Mögulegt að fjölga hlutastörfum
Mögulegt að fjölga hlutastörfum
Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri þróunar atvinnutengingar hjá VIRK, ritar grein í ársrit VIRK 2019 um fyrstu niðurstöður úr könnun á viðhorfum vinnuveitenda á Íslandi gagnvart því að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu í vinnu. Þetta er fyrsta spurningakönnunin sem unnin hefur verið á Íslandi um þetta efni og enn er verið úr niðurstöðum hennar.
Fyrstu niðurstöður könnunarinnar sem Jónína birtir í grein sinni sýna að nær helmingur fyrirtækjanna (45%) sem tóku þátt í rannsókninni töldu mögulegt að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum þeirra og að vinnuveitendur með fyrri reynslu af því að ráða einstaklinga með skerta starfsgetu voru marktækt líklegri til að vilja ráða aftur slíka starfsmenn og þeir voru líklegri til að telja mögulegt að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum.
Þetta var einnig niðurstaðan fyrir fyrirtæki sem komu úr upplýsingagrunni VIRK auk þess sem þau voru marktækt líklegri til að vera með skýra stefnu og/eða verklagsreglur á vinnustaðnum um endurkomu til vinnu eftir veikindi. Þau fyrirtæki voru einnig líklegri til að halda sambandi við fjarverandi starfsmenn og koma til móts við þá þegar þeir snéru aftur til vinnu í formi þess að breyta vinnutímanum og vinnuskyldum, aðlaga vinnuumhverfið og/eða gefa möguleika á tilfærslu í starfi.
Góð tengsl við vinnuveitendur mikilvæg
Jónína segir niðurstöðurnar sýna m.a. fram á mikilvægi þess VIRK og atvinnulífstenglar starfsendurhæfingarsjóðsins séu í góðu sambandi við vinnuveitendur, þar sem þátttakendur frá fyrirtækjum sem voru úr upplýsingagrunni VIRK sýndu jákvæðari viðhorf gagnvart þessum hópi starfsmanna hvað varðar t.d. fjarveru frá vinnu og sveigjanleika í vinnu.
Í þeim hópi vinnuveitenda var það viðhorf einnig ríkjandi að fjölbreytileikinn sem skapaðist við að ráða starfsmenn með skerta starfsgetu væri mikilvægur fyrir vinnustaðinn. Skapa þurfi rými á vinnustaðnum fyrir einstaklinga með mismunandi starfsgetu og í því tilfelli er mikilvægt að auka þekkingu og breyta viðhorfum stjórnenda og starfsmanna á þeim þáttum í vinnuumhverfinu sem stuðla að velferð og auðvelda endurkomu starfsmanna aftur til vinnu.