Fara í efni

Styrkjum VIRK úthlutað

Til baka

Styrkjum VIRK úthlutað

VIRK veitir einu sinni á ári styrki til verkefna sem auka fjölbreytni og framboð úrræða í starfsendurhæfingu og styrki til rannsókna sem stuðla að uppbyggingu og auka við almenna þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi.

31 umsókn barst til VIRK fyrir lok umsóknarfrests þann 15. febrúar. Allar umsóknir hlutu faglega umfjöllun hjá sérfræðingum VIRK og ákvarðanir um styrkveitingar voru í framhaldinu teknar af framkvæmdastjórn VIRK.

Neðangreindir 17 aðilar hlutu styrki að þessu sinni. Sérstaklega var horft til verkefna og/eða úrræða sem sniðin eru að þörfum einstaklinga af erlendum uppruna í styrkveitingum nú.

Styrkir til þróunarverkefna

Daði Reynir Kristleifsson sjúkraþjálfari, Reykjavík: Bakskóli á netinu
Styrkur er veittur til að taka þátt í þróun á bakskóla á netinu þar sem einstaklingar geta sótt sér fræðslu, fyrirbyggjandi ráð, æfingar og úrræði í tengslum við bakverki. Tilgangur bakskólans er að gera einstaklinga sjálfstæða með bjargráð, bakslagsvarnir og æfingar við hæfi og þannig auka líkur á að þeir komist út á vinnumarkaðinn aftur og haldist þar þrátt fyrir bakvandamál. Bakskólinn er átta vikna úrræði sem skiptist upp í átta lotur en hægt verður að taka skólann á lengri tíma (allt að tólf vikur) eftir því sem hentar viðkomandi og hans vanda. Bakskólinn á netinu verður aðgengilegur á íslensku, ensku og pólsku.

Janus endurhæfing, Reykjavík: Atvinnutengd DAM meðferð fyrir starfsendurhæfingu
Styrkur er veittur til að greiða að hluta fyrir þróun á nýju meðferðarúrræði í starfsendurhæfingu – Atvinnutengt DAM eða Dialectical Behavior Therapy skills for employment – og færa það yfir á íslenska útgáfu. Atvinnutengt DAM er nýtt sálfræðilegt úrræði og er ætlað einstaklingum í starfsendurhæfingu sem hafa mikið tilfinninganæmi og eiga í erfiðleikum með samskiptafærni.

Fjarmeðferð (PT assistance), Akureyri: Fjarmeðferð í sjúkra- og styrktarþjálfun
Fjarmeðferð (PT assistance) er opið vefkerfi sem er hannað til að miðla sérfræðiþekkingu til skjólstæðinga sem þarfnast greiningar og meðhöndlunar til að ná eðlilegri hreyfigetu og árangri í líkamsrækt. Kerfið auðveldar sjúkraþjálfurum að búa til æfingaáætlanir fyrir skjólstæðinga og veita ráðgjöf með aðstoð tækninnar. Styrkurinn er veittur til að taka þátt í að þýða kerfið yfir á önnur tungumál sem nýst geta m.a. skjólstæðingum VIRK og einnig að útbúa fræðsluvef sem hentar bæði íslenskum og erlendum þjónustuþegum. Hægt verður að nálgast fræðslu sem snýr að uppbyggingu eftir áverka, slys eða annað sem veldur því að einstaklingar þurfa að fara af vinnumarkaði.

Fugl á hugarflugi slf, Reykjavík: RÆS – Vefnámskeið á ensku um stofnun örfyrirtækja og sjálfstæðan rekstur á Íslandi
Styrkur er veittur til að taka þátt í þróun á netnámskeið um stofnun, rekstur og viðhald örfyrirtækja. Námskeiðin eru á ensku og hugsuð fyrir fólk af erlendum uppruna sem langar að stofna sjálfstæðan rekstur í kringum sérþekkingu sína eða færni. Úrræðið á að svara þörf fólks af erlendum uppruna fyrir aðgengilegu og hvetjandi upplýsingagátt á vegferðinni að því að stofna sjálfstæðan rekstur. Netúrræðið mun skiptast í átta kennslulotur og innan hverrar kennslulotu verða myndbönd, gagnvirk pdf skjöl til innfyllingar og hlaðvörp/podköst með viðtölum við frumkvöðul. Áframhaldandi þróun á netúrræði er fyrirhuguð þar sem hægt verður að bjóða upp á einstaklingsráðgjöf.

Mín líðan ehf, Reykjavík: Netnámskeið við streitu
Styrkur er veittur til að taka þátt í þróun á nýju námskeiði á netinu við einkennum streitu og mun námskeiðið fara fram í vefkerfi Mín líðan. Með því að bjóða upp á netnámskeið en ekki netmeðferð er hægt að þróa úrræði sem eru ódýrari og geta mögulega gagnast fleirum. Í námskeiðinu verður fræðsla um streitu, kortlagning á vítahring streitu og kenndar ýmsar aðferðir til að draga úr streitu. Hægt verður að vera í samskiptum við sálfræðing gegnum skilaboð og spurningalistar eru notaðir til að meta streitu þannig að notandi getur fylgst með einkennum yfir námskeiðið.

Painimprove ehf, Reykjavík: Fræðslunámskeið um vefjagigt fyrir arabísku mælandi á Íslandi
Styrkur er veittur til að taka þátt í þróun á hagnýtu fræðslunámskeiði fyrir arabísku mælandi einstaklinga sem er með vefjagigt. Markmiðið er að veita nauðsynlega grunnfræðslu um vefjagigt og langvinna verki og benda á gagnleg ráð og úrræði sem þátttakendur geta nýtt sér til að bæta heilsu sína og auka færni. Úrræðið mun koma til móts við áður óuppfylltar þarfir arabískra innflytjenda með vefjagigt og bjóða upp á hagnýtt, úrræðamiðað námskeið á þeirra eigin tungu sem jafnframt tekur mið af sértækum menningarlegum þáttum arabískra samfélaga. Um er að ræða fimm klukkustunda vefnámskeið um vefjagigt og langvinna verki. Námskeiðið verður vefmiðlað og birt á lokuðu vefsvæði með aðgangsstýringu

Saga – Story House ehf, Hafnarfirði: Staldra við – Heilandi áhrif náttúru á streitu, námskeið fyrir þátttakendur af erlendum uppruna
Styrkur er veittur til að taka þátt í að þróa og auka framboð á úrræðum fyrir fólk af erlendum uppruna sem glímir við streitu/örmögnun. Þróunarverkefnið felst í því að aðlaga efni námskeiðsins „Staldra við – Heilandi áhrif náttúru á streitu“, sem fram fer á íslensku, að þörfum fólks af erlendum uppruna sem búsett er á Íslandi og þýða það yfir á ensku. Þetta úrræði hefur verið hluti af starfsendurhæfingarúrræðum VIRK en markmið úrræðisins er að efla hæfni, bæta líðan og auka jafnvægi einstaklinga í lífi og starfi þar sem stefnt er á aukna þátttöku á vinnumarkaði.

Styrkir til virkniúrræða

Bergið Headspace, Reykjavík
Bergið Headspace er þverfaglegt móttöku- og stuðningssetur sem veitir einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu. Markmið og tilgangur Bergsins er að veita lágþröskulda aðgengi fyrir ungt fólk á aldrinum 12–25 ára að ráðgjöf og hjálp við þeim vanda sem þau glíma við. Bergið veitir ungmennum stuðning við að vinna úr sínum málum á forsendum þeirra og er markmiðið að ungmenni öðlist betri líðan og auki virkni sína í daglegu lífi í skóla eða vinnu. Bergið veitir óskilgreint aðgengi að stuðningi, ungmenni þarf ekki ástæðu, þarf ekki greiningu eða tilvísun og þjónustan er þeim að kostnaðarlausu.

Fjölsmiðjan á höfuðborgarsvæðinu, Kópavogi
Markmið Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu er að styrkja félagslega færni og efla einstaklinga í persónulegum vexti. Lögð er áhersla á að þeir nemar sem hefja störf/þjálfun í Fjölsmiðjunni fari þaðan sem sterkari einstaklingar, félagslega, námslega og hæfari á vinnumarkað. Fjölsmiðjan er úrræði fyrir ungmenni á aldrinum 16–24 ára. Á deildum Fjölsmiðjunnar eru starfsmenn sérmenntaðir í þeirri grein sem nemarnir fá kennslu og þjálfun í. Árið 2020 fékk Fjölsmiðjan viðurkenningu framhaldsfræðsluaðila frá Menntamálastofnun og geta því nemar sem þess óska sótt nám í ákveðnum bóklegum greinum á 1. þrepi samhliða störfum á deildum og þar með blandað saman starfsþjálfun, virkni og námi með aðstoð og eftirfylgni fagaðila. Hjá Fjölsmiðjunni er opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir ungt fólk sem glíma við heilsubrest sem hindrar þátttöku þeirra í námi eða starfi.

Fjölsmiðjan, Suðurnesjum
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16–24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Markmið Fjölsmiðjunnar er að hjálpa ungu fólki að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða í námi. Eitt höfuðverkefni Fjölsmiðjunnar er að auka virkni nemanna og fá þau til að brjóta niður múra óvirkni og félagslegrar einangrunar. Starfsemi Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum er með öllu gjaldfrjáls þeim einstaklingum sem njóta þjónustu hennar.

Grófin geðverndarmiðstöð, Akureyri
Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta. Markmið Grófarinnar eru m.a. að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata, þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér. Grófin er geðræktarstaður, opið, gjaldfrjálst úrræði fyrir fólk 18 ára og eldri, sem hefur upplifað geðræna erfiðleika og vill vinna að bata, með jafningjum í samvinnu við fagfólk Grófarinnar og reynda notendur. Grófin er einnig vettvangur fyrir aðstandendur og annað áhugafólk um geðrækt og geðheilbrigði.

Hlutverkasetur, Reykjavík
Hlutverkasetur veitir, alla virka daga vikunnar, opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra. Hlutverkasetur er virknimiðstöð. Staðurinn er öllum opinn og taka einstaklingar þátt af eigin forsendum. Staðurinn býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin. Sumir nýta staðinn sem hluta af starfsendurhæfingu aðrir til að viðhalda virkni og/eða vinna gegn félagslegri einangrun. Starfsmenn Hlutverkaseturs eru iðjuþjálfar, listkennarar og starfsfólk með notendareynslu.

Hugarafl - notendastýrð starfsendurhæfing, Reykjavík
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Einstaklingar sem stunda endurhæfingu hjá Hugarafli getur sótt liði á dagskrá sem styðja við bataferli viðkomandi og síðar unnið að auknum tækifærum í samfélaginu, s.s. skólagöngu, atvinnu eða auknum lífsgæðum, ásamt því að fá stuðning hjá starfsmönnum Hugarafls. Fimm daga vikunnar er metnaðarfull dagskrá í boði og á hverjum fimmtudegi er haldin opinn kynning fyrir gesti og nýliða sem áhuga hafa á starfsseminni. Þátttaka í starfsemi Hugarafls er gjaldfrjáls og er fyrir alla, 18 ára og eldri, sem hafa áhuga á að vinna í geðheilsu sinni á eigin forsendum.

Styrktarfélag Klúbbsins Geysis, Reykjavík
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Félagar í klúbbnum vinna samkvæmt skipulögðum vinnudegi og bera sameiginlega ábyrgð á rekstrinum með starfsfólki hans. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði. Mæting er frjáls og ekki háð neinum takmörkunum utan þess sem félagar eru tilbúnir að undirgangast.

Klúbburinn Strókur, Selfossi
Klúbburinn Strókur er virkniúrræði sem hefur þau markmið að styðja við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins, að fólk með geðræn vandamál fái úrræði við sitt hæfi, auka tengsl fólks sem glímir við geðraskanir og/eða félagslega einangrun og efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, fyrirbyggja innlagnir og brjóta niður fordóma. Engar kvaðir eru lagðar á félaga klúbbsins og enginn kostnaður fylgir því að ganga í klúbbinn eða að taka þátt í þeim virkniúrræðum sem í boði eru 4 daga vikunnar.

Hjálparstarf kirkjunnar, Reykjavík
Um er að ræða tveggja ára virkni- og valdeflingarverkefni fyrir konur sem eru á örorkulífeyri með barn/börn á framfæri. Markmið verkefnisins eru að þátttakendur bæti sjálfsmynd og trú á eigin getu, eflist í foreldrahlutverkinu og efli félagslegt tengslanet sitt svo koma megi í veg fyrir félagslega einangrun. Einnig að bæta félagsnet þátttakenda, virkja þær og kenna þeim til að vera virkar í samfélagsþátttöku með það markmiði að þær komist út á vinnumarkaðinn. Verkefnið er þátttakendum algjörlega að kostnaðarlausu en eingöngu konur sem eru á örorku fá boð um þátttöku. Yfirgripsmikil dagskrá er í boði í gegnum allt verkefnið og geta þátttakendur sótt ýmsa virkni oft í viku auk þess sem þátttakendur hafa aðgengi að félagsráðgjöfum Hjálparstarfsins.

Rauði krossinn - Vin, Reykjavík
Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og rekið sem fræðslu- og batasetur. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr endurinnlögnum á geðdeildir og efla þekkingu á málefnum fólks með geðfötlun. Lögð er áhersla á að virkja notendur til þátttöku í starfsemi athvarfsins og ákvarðanatöku og í boði eru ýmis námskeið og einnig einstaklingsmiðuð aðstoð. Vin er starfrækt alla virka daga og er aðgangur að athvarfinu með öllu gjaldfrjáls sem og öll þau námskeið, fundir eða önnur virkni og bataúrræði sem eru á dagskrá.

Nánar um styrki VIRK.


Fréttir

14.01.2025
19.12.2024

Hafa samband