Össur og Vista VIRKT fyrirtæki 2023
Össur og Vista VIRKT fyrirtæki 2023
Össur Iceland og Vista verkfræðistofa fengu viðurkenningu sem VIRKT fyrirtæki á ársfundi VIRK nýverið. Viðurkenningin var þá veitt í fyrsta sinn og verður veitt árlega héðan í frá.
Gott samstarf við fyrirtæki er grundvöllur farsællar atvinnutengingar þjónustuþega VIRK. Um 1600 fyrirtæki og stofnanir eru skráð í gagnagrunn VIRK og um 530 fyrirtæki og stofnanir eru í virku samstarfi við VIRK vegna atvinnutengingar.
Hugmyndir hafa verið uppi hjá atvinnulífstenglum VIRK um að veita þeim fyrirtækjum og stofnunum sem sinna samstarfinu sérlega vel og sýna samfélagslega ábyrgð, sérstaka viðurkenningu og hvetja þannig önnur fyrirtæki til góðra verka.
Á ársfundi VIRK 2023 varð hugmyndin að veruleika þegar Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri veitti Össur Iceland og Vista verkfræðistofu viðurkenninguna VIRKT fyrirtæki 2023.
„Góð samvinna við fyrirtæki skiptir öllu máli við að fjölga störfum og möguleikum á vinnumarkaði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Takk fyrir frábært samstarf og ykkar góða framlag í þessu mikilvæga verkefni,“ sagði Vigdís m.a. við þetta tilefni.
Að þessu sinni hlutu 13 fyrirtæki og stofnanir tilnefningu sem VIRKT fyrirtæki og atvinnulífstenglar VIRK færðu þeim blómvönd að því tilefni.