Fara í efni

Styrkveitingar VIRK vor 2017

Til baka

Styrkveitingar VIRK vor 2017

VIRK veitir styrki tvisvar á ári til virkniúrræða, rannsókna- og þróunarverkefna en VIRK er heimilt samkvæmt lögum 60/2012 að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu m.a. með styrkveitingum. Ákvarðanir um styrkveitingar eru teknar af framkvæmdastjórn VIRK að fenginni umsögn frá sérfræðingum sjóðsins. 

Tíu aðilar hlutu styrk í maí. Sérstaklega var horft til virkniúrræða miðuðum að ungu fólki og til rannsóknar- og þróunarverkefna tengdu ungu fólki í styrkveitingum VIRK nú m.a. vegna þess að hlutfall yngra fólks meðal einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK hefur farið vaxandi undanfarin tvö ár.

Rannsóknarstyrki hlutu neðangreindir:

Janus endurhæfing/Kristín Siggeirsdóttir. Áhrif starfsendurhæfingar á heilsutengd lífsgæði ungra þátttakenda með greinda geðræna sjúkdóma.
Um er að ræða rannsókn á gögnum í gagnagrunni Janus endurhæfingar. Rannsaka á hvaða áhrif starfsendurhæfing hefur á heilsutengd lífsgæði ungra einstaklinga með greinda geðræna sjúkdóma. Skoða á hvort hópurinn hafi tilhneigingu til ákveðinna breytinga í heilsutengdum lífsgæðum á meðan á endurhæfingu þeirra stendur.

Ásta Snorradóttir. Hindranir og tækifæri á vinnumarkaði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu.
Í rannsókninni verður stuðst við eigindlegar rannsóknaraðferðir þar sem taka á djúpviðtöl við atvinnurekendur. Markmiðið með rannsókninni er að kanna viðhorf stjórnenda til: að ráða til sín starfsfólk með skerta starfsgetu, að halda starfsfólki með skerta starfsgetu í starf og að stuðla að endurkomu starfsfólks með skerta starfsgetu í vinnu í kjölfar veikinda.

Þróunarstyrki hlutu neðangreindir:

Orri Smárason. Lifðu betur
Styrkurinn er veittur til þróunar á SAM eða Sáttar og atferlismeðferð á netinu og fyrir hönnun og uppsetningu á vefsíðu. Á vefsíðunni verða námskeið í SAM þar sem aðferðafræðin er kennd með skýringarmyndböndum, fyrirlestrum , lesefni og æfingum. Námskeiðin eru sjálfsnám óháð stað og stund. Stuðningur við þátttakendur er veittur með rafrænum hætti.

Góð líðan ehf. Gagnleg hugsun - góð líðan. Sálfræðiþjónusta á netinu byggð á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.
Styrkurinn er veittur til þróunar á sérstakri vefsíðu „Gagnleg hugsun.is“ sem býður upp á sálfræðimeðferð á netinu byggða á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar eða HAM. Meðferðin mun samanstanda af 6–10 lotum og munu heimaverkefni fylgja hverri lotu sem sálfræðingur mun yfirfara og veita endurgjöf í gegnum netið. Markmiðið er að fólk læri að tileinka sér tæki og tól hugrænnar atferlismeðferðar til þess að öðlast betri líðan.

Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar. Hvati
Styrkurinn er veittur til þróunar á starfsendurhæfingarúrræði sérsniðnu að ungu fólki. Þarfagreining verður gerð með markhópum, rýni á fræðigreinum og gerð verður framkvæmdar- og kostnaðaráætlun fyrir verkefnið.

Kristinn Tómasson. Heilsutengd lífsgæði
Styrkurinn er veittur til uppbyggingar á nýrri vefsíðu sem hýsa mun íslenska mælitækið Heilsutengd lífsgæði. Vefsíðan býður endurhæfingarstöðvum/-stofnunum, fræðimönnum og fagaðilum sem óskuð eftir því útreiknaðar niðurstöður íslenska mælitækisins heilsutengd lífsgæði en svörin eru stöðluð miðað við svör 4000 heilbrigðra fullorðinna íslendinga af báðum kynjum.

Styrki til virkniúrræða hlutu neðantaldir:

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum
Fjölsmiðjan á Suðurnesjum er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16 – 24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Markmið hennar er að hjálpa ungu fólki að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þeirra í atvinnulífinu eða í námi. Starfsemin er opin alla virka daga og er stærsti verkþátturinn rekstur nytjamarkaðarins Kompunnar en einnig fer þar fram brettasmíði, mötuneyti fyrir starfsmenn, rekstur sendibíls og smiðaverkstæði. Auk þess sjá ungmennin um þrif og umsón með húsakynnum Fjölsmiðjunnar.

Batasetur Suðurlands
Batasetur vinnur að því að styrkja sjálfsmynd fólks, gera markmið og skipuleggja líf sitt á ný. Batasetur Suðurlands er með starfsemi 3 daga vikunnar, opið öllum og er þjónustan að öllu leyti gjaldfrjáls. Einstaklingum stendur til boða m.a. að sækja ýmis námskeið eins og virknihóp fyrir ungt fólk, skapandi smiðjur, sjálfstyrkingarnámskeið og meðvirknihópa.

Hugarafl, notendastýrð starfsendurhæfing
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Hugarafl býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf.

Styrktarfélag klúbbsins Geysis
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Allir sem eiga eða hafa átt við geðræn veikindi að stríða geta orðið félagar í Klúbbnum Geysi. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði og öll vinna félaga í klúbbnum er unnin í sjálfboðavinnu.

Framkvæmdastjórn VIRK úthlutar styrkjum tvisvar á ári, að hausti og vori, og umsóknarfrestur vegna styrkveitinga haustið 2017 rennur út 15. ágúst 2017. Nánari upplýsingar, stefnur og reglur varðandi umsóknir á styrkjum til VIRK og umsóknareyðublöð má sjá hér.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband