Fara í efni

Stolt af afrekum mínum

Til baka

Stolt af afrekum mínum

Í júní 2012 leitaði Eygló Sigurðardóttir samstarfs við ráðgjafa VIRK í kjölfar erfiðra veikinda. Hún er Snæfellingur að ætterni en býr nú á Akureyri, þar sem hún stundaði sjúkraliðanám í tvö ár í Verkmenntaskóla Akureyrar.

„Ég lauk bóklega náminu í maí 2012 en hef ekki ennþá náð að ljúka starfsnáminu vegna veikinda sem ég hef átt við að stríða frá því í febrúar 2012,“ segir Eygló.

„Ég varð flogaveik í kjölfar slyss og vegna álags og streitu ágerðust veikindi mín mjög í byrjun síðasta árs. Þá fékk ég tvisvar slæmt krampakast. Það síðara svo slæmt að ég var lögð á sjúkrahúsið hér fyrir norðan og þar héldu krampaköstin áfram að koma með stuttu millibili í tvo og hálfan sólarhring. Svona löng og tíð köst eru gífurlegt álag á líkamann. Ég var því illa á mig komin þegar lyfin fóru loks að virka. Sem betur fer voru ekki öll krampaköstin Grand Mal, sem þýðir í raun að ekki voru öll köstin tengd við heilann, heldur bara sum. Ég var á gjörgæslu fyrstu fjóra sólarhringanna. Eftir að tókst að hemja krampaköstin var ég á almennri deild í viku.“

Hvaða áhrif höfðu þetta slæma veikindakast á líf þitt?
„Þegar ég kom heim eftir sjúkrahúsdvölina kom í ljós að hjónabandi mín var lokið. Það var gífurlegt áfall. Ég varð því allt í einu ein með börn mín þrjú og afar slæm til heilsunnar. Ég var líka mjög ósátt við að láta það nám sem ég var langt komin með enda þarna. Ég harkaði því af mér og fór í skólann mánuði eftir að heimkomuna, þó ég  gæti það varla. Ég lauk bóknáminu með stakri prýði, og er satt að segja mjög stolt af því.“

Hvað varð til þess að þú sóttist eftir að komast í samstarf við VIRK?
„Eftir að náminu lauk og prófin voru búin þá varð ákveðið spennufall hjá mér. Ég áttaði mig á að ég gæti ekki farið að vinna eins og ég hafði auðvitað hugsað mér. Líkaminn var enn afar veikburða eftir krampana og andleg heilsa slæm eftir áfallið sem skilnaðurinn olli mér. Ég fann að ég var ófær til starfa. Ég fór því til heimilislæknisins míns ráðþrota vegna mikilla verkja og andlegrar vanlíðunar og leitaði ráða. Hann sagði mér frá VIRK. Ég er í stéttarfélaginu Einingu-Iðju og fékk í framhaldi af viðtalinu við lækninn tíma hjá ráðgjafa.“

Og hvað gerðist í framhaldi af því?
„Ég fór í viðtalið og í ráðgjafinn benti  mér fljótlega á Kvennasmiðjuna, sem er úrræði á vegum Starfsendurhæfingar Norðurlands. Ég notfærði mér þetta úrræði og fór jafnframt á vegum VIRK til sjúkraþjálfara. Auk þess fékk ég sálfræðiaðstoð. Það var mér mjög mikilvægt og nauðsynlegt á þessum tíma.“

Hvernig voru aðstæður þínar á þessum tímapunkti?
„Þær voru bágbornar. Ég hafði ekki vinnu og af því leiddi ekki þá peningainnkomu sem ég þurfti. Ráðgjafi VIRK hjálpaði mér að sækja um endurhæfingarlífeyri, sótt er um slíkan styrk í þrjár mánuði í einu. Ég fékk þennan lífeyri og það bjargaði stórum hluta í aðstæðum mínum. En annað var horfið sem ég átti erfitt með bæta mér upp, það voru vinir og fjölskylda sem ég hafði áður átt en missti við skilnaðinn. Mér leið eins og ég væri einsömul í lífinu og olli sú tilfinning mér gífurlegum kvíða og vanlíðan. Sem betur fer á ég góða systur hér fyrir norðan og frænku, sem einnig er besta vinkona mín. Þær voru haldreipi mitt á þessum tíma. Ég hélt líka börnunum mínum, þau voru þá 5, 9 og 12 ára. Ég varð að halda mér uppi til þess að sinna þeim og mér tókst það.“

Hvenær fór að rofa til hjá þér?
„Í Kvennasmiðjunni kynntist ég frábærum konum og enn betri ráðgjöfum og stuðningsaðilum. Ég eignaðist þar líka mjög góða vinkonu. Eftir að hafa farið í gegnum stuðningsprógramm Kvennasmiðjunnar, sem tók á andlegri og líkamlegri líðan,  tók við annað ferli,  ETNA hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands, sem er einkum líkamlegt endurhæfingarúrræði en þó auðvitað með andlegum stuðningi líka. Í ETNU hófst rækilegt endurhæfingarferli sem fólst í  m.a. stífri líkamsrækt hjá sjúkraþjálfara, auk viðtala og nokkurra námskeiða. Þar var t.d. farið í að búa til ferilskrá, tala fyrir framan fólk og fleira gert sem miðar að því að byggja upp sjálfsmyndina.“

Hvaða markmið settir þú þér?
„Að ég skyldi verða verkjalítil. Ég þorði ekki að setja mér það markmið að verða verkjalaus, ég trúði ekki að það gæti ég orðið. Ég beindi allri orku minni í að sinna daglegum skyldum mínum við börnin og heimilisstörfum. En markmiðið var að reyna að ná þeirri færni að geta gert meira en þetta, farið t.d. með börnin út að ganga og gera annað þeim til skemmtunar. Ég var á þessum tíma svo illa haldin að ég gat slíkt varla nema að fá mikla verki og vera lengi að ná mér. Annað þýðingarmikið markmið setti ég mér, - að komast út á vinnumarkaðinn áður en árið 2013 rynni á enda.“

Hvernig hefur þér tekst að ná þessu markmiðum?
„Núna er ég svo gott sem verkjalaus og farin að vinna. Ég get sinnt öllum mínum daglegum skyldum og störfum og gott betur en það. Ég vinn núna fullt starf í Lundaskóla sem aðstoðarmatráður. Og ég var svo lánsöm að kynnast yndislegum manni á þessu ári, sem styður mig og stendur við bakið á mér eins og klettur. Það er auðvitað mikilvægt en mun mikilvægara er þó að ég hef sjálf komið mér til heilsu og starfa og er mjög stolt af afrekum mínum á því sviði.

Ráðgjafinn minn studdi mig mjög vel og ég væri ekki í þeim sporum sem ég er nú, ef starfsemi VIRK og Starfsendurhæfingar Norðurlands hefði ekki notið við. Ég hef í raun náð öllum markmiðum sem ég setti mér í ferlinu. Mitt persónulega markmið er þó enn óuppfyllt. Ég vil fá vinnu sem sjúkraliði til að geta útskrifast, en það er ekki mikið í boði á því sviði. Mér bauðst hinsvegar vinnan í Lundaskóla sem ég þáði með þökkum og gengur vel að sinna.

Ég er nú útskrifuð frá VIRK og Starfsendurhæfingu Norðurlands og er einstaklega þakklát fyrir það góða starf sem þar er unnið af yndislegu fólki. Ég er og verð ávallt mjög þakklát fyrir að hafa kynnst því. Með þess hjálp get ég verið fullkomlega sátt og ánægð með aðstæður mínar í dag.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir.

 

 


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband