Fara í efni

„Markmiðið var alltaf að komast í vinnu aftur“

Til baka
Steinþór B. Jóhannsson
Steinþór B. Jóhannsson

„Markmiðið var alltaf að komast í vinnu aftur“

„Mér var vel tekið og ég fékk góðar leiðbeiningar þegar ég hóf störf hjá Prentmeti fyrir einu og hálfu ári síðan,“ segir Steinþór B. Jóhannsson, sem fyrir nokkru síðan fékk fastráðningu hjá Prentmeti eftir að hafa verið á vinnustaðasamningi.

Góð reynsla af vinnustaðasamningi
„Ég datt út af vinnumarkaði þegar ég hætti hjá Norðuráli vegna veikinda. Ég hafði unnið mikið hjá Norðuráli og varð með tímanum það kvíðinn að ég átti bágt með að sinna mínu starfi. Í framhaldi af þessum veikindum leitaði ég til VIRK, en læknirinn minn hafði bent mér á að reyna að fá þar aðstoð. Niðurstaðan varð að ég fór í samstarf við VIRK og ýmislegt gott kom út úr því. Ég fór til dæmis í áhugasviðsgreiningu, meðferð hjá sálfræðingi og sjúkraþjálfun. Einnig naut ég aðstoðar iðjuþjálfa og fleiri fagaðila meðan ég var að ná mér á strik. Fyrsti ráðgjafinn reyndist mér sérstaklega vel.“

Hvaða markmið settir þú þér í upphafi?
„Markmiðið var alltaf að komast í vinnu aftur. Á vegum VIRK fór ég til Sinnum, sem höfðu milligöngu um að finna fyrir mig starf eftir að ég hafði verið í endurhæfingu hjá þeim. Ég hafði aldrei komið nálægt prentiðnaðarstörfum þegar ég komst á vinnustaðasamning hjá Prentmeti. Það tók sinn tíma að komast inn í starfið, en ég fékk góða aðstoð og leiðbeiningar. Mér var frá upphafi vel tekið af samstarfsfólki og yfirmönnum.“

Sóttir þú um fastráðningu?
„Ég sótti ekki beint um hana, hún kom bara í beinu framhaldi af störfum mínum hjá fyrirtækinu. Hólmfríður Edvardsdóttir, deildarstjórinn minn, beitti sér í því máli mér til hagsbóta. Mér líkar mjög vel að starfa hjá Prentmeti og set ekki fyrir mig að sækja vinnu frá Akranesi til Reykjavíkur. Ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að komast þarna í vinnu og hef góða reynslu af fyrirtækinu og starfsfólkinu þar.“

Úr ársriti VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs 2014.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband