Styrkjum VIRK úthlutað
Styrkjum VIRK úthlutað
VIRK veitir einu sinni á ári styrki til verkefna sem auka fjölbreytni og framboð úrræða í starfsendurhæfingu og styrki til rannsókna sem stuðla að uppbyggingu og auka við almenna þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi.
33 umsóknir bárust til VIRK fyrir lok umsóknarfrests þann 15. febrúar. Allar umsóknir hlutu faglega umfjöllun hjá sérfræðingum VIRK en ákvarðanir um styrkveitingar voru í framhaldinu teknar af framkvæmdastjórn VIRK.
Neðangreindir 14 aðilar hlutu styrki að þessu sinni og heildarupphæð styrkja í ár er 28.800.000 kr.
Sérstaklega var horft til verkefna og/eða úrræða sem stuðla að sjálfsþekkingu einstaklinga sem eykur líkur á farsælli endurkomu til vinnu.
Styrkir til uppbyggingar- og þróunarverkefna
Erla Björnsdóttir: Mannrækt
Styrkurinn er veittur til þróunar á heildrænu vefnámskeiði þar sem markmiðið er að þátttakendur læri að þekkja sjálfan sig betur, kanna eigin styrkleika og hámarka nýtingu þeirra með verkfærum sem efla markmiðasetning og tímastjórnun, bæta svefn og líðan ásamt því að læra að skilja nærumhverfi sitt betur.
Námskeiðið er sett saman af 8 mismunandi hlutum; Sjálfið, markmið, tímastjórnun, venjur, svefn, tilfinningar, nærumhverfi og framtíðarsýn og er gert ráð fyrir að fólk ljúki við alla hlutana á 8 – 12 vikum en opið er aðgengi að vefnámskeiðinu í 16 vikur. Gagnreyndir spurningalistar sem meta líðan er nýttir í upphaf og við lok námskeiðsins auk þess sem sjálfsmynd og svefn er metið með spurningalistum.
Mín líðan ehf. – Tanja Dögg Björnsdóttir: Upplestur á stöðluðum netmeðferðum Mín líðan. Þýðing á stöðluðum netmeðferðum Mín líðan á ensku.
Styrkurinn er annars vegar veittur til að taka þátt í kostnaði við upplestur á efni sem tengist netmeðferðunum „Hugræn atferlismeðferð (HAM) á netinu við vægum til miðlungs einkennum þunglyndis“ og „Hugræn atferlismeðferð (HAM) á netinu við kvíða“ sem Mín líðan bíður upp á. Markmiðið er að fleiri geti nýtt sér úrræðin þar sem grunnforsenda þess að geta nýtt staðlaðar netmeðferðir Mín líðan er að geta lesið og skilið mikinn texta.
Styrkurinn er einnig veittur til að taka þátt í kostnaði við að þýða sömu tvær netmeðferðir hjá Mín líðan yfir á ensku.
Hlín sfl. – Áshildur Hlín Valtýsdóttir: Sjálfsþekking – leið til lífs í flæði
Styrkurinn er veittur til þróunar á námskeiðinu „Sjálfsþekking – leið til lífs í flæði“ þar sem markmiðið er að þátttakendur öðlist haldgóðan skilning á eigin kjarna styrkleikum og hvernig má nýta sér þá í lífi og starfi. Við lok námskeiðsins er markmiðið að þátttakendur finni fyrir auknum drifkrafti til verka, meiri sátt í eigin skinni og eru með skýrari framtíðarstefnu. Námskeiðið stendur yfir í 8 vikur og er árangur metinn með megindlegum og eigindlegum aðferðum auk opinna spurninga sem lagðar eru fyrir í upphafi og lok námskeiðsins. Námskeiðið er hannað þannig að það getur verið bæði í boði sem staðnámskeið og netnámskeið.
Þraut ehf. – Arnór Víkingsson: Að auka virkni og færni í vefjagigt: Netprógramm til stuðnings fræðslunámskeiðum Þrautar um vefjagigt.
Styrkurinn er veittur til þróunar á veflausn til að auka þekkingu og skilning einstaklinga á vefjagigt, einkum á áhrifum sjúkdómsins á líðan, færni og virkni. Áhersla er lögð á að þátttakendur tileinki sér sjálfshjálp, þar sem lagt er upp með að þeir nái sem mest sjálfir stjórn á daglegri líðan sinni og færni, frekar en að vera háðir aðkomu heilbrigðisstarfsmanna eða annarra meðferðaraðila.
Verkefnið felst í að búa til 12 stutta fræðsluþætti um vefjagigt þar sem á hnitmiðaðan og áhugavekjandi hátt eru settar fram upplýsingar um vefjagigt og bent á leiðir til að draga úr áhrifum sjúkdómsins á líðan og færni. Notendur fræðsluþáttanna verða einstaklingar sem eru skráðir á grunnnámskeið Þrautar um vefjagigt. Efni fræðsluþáttanna verður sett fram með hliðsjón af þeirri fræðslu og leiðbeiningum sem þátttakendur hafa þegar fengið á fræðslunámskeiðinu og getur þannig dýpkað skilning þeirra og hjálpað þeim að tengja efni námskeiðsins við sína eigin tilveru og viðfangsefni.
Styrkir til virkniúrræða
Hjálparstarf kirkjunnar, Reykjavík
Um er að ræða tveggja ára verkefni sem nefnist „Stattur með sjálfum þér“ og er virkni- og valdeflingarverkefni fyrir konur sem eru á örorkulífeyri með barn/börn á framfæri. Markmið verkefnisins eru að þátttakendur bæti sjálfsmynd og trú á eigin getu, eflist í foreldrahlutverkinu og efli félagslegt tengslanet sitt svo koma megi í veg fyrir félagslega einangrun. Markmiðið er að konurnar eflist og öðlist aukna trú á eigin getu svo meiri líkur séu á að þær upplifi sig tilbúnar til að skoða frekari úrræði í átt að námi eða vinnu. Verkefnið er þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu en eingöngu konur sem eru á örorku fá boð um þátttöku. Yfirgripsmikil dagskrá er í boði í gegnum allt verkefnið og geta þátttakendur sótt ýmsa virkni oft í viku auk þess sem þátttakendur hafa aðgengi að félagsráðgjöfum Hjálparstarfsins.
Hlutverkasetur, Reykjavík
Hlutverkasetur er virknimiðstöð og er öllum opinn og taka einstaklingar þátt á eigin forsendum. Staðurinn býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin. Sumir nýta staðinn sem hluta af starfsendurhæfingu aðrir til að viðhalda virkni og/eða vinna gegn félagslegri einangrun. Hlutverkasetur veitir opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga alla virka daga vikunnar sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra.
Hugarafl, notendastýrð starfsendurhæfing, Reykjavík
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Einstaklingar sem stunda endurhæfingu hjá Hugarafli getur sótt atriði á dagskrá sem styðja við bataferli viðkomandi og síðar unnið að auknum tækifærum í samfélaginu s.s. skólagöngu, atvinnu eða auknum lífsgæðum. Hugarafl býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf. Þátttaka í starfsemi Hugarafls er gjaldfrjáls og er fyrir alla, 18 ára og eldri, sem hafa áhuga á að vinna í geðheilsu sinni á eigin forsendum.
Klúbburinn Strókur, Selfossi
Klúbburinn Strókur er virkniúrræði sem hefur þau markmið að styðja við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins, að fólk með geðræn vandamál fái úrræði við sitt hæfi, auka tengsl fólks sem glímir við geðraskanir og/eða félagslega einangrun og efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, fyrirbyggja innlagnir og brjóta niður fordóma. Engar kvaðir eru lagðar á félaga klúbbsins og enginn kostnaður fylgir því að ganga í klúbbinn eða að taka þátt í þeim virkniúrræðum sem í boði eru 4 daga vikunnar.
Fjölsmiðjan, Suðurnesjum
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16–24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Markmið Fjölsmiðjunnar er að hjálpa ungu fólki að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða í námi. Eitt höfuðverkefni Fjölsmiðjunnar er að auka virkni nemanna og fá þau til að brjóta niður múra óvirkni og félagslegrar einangrunar. Starfsemi Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum er með öllu gjaldfrjáls þeim einstaklingum sem njóta þjónustu hennar.
Styrktarfélag Klúbbsins Geysis, Reykjavík
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Félagar vinna á tveim deildum samkvæmt skipulögðum vinnudegi og bera félagar og starfsfólk sameiginlega ábyrgð á rekstrinum og ákveða í sameiningu hvaða störf þarf að inna af hendi. Öll vinna félaga í klúbbnum er unnin í sjálfboðavinnu. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði. Mæting er frjáls og ekki háð neinum takmörkunum utan þess sem félagar eru tilbúnir að undirgangast.
Grófin Geðrækt, Akureyri
Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta til að skapa gott samfélag. Markmið Grófarinnar eru m.a. að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata, þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér. Tilgangur Grófarinnar er að efla geðheilsu og draga úr fordómum gagnvart fólki með vanda af geðrænum toga. Grófin er opið og gjaldfrjálst úrræði fyrir fólk 18 ára og eldri, sem hefur upplifað geðræna erfiðleika og vill vinna að bata, með jafningjum í samvinnu við fagfólk Grófarinnar og reynda notendur.
Vesturafl, Ísafirði
Vesturafl er geðræktarmiðstöð þar sem boðið er upp á virkni og samveru. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun og hvetja notendur til þátttöku í samfélaginu. Aukin áhersla hefur verið lögð á ungt fólk (16-30 ára) og eru með fjölsmiðju í sama húsnæði og geðræktar/virknimiðstöðina. Þar er t.d. boðið upp á heimanámsaðstoð, verkefni í vinnustofu og ýmis störf við nytjamarkað og flöskumóttöku. Vesturafl býður upp opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf. Þá er öll þjónusta Vesturafls notendum að kostnaðarlausu.
Korda Samfónía, stjórnendaþjálfun og stækkun – Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths
Korda Samfónía er samhljómsveit og jafnframt samstarfsverkefni þriggja starfsendurhæfingarstöðva á Suðvesturhorninu, Listaháskóla Íslands, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og MetamorPhonics sem er samfélagsmiðað fyrirtæki með aðalbækistöðvar í London sem skapar umhverfi til tónsköpunar fyrir tónlistarnemendur á háskólastigi og fólk sem er að byggja líf sitt upp á ný eftir ýmis áföll.
Tilgangur verkefnisins er að efla þátttakendur í öflugu, dínamísku og skapandi umhverfi. Þátttakendur fá þjálfun sem nýtist á þverfaglegum vettvangi flestra starfsstétta, með því að efla sjálfstraust og auka jákvæða sjálfsmynd. Verkefnið krefst aga, sjálfstæðrar og skapandi hugsunar, samvinnu, málamiðlunar, því að taka áhættu og hefur stranga mætingaskyldu.
Rauði Krossinn, Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi - Aðstoð eftir afplánun
Styrkur er veittur til þess að taka þátt í stofnun virknihóps inn á Hólmsheiði fyrir kvenfanga í tengslum við verkefnið „Aðstoð eftir afplánun“. Verkefnið hefur verið í gangi í öðrum fangelsum en að mestu hafa þetta verið karlmenn sem hafa tekið þátt í því. Markmiðið er að styðja einstaklinga eftir afplánun í fangelsi út í lífið á ný: að byggja upp heilbrigðara félagslegt net og nýta sér þau úrræði sem eru í boði til að koma í veg fyrir einangrun viðkomandi, virkja í samfélaginu og draga úr hættunni á endurtekningu afbrota og þ.a.l. endurkomu í fangelsi. Einstaklingar sem eru að ljúka afplánun eru paraðir við sjálfboðaliða sem eru í tengslum við fangann í 12 mánuði frá lokum afplánunar. Sjálfboðaliðar eru þjálfaðir af Rauða krossinum.
Nánar um Styrki VIRK.