Fara í efni

Ráðgjafar VIRK

Til baka

Ráðgjafar VIRK

Á vegum VIRK starfa 48 ráðgjafar staðsettir hjá stéttarfélögum um allt land sem sjá m.a. um að byggja upp starfsendurhæfingaráætlanir einstaklinga með þverfaglegu teymi sérfræðinga hjá VIRK og í samvinnu við bæði viðkomandi einstakling og ýmsar stofnanir og fagaðila. Ráðgjafar VIRK eru með mikla reynslu og þjálfun í ráðgjöf og eru að stórum hluta með menntun á heilbrigðissviði.

Ráðgjafi VIRK hefur feril einstaklings með stefnu á vinnumarkað strax í fyrsta viðtali. Hann byrjar á upplýsingaöflun þar sem áherslan er á að nýta áhugahvetjandi samtal til að kortleggja stöðu einstaklings og hjálpa honum til að átta sig á styrkleikum sínum og hindrunum. Áherslan í öllu ferlinu er síðan lögð á að efla styrkleika viðkomandi einstaklings. Í fyrsta viðtali er einstaklingnum afhent dagbók sem hann er hvattur til að skrá daglega virkni sína í og leiðbeinir ráðgjafinn honum til að auka virknina eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni.

Ráðgjafinn setur upp endurhæfingaráætlun í starfsendurhæfingarferlinu í samvinnu við einstaklinginn og fagaðila á vegum VIRK. Hann fylgir síðan áætlunum eftir með því að panta og halda utan um viðeigandi úrræði auk þess sem ráðgjafinn tekur viðtal við einstaklinginn á tveggja til þriggja vikna fresti. Þannig er hann í miklum samskiptum við úrræðaaðila og fylgist með og styður einstaklinginn hvað varðar ástundun og virkni.

Gerð, framkvæmd og eftirfylgni áætlunar í starfsendurhæfingu krefst einnig samvinnu ráðgjafa við atvinnurekanda, heilsugæslu, aðra sérfræðinga, fulltrúa stéttarfélaga og sjúkrasjóða og Tryggingastofnun. Ráðgjafinn grípur inn í ef framfarir í ferli eru litlar eða ástundun ekki nægjanleg með viðeigandi aðgerðum og getur leitað til sérfræðinga VIRK ef þörf er á.

Hann styður einstaklinginn í gegnum matsferli VIRK í samvinnu við fagaðila. Í mörgum tilfellum kemur ráðgjafinn að því að setja upp vinnuprufur og styðja einstakling aftur á vinnumarkað í stigvaxandi þrepum. Rauði þráðurinn í öllu ferlinu er að viðhalda og/eða efla virkni til vinnu og varðveita vinnusamband ef það er til staðar eða efla tengingu við vinnumarkaðinn.

Hér má finna ráðgjafa VIRK.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband