Ráðgjafinn var mín stoð og stytta
Ráðgjafinn var mín stoð og stytta
,,Það fór rosalega illa með sálartetrið í mér að detta úr vinnu og geta ekki staðið mína plikt. Ég vissi að aðrir yrðu þá bara að hlaupa hraðar á meðan ég væri frá og það var erfitt að hugsa til þess þar sem álagið á starfsfólk var mikið fyrir. Aðstoðin sem ég hef fengið hjá Starfsendurhæfingarsjóði til þess að vinna mig út úr þessu hefur hins vegar stappað í mig stálinu og verið ómetanleg.“
Það var þann 2. júní í fyrra sem Þórunn lenti í slysinu sem kippti henni út af vinnumarkaðnum um hálfs árs
skeið. ,,Ég fór á hjóli í blíðskaparveðri til þess að sækja bóndann í vinnuna og við ætluðum að
hjóla saman heim. Á leið yfir gangbraut á Kringlumýrarbrautinni fipaðist mér, kannski vegna þess að sólin skein á
umferðarljósin og ég sá ekki hvort það var enn grænt ljós eða komið rautt. Ég steyptist í götuna og fékk mikið
högg á höfuðið og alla hægri síðuna. Ég braut á mér olnbogann og tognaði illa í bak- og
lærvöðvum.“
Komin í hlutastarf
Ljóst var að Þórunn yrði frá vinnu í að minnsta kosti nokkrar vikur til að byrja með.
,,Það er hins vegar ennþá eitt og annað sem ég get ekki gert. Ég er núna í hlutastarfi þar sem ég er ekki búin að
fá fulla starfsorku. Ég fór í sjúkraþjálfun nokkrum vikum eftir slysið og er enn hjá sjúkraþjálfara,“ greinir
hún frá.
Þórunn er trúnaðarmaður á sínum vinnustað og hafði á trúnaðarmannanámskeiði kynnst starfsemi
Starfsendurhæfingarsjóðs. ,,Ég hafði sagt starfsfélögum frá aðstoðinni sem hægt væri að fá en þegar ég
varð að vera frá vinnu vegna slyssins mundi ég ekki eftir þessari aðstoð. Það var svo formaður Sjúkraliðafélags Íslands sem
hvatti mig til þess að nýta mér hana. Ég hafði samband við Starfsendurhæfingarsjóð síðastliðið haust og þar var
mér bent á að ræða við Soffíu Eiríksdóttur, ráðgjafa hjá BSRB, sem hefur verið mín stoð og stytta.“
Ráðgjafinn hvatti Þórunni til þess að ræða við sálfræðing um líðan sína og var það henni að
kostnaðarlausu . ,,Það hefur gert mér gott. Ég held að það sé nauðsynlegt að plástra sálina líka. Tilhugsunin um að
vera sjúklingur finnst mér skelfileg. Ég reyni allt til þess að öðlast fulla starfsorku á ný,“ segir Þórunn.
Hún var jafnframt hvött til þess að halda áfram í sjúkraþjálfun og byrja í sundleikfimi sem
Starfsendurhæfingarsjóður hefur einnig greitt. ,,Ég byrjaði í 40 prósenta vinnu þann 1. desember síðastliðinn og fór svo í
60 prósenta vinnu í janúar. Þetta reyndist mér hins vegar of erfitt með því prógrammi sem ég var í til þess að byggja
mig upp. Núna er ég í 50 prósenta vinnu. Það tekur bara tíma að ná sér eftir að hafa unnið við mikið álag og svo
fengið svona kjaftshögg.“
Afar þakklát
Þótt Þórunn væri sem trúnaðarmaður vön samskiptum við yfirmenn vegna starfsmannamála
kveið hún því svolítið að ræða við deildarstjóra og trúnaðarlækni um að fá að byrja í hlutastarfi.
,,Soffía ráðgjafi bauðst til þess að koma með mér í viðtalið og það var mér mikill styrkur. Deildarstjóri og
trúnaðarlæknir tóku beiðni minni um hlutastarf afar vel og ég er ánægð með það,“ greinir hún frá.
Það reyndist hins vegar erfiðara að koma aftur til starfa en Þórunn hafði gert ráð fyrir. ,,Ég vildi ólm komast aftur til vinnu en
þetta var dálítið erfitt. Ég hafði aldrei hlíft mér þegar taka þurfti á og það var alveg nýtt fyrir mér
að vera hálfgerður aumingi. Mér fannst vera pískrað í öllum hornum. Ég verð samt að hlusta á líkamann og byggja mig upp svo
ég komi aftur sem betri starfskraftur. Starfsendurhæfingarsjóður hjálpar mér til þess. Það skiptir náttúrlega miklu
máli að hjálpa starfsmönnum að komast sem fyrst til vinnu á ný. Ég er afar þakklát fyrir alla aðstoðina sem ég hef
fengið til þess.“