Fara í efni

Söðlaði um eftir atvinnumissi

Til baka

Söðlaði um eftir atvinnumissi

,,Það var hræðileg lífsreynsla að missa vinnuna og ég brotnaði alveg niður. Ég hef aldrei áður lent í því að vera sagt upp. Ráðgjafi Starfsendurhæfingarsjóðs, eða VIRK, stappaði hins vegar í mig stálinu og kenndi mér hvernig ég gæti sjálf byggt mig upp og horft á það jákvæða í lífinu í stað þess að einblína á neikvæðu atriðin.“

Þetta segir Lovísa Guðnadóttir sem í desember 2009 fékk uppsagnarbréf frá Bónus í Hveragerði ásamt annarri starfskonu. ,,Ég hafði starfað hjá Bónus í Hveragerði og á Selfossi  í samtals 5 ár. Við vorum báðar með mestu starfsreynsluna en skýringin sem við fengum á uppsögninni var sú að búðin bæri okkur ekki.“

Lovísa kveðst hafa ætlað að vinna uppsagnartímann sem var 3 mánuðir. ,,Mér var það hins vegar alveg ómögulegt. Ég gerði tilraun til þess en gat það ekki vegna vanlíðunar. Ástand mitt var verulega slæmt vegna áfallsins sem ég fékk við atvinnumissinn.“

Að sögn Lovísu fékk hún læknisvottorð vegna áfallsins og hún hafði í hyggju að fara til sálfræðings eins og samstarfskona hennar hafði  strax gert. ,,Ég var það félítil að ég gat það ekki alveg strax en svo fékk ég fjárhagslega aðstoð hjá stéttarfélaginu mínu til þess að geta greitt fyrir nokkra tíma hjá sálfræðingi.“

Sá hlutina í öðru ljósi
Það var svo skömmu eftir að nýtt ár var gengið í garð sem Lovísa hafði samband við  Ágústu Guðmarsdóttur, ráðgjafa Starfsendurhæfingarsjóðs á Suðurlandi.  ,,Ég vissi af starfsemi sjóðsins en sú  starfsemi var ekki það fyrsta sem kom upp í huga minn eftir atvinnumissinn. En þegar heimilislæknirinn minn benti mér á þá þjónustu sem er í boði hjá Starfsendurhæfingarsjóði hafði ég samband við Ágústu og mér fannst gott að fá ráð hjá henni,“ greinir Lovísa frá.

,,Hún studdi mig afskaplega vel og við fórum saman yfir mína stöðu frá a til ö. Mér fannst á þessum tíma sem það væri bara svartnætti framundan en  Ágústa opnaði augu mín fyrir því að það væri mögulegt að skipta um starfsvettvang. Ég fór að horfa á hlutina í öðru ljósi en ég hafði gert og sá fyrir mér að ég gæti fengist við ýmislegt.  Ég vildi þó fyrst og fremst komast strax í vinnu og svo yrði framhaldið að ráðast.“

Lovísa var þó ekki alveg nógu vel á sig komin til þess að byrja að sækja um nýtt starf af fullum krafti, að því er hún greinir frá. ,,Ég spurðist samt fyrir hér og þar en atvinnuástandið var afar slæmt. Það var til dæmis verið að segja fólki upp í Krónunni á Selfossi á þessum tíma. Það lá ekkert á lausu en ég hélt samt áfram að reyna að halda uppi fyrirspurnum. Smátt og smátt hresstist ég og varð tilbúin til þess að takast á við hlutina.“

Söðluðu um
Eiginmaður Lovísu hafði verið atvinnulaus frá því að byggingabransinn hrundi og þau sáu fram á áframhaldandi atvinnuleysi á Suðurlandi.  Þau ákváðu þess vegna að söðla um og leita fyrir sér annars staðar.

 ,,Ég er frá Hornafirði og  þess vegna leitaði ég að vinnu á þeim slóðum þegar ég var orðin hressari. Ég skrifaði verslunarstjóranum í Nettó á Höfn og hann sagði að ég gæti fengið vinnu þar. Það var tekið mjög  vel á móti mér og hér er gott að vera. Maðurinn minn fékk líka vinnu og hefur starfað við akstur en það var þó nokkurra mánaða hlé á þeirri vinnu í vetur.“

Lovísa segist horfa björtum augum til framtíðarinnar. ,,Það er ekki hægt annað núna. Maður verður að horfa fram á veginn og manni lærðist að það var ekkert annað í stöðunni. Það er líka gott að breyta til. Hér á Höfn er einnig tækifæri til þess að mennta sig í kvöldskóla ef maður vill það. Ráðgjafi Starfsendurhæfingarsjóðs hvatti mig til þess að kanna alla möguleika og það ætla ég að gera.“

 


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband