Starfsmenn og ráðgjafar VIRK
Til baka
01.03.2012
Starfsmenn og ráðgjafar VIRK
Í byrjun árs 2012 störfuðu á skrifstofu VIRK 16 starfsmenn í ríflega 13
stöðugildum. Um er að ræða fjölbreyttan hóp sérfræðinga á mismunandi fagsviðum auk starfsmanna á skrifstofu og við
bókhald og umsýslu fjármála. Hér á heimasíðunni má sjá upplýsingar um starfsmenn VIRK.
Í byrjun ársins 2012 störfuðu 34 ráðgjafar í um 29 stöðugildum á vegum VIRK fyrir stéttarfélög um allt land. Lista
yfir alla ráðgjafa VIRK er að finna hér.
Í heild starfa því um 50 einstaklingar á vegum VIRK annað hvort sem starfsmenn eða ráðgjafar hjá stéttarfélögum um allt
land. Umfangið hefur því vaxið mikið og kallað á breytta skipulagningu á ábyrgðarsviðum og verkefnum starfsmanna.
Nýtt skipurit VIRK var samþykkt á haustmánuðum 2011 en myndin hér að neðan inniheldur lýsingu á því.
Þjónusta VIRK skiptist í tvö meginsvið, annars vegar Starfsendurhæfingarsvið sem ber ábyrgð á
starfsendurhæfingarþjónustu gagnvart einstaklingum og hins vegar Fyrirtækjasvið sem ber ábyrgð á þjónustu gagnvart stjórnendum og
fyrirtækjum og heldur utan um þróunarverkefnið „Virkur vinnustaður en nánari upplýsingar um það má finna hér á heimasíðunni.
Ráðgjafar VIRK eru ráðnir til starfa af stéttarfélögum um allt land með aðstoð sérfræðinga VIRK. Gerðar eru miklar
kröfur til bæði menntunar og reynslu ráðgjafa og eru þeir langflestir með háskólamenntun og meirihluti þeirra hefur jafnframt
meistaragráðu í sínu fagi. Þeir fá auk þessa mikla fræðslu og þjálfun bæði hjá sérfræðingum
VIRK og öðrum fagaðilum. Sem dæmi um menntun ráðgjafa má nefna sjúkraþjálfun, hjúkrunarfræði,
iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, náms- og starfsráðgjöf, sálfræði og margt fleira.
Hlutverk ráðgjafa er fyrst og fremst að hvetja einstaklinga og aðstoða þá við að endurheimta og efla starfsgetu til aukinnar
þátttöku á vinnumarkaði. Allir ráðgjafar vinna í samræmi við vinnuferla og verklagsreglur VIRK og allir ráðgjafar hafa
stuðning af fjölbreyttum hópi sérfræðinga VIRK og geta auk þess leitað til þverfaglegs teymis sem kemur að sérhæfðu mati á
getu og möguleikum einstaklinga. Til viðbótar við þetta eru ráðgjafar í samstarfi við mikinn fjölda úrræðaaðila og
sérfræðinga sem veita sérhæfða þjónustu á sviði starfsendurhæfingar.
Allir ráðgjafar skrá upplýsingar inn í upplýsingakerfi VIRK og þess er gætt að farið sé að lögum og reglum um
persónuvernd. Hjá VIRK er í uppbyggingu gæðakerfi þar sem reglulega er fylgst með framgangi og árangri í störfum ráðgjafa
og þess gætt að þeir vinni í samræmi við verklags- og vinnureglur.
Starfsmenn og ráðgjafar VIRK eru fjölbreyttur og öflugur hópur sem hefur mikinn metnað til að byggja upp starfsemi sem er til fyrirmyndar og skilar
árangri fyrir bæði einstaklingana sem sækja til okkar þjónustu, vinnumarkaðinn og samfélagið í heild sinni. Mótuð hafa
verið gildi starfsmanna og ráðgjafa VIRK og eru þau eftirfarandi:
Fagmennska
• Við búum yfir þekkingu, færni og reynslu
• Við erum áreiðanleg
• Við leggjum áherslu á trúnað, öryggi og traust
Virðing
• Við berum virðingu fyrir sjálfum okkur og samferðarfólki okkar
• Við leggjum áherslu á samvinnu og samstarf í öllum verkefnum
• Við erum sveigjanleg
• Við leggjum áherslu á umburðarlyndi og auðmýkt
Metnaður
• Við höfum kraft og hugrekki til að fara nýjar leiðir
• Við sýnum frumkvæði og framsækni
• Við lærum af reynslunni og viljum stöðugt gera betur