Rannsóknir varðandi endurkomu til vinnu (ETV)
Rannsóknir varðandi endurkomu til vinnu (ETV)
Heilbrigðisstarfsfólk gegnir mikilvægu hlutverki í „endurkomu til vinnu“ (ETV) fyrir fólk sem á við heilsuvanda að stríða og
viðhorf þess og leiðbeiningar hafa afgerandi áhrif á bæði einstaklinga og fyrirtæki.
Mikil umræða hefur verið erlendis og hér heima vegna langtíma veikindavottorða lækna og þær takmarkanir sem þau leggja á fólk
vegna endurkomu til vinnu.
Rannsakendur í Kanada vildu skilja ástandið betur og gerðu samanburðarrannsókn þar sem allir meðferðaraðilar mátu sömu þrjá
einstaklingana með tilliti til endurkomu til vinnu.
Það var áhugavert að sjá þegar um var að ræða hreina læknisfræðilega ástæðu svo sem beinbrot að flestir voru sammála um hvernig ætti að höndla vottorð um endurkomu til vinnu. Hinsvegar ef vandinn var flóknari til dæmis við að meta áhrif bakverks á vinnugetu þá var samræmi milli mats þessara þrjátíu og sex heilbrigðisstarfsmanna miklu minna og einungis 55% voru sammála um hvernig haga bæri endurkomu til vinnu.
Algengast var að þeir ráðleggðu vinnuaðlögun og breytingu á starfsskyldum til að auðvelda endurkomu til vinnu. Um helmingur
heilbrigðisstarfsmannanna byggði afstöðu sína nær eingöngu á læknisfræðilegu mati á ástandi einstaklingsins, en aðrir
tóku inn í viðhorf til vinnunnar og upplýsingar um hana, kvíða og hugarástand einstaklingsins ásamt öðrum þáttum.
Trú einstaklingsins á sjálfan sig og ástand sitt og hugmyndir hans um að vinnan muni gera það verra eru allt mikilvægir þættir sem
þarf að taka tillit til. Þessir þættir ættu hinsvegar ekki að hindra einstaklinginn í að fara aftur í vinnu, þá ætti frekar
að vinna með, með samræðum, leiðbeiningum og áhugahvetjandi samtölum til að auðvelda endurkomu til vinnu.
Ef einstaklingur getur farið aftur í vinnu, án þess að skaða sig, út frá læknisfræðilegum ástæðum, ætti hann
að gera það. Það er samstarfsverkefni atvinnurekandans, starfsmannsins og meðhöndlandi heilbrigðisstarfsmanns að tryggja að það gerist
þannig að það sé ávinningur fyrir alla.
Ofangreint er samantekt úr rannsókn sem birtist í Journal of Occupational Rehabilitation. 20(3):367-77, 2010 Sep. Undir heitinu „Do clinicians working within the
same context make consistent return-to-work recommendations?“ Höfundar vor: Ikezawa Y. Battie MC. Beach J. Gross D.