í vinnu eftir langtíma veikindafjarveru og að ráða fólk með skerta starfsgetu til vinnu. 

Styrki til virkniúrræða hlutu neðangreindir:

Landssamtökin Geðhjálp vegna Bataskóla Íslands. Þróun á starfi jafningjafræðara við Bataskóla Íslands.
Bataskólinn er ætlaður fólki, 18 ára og eldri, sem glímt hafa við geðrænar áskoranir, aðstandendum og starfsfólki á heilbrigðis- eða velferðarsviði. Námið er einn vetur (tvær annir) og geta nemendur á þeim tíma valið úr um 10 námskeiðum sem öll snúa að bata frá geðrænum áskorunum. Mikið er lagt upp úr valdeflingu nemenda og að auka virkni þeirra í daglegu lífi og að gera þeim kleift að sækja út á vinnumarkað eða í frekara nám eftir nám í Bataskólanum. 

Andrea Fanney Jónsdóttir, Erla Dís Arnardóttir og Guðný Katrín Einarsdóttir. Handaband - skapandi vinnustofa.
Handaband er þróunarverkefni sem hóf göngu sína í mars 2017 en markmiðið þeirra er að bjóða upp á nýja þjónustu fyrir einstaklinga utan vinnumarkaðar og vinna textíl á umhverfisvænan hátt með efnivið sem til fellur við framleiðslu á Íslandi. Þátttaka í Handabandi er gjaldfrjáls og öllum opin. 

Akureyrarbær, Ungmennahúsið Rósenborg. Virkið, þverfaglegt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum.
Virkið sem staðsett er í Ungmennahúsinu Rósenborg mun starfa sem þjónustuborð á Eyjafjarðarsvæðinu með hagsmuni einstaklinga á aldrinum 16-20 ára að leiðarljósi. Markmiðið er að bæta þjónustu við ungt fólk á krossgötum með því að auðvelda aðgengi fyrir notandann, veita snemmtæka íhlutun, minnka líkur á að fólk falli á milli kerfa, samþætta þjónustu og úrræði, auðvelda tilvísunaraðilum að koma málum í réttan farveg og móta virkniúrræði. Nýlega skrifaði VIRK undir samstarfssamning um þetta verkefni ásamt öðrum heilbrigðis- og velferðarstofnunum á Eyjarfjarðarsvæðinu.

Geðræktarmiðstöðin Vesturafl.
Vesturafl er geðræktarmiðstöð þar sem boðið er upp á virkni og samveru. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun og hvetja notendur til þátttöku í samfélaginu. Aukin áhersla hefur verið lögð á ungt fólk (16-30 ára) og þeim boðið upp á þjónustu sem hefur ekki verið til staðar áður þ.m.t. heimanámsaðstoð, verkefni í vinnustofu og að aðstoða við matseld. Vesturafl býður upp opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga.

Grófin geðverndarmiðstöð.
Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta og er markmið Grófarinnar m.a. að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata, þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér. Í Grófinni er aðgengi opið og gjaldfrjálst, fólk er velkomið, hvort heldur sem er í óformlegt spjall, hópastarfið, námskeið og mannfagnaði. 

Þróunarstyrki hlutu neðangreindir:

Kvíðameðferðarstöðin. Snörp og marksækin hópmeðferð við félagsfælni.
Styrkurinn er veittur til þróunar á nýju meðferðarformi fyrir félagsfælni. Í þróunarverkefninu verður veitt hugræn atferlismeðferð við félagsfælni á nýju formi, þ.e. meðferð sem hefur verið veitt á 14 vikum eingöngu í hóp verður nú veitt á fjórum dögum þar sem blandað verður saman hóp og einstaklingsmeðferð. 

Lýðheilsusetrið Ljósbrot. „Pepp Upp“
Í júní s.l. hlaut Lýðheilsusetrið Ljósbrot verðlaun í hugmyndasamkeppni sem VIRK stóð fyrir um þróun starfsendurhæfingarúrræðis fyrir ungt fólk. Úrræðið þeirra nefnist „Pepp upp“ og snýst um dagskrá með skemmtilegum og fræðandi fyrirlestrum einu sinni í viku og einstaklingsviðtöl þar sem áhugasvið og hæfni eru greind og veitt er hvatning til að ná settum markmiðum. Sttyrkurinn er veittur til fjárfestingar í tækjabúnaði sem nauðsynlegur er til sendingar á efninu út á land svo fræðsluefnið sem notað er við kennslu fyrir unglinga á höfuðborgarsvæðinu nýtist einnig unglingum á landsbyggðinni. 

SÍBS. Líf og heilsa lífsstílsþjálfun, starfsendurhæfing, námsskrá og tilraunakennsla.
Verkefnið er hluti af verkefninu „SÍBS – Betra líf og heilsa, lífsstílsþjálfun“ en tilgangur verkefnisins sem fær styrk hér er að aðlaga efnið úr fyrrnefndu verkefni að þörfum, markmiðum og gæðaviðmiðum fullorðinsfræðslunnar og tilraunakenna það síðan í samráði við Heilbrigðisstofnun Austurlands og heilsueflandi samfélög í landshlutanum. Sérstaklega á að horfa til þess að þjálfunin nýtist sem liður í starfsendurhæfingu á svæðinu og víðar um landið.

Myndasafn frá afhendingu styrkjanna.

Framkvæmdastjórn VIRK úthlutar styrkjum tvisvar á ári, að hausti og vori, og umsóknarfrestur vegna styrkveitinga vor 2018 rennur út 15. janúar 2018. Nánari upplýsingar, stefnur og reglur varðandi umsóknir á styrkjum til VIRK og umsóknareyðublöð má sjá hér.


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband