Fara í efni

Styrkir VIRK vor 2018

Til baka

Styrkir VIRK vor 2018

VIRK veitir styrki tvisvar á ári til virkniúrræða, rannsókna- og þróunarverkefna en VIRK er heimilt samkvæmt lögum 60/2012 að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu m.a. með styrkveitingum.

Ákvarðanir um styrkveitingar eru teknar af framkvæmdastjórn VIRK að fenginni umsögn frá sérfræðingum sjóðsins. 12 aðilar hlutu styrk að þessu sinni.

Rannsóknarverkefni

Steinunn Hrafnsdóttir og Ásta Snorradóttir: Vinnustreita og kulnun félagsráðgjafa á Íslandi.
Markmið rannsóknarinnar er að leggja mat á áhættuþætti streitu hjá öllum starfandi félagsráðgjöfum á Íslandi. Skoða á hjá þeim hvaða þættir það eru helst sem valda streitu, hverjir eru í mestri hættu á viðvarandi streitu og þar með í hættu á heilsutjóni, kulnun í starfi og fjarvistum frá vinnu. Um er að ræða bæði megindlega og eigindlega rannsókn.

Þróunarverkefni

Heilsuborg: Streitulausnir; námskeið í Heilsuborg sem hentar sérstaklega fyrir einstaklinga sem glíma við væg til alvarlega einkenni streitu.
Styrkurinn er veittur til þróunar á nýju úrræði í starfsendurhæfingu sem hentar einstaklingum sem eru að glíma við afleiðingar langvarandi streituálags á andlega og líkamlega heilsu. Verkefnið er þróað í samstarfi við Ingibjörgu Jónsdóttur við Institut for Stressmedicin í Gautaborg. Markmiðið er að auka skilning og eigin sýn þátttakenda á áhrifum langvarandi streituálags á heilsu, benda á leiðir til að draga úr hamlandi streitueinkennum og bæta þannig líðan og auka starfsgetu.

Félag áhugafólks um tölvu- og netfíkn: Meðferðarúrræði við tölvu- og netfíkn.
Styrkurinn er veittur til þróunar á úrræði sem hjálpa á einstaklingum að losna úr viðjum tölvu- og netfíknar. Þeir einstaklingar sem ánetjast eru oftar en ekki með litla virkni í námi eða starfi eða þá að tölvunotkunin hefur leitt til stöðvunar náms og taps á starfsgetu eða jafnvel starfinu sjálfu. Stefnt er að því að þetta meðferðarúrræði verði gjaldfrjálst og það verði fjármagnað með styrkjum.

Rauði krossinn á Íslandi: Karlar í skúrum
Verkefnið Karlar í skúrum er byggt á írskri fyrirmynd „Men´s Shed“ en það byrjaði í Ástralíu fyrir um tuttugu árum síðan. Markhópur verkefnisins eru karlmenn 18 ára og eldri sem standa utan vinnumarkaðarins, geta ekki unnið af einhverjum ástæðum eða þeir sem náð hafa ellilífeyrisaldri en geta og vilja ennþá leggja sitt af mörkum. Markmið verkefnisins er að bjóða karlmönnum upp á þátttöku í samfélagi sem er skipulagt í kringum iðju sem þeir hafa áhuga á. Draga úr félagslegri einangrun, auka tengslanet þeirra sem sækja úrræðið og stuðla að vellíðan og bættri heilsu.

Virkniúrræði

Rauði krossinn - Virkniúrræðið Vin
Virkniúrræðið Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir, rekið af Rauða krossinum í Reykjavík sem fræðslu- og batasetur ásamt velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr endurinnlögnum á geðdeildir og efla þekkingu á málefnum fólks með geðfötlun. Öflugt samstarf er við önnur geðúrræði, geðdeildir og þátttaka í Geðhjálp er lykilatriði í því að kynna starfsemina og efla samstarf. Vin er starfrækt alla virka daga frá 9–16 og er aðgangur að athvarfinu með öllu gjaldfrjáls sem og öll þau námskeið, fundir eða önnur virkni og bataúrræði sem eru á dagskrá.

Styrktarfélag Klúbbsins Geysi
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Allir sem eiga eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða geta orðið félagar í Klúbbnum Geysi. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði og eru engin gjöld innheimt af félögum í klúbbnum vegna rekstrar hans né annarra þátta sem snúa að endurhæfingunni. Öll vinna félaga í klúbbnum er unnin í sjálfboðavinnu.

Hlutverkasetur - AE Starfsendurhæfing
Hlutverkasetur er opið alla virka daga vikunnar og veitir opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra. Hlutverkasetur er virknimiðstöð og er öllum opinn og taka einstaklingar þátt á eigin forsendum. Boðið er upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin.

Geðræktarmiðstöðin Batasetur Suðurlands
Geðræktarmiðstöðin Batasetur Suðurlands hefur verið starfrækt á Selfossi síðan 2015. Batasetrið er opið öllum þeim sem vilja brjótast út úr félagslegri einangrun og bæta líðan og auka lífsgæði sín og koma notendur allstaðar að af Suðurlandi. Í dag er opið þrjá daga í viku og er starf Batasetursins byggð á jafningjagrundvelli og mótað af notendunum sjálfum. Batasetrið er alfarið rekið á styrkjum og allt starf Batasetursins er notendum að kostnaðarlausu.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16–24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Markmið hennar er að hjálpa ungu fólki að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þeirra í atvinnulífinu eða í námi. Starfsemin er gjaldfrjáls og opin alla virka daga.

Hugarafl, notendastýrð starfsendurhæfing.
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Hugarafl býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf og er öll þjónusta Hugarafls notendum að kostnaðarlausu. Einstaklingar sem stunda endurhæfingu hjá Hugarafli getur sótt námskeið á dagskrá sem styðja við bataferli viðkomandi.

Styrktarfélag klúbbsins Stróks
Klúbburinn Strókur hefur það að markmiði að styðja við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins og að fólk með geðræn vandamál fái úrræði við sitt hæfi. Einnig er markmið Stróks að auka tengsl fólks sem glímir við geðraskanir og/eða félagslega einangrun, efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, fyrirbyggja innlagnir, efla samskipti fólks með geðræn vandamál og brjóta niður fordóma. Klúbburinn Strókur hefur verið starfræktur frá árinu 2005 og er þjónustusvæði hans Árnessýsla, Rangárþing og V-Skafafellssýsla. Klúbburinn er öllum opinn og engar kvaðir eru lagðar á félaga hans. Opið er 4 daga vikunnar og er öll þjónustan notandanum að kostnaðarlausu.

Björgin Geðræktarmiðstöð Suðurnesja
Björgin Geðræktarmiðstöð Suðurnesja er grunnendurhæfingarúrræði og athvarf fyrir fólk með geðheilsuvanda. Þjónusta miðar að því að bæta þjónustu í heimabyggð við einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda og til að rjúfa félagslega einangrun. Lykilstarfsemi Bjargarinnar er athvarf með reglubundinni daglegri iðju, félagslegum stuðningi, hópastarfi, samveru og þátttöku. Björgin er opin alla virka daga, allan ársins hring og öll þjónusta þar er notendum að kostnaðarlausu.

Framkvæmdastjórn VIRK úthlutar styrkjum tvisvar á ári, að hausti og vori, og umsóknarfrestur vegna styrkveitinga haust 2018 rennur út 15. ágúst 2018. Nánari upplýsingar, stefnur og reglur varðandi umsóknir á styrkjum til VIRK og umsóknareyðublöð má sjá hér. 


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband