Lífið tók nýja og frábæra stefnu
Lífið tók nýja og frábæra stefnu
Valtýr Örn Gunnlaugsson varð að hætta að vinna í janúar 2010 vegna slæmra verkja í líkamanum. Hann var þjáður af
liðagigt með tilheyrandi bólgum og sársauka. Valtýr Örn fékk lítinn skilning á aðstæðum sínum og það var ekki
fyrr en hann fékk viðtal hjá ráðgjafa Starfsendurhæfingarsjóðs sem líf hans snerist til betri vegar.
Valtýr Örn starfaði sem sölumaður í stórri verslun á höfuðborgarsvæðinu. Langvarandi verkir höfðu áhrif
á starfsgetu hans og líðan. „Ég var bæði með mikla verki og bólgur í höndum og fótum. Þetta leiddi til þess að
ég varð að hætta að vinna. Ég gat ekki meira,“ útskýrir hann. Ég hafði engar upplýsingar um rétt minn og
það var því ekki fyrr en ég sótti um sjúkradagpeninga hjá stéttarfélagi mínu,VR, að mér var bent á
Virk. Ég hafði ekki hugmynd um þá starfsemi áður. Ég hafði leitað til gigtarlæknis sem lét mig hafa lyf en fræddi mig ekkert um
sjúkdóminn. Ég þekkti ekki liðagigt né nokkurn sem var haldinn þessum sjúkdómi og vissi því harla lítið um hvað
ég ætti að spyrja. Lyfin voru lengi að byrja að virka í fyrstu. Þau slógu einungis á bólgurnar en verkina losnaði ég ekki
við,“ segir Valtýr Örn.
Fór í nám og fékk vinnu
Hjá VR fékk Valtýr bækling frá VIRK og var bent á að ræða við ráðgjafa sem honum fannst sjálfsagt að
gera. „Það hefur ákaflega neikvæð áhrif á líðan manns að þurfa að hætta að vinna og sjá ekki fram úr
hlutunum. Ég átti erfitt með svefn og var orðinn háður svefntöflum. Veikindin höfðu virkilega slæm andleg áhrif á mig,“ segir
Valtýr. „Sjálfstraustið var í molum og sömuleiðis sjálfsmyndin.“
Guðfinna Alda Ólafsdóttir ráðgjafi tók á móti Valtý. Eins og allir aðrir sem koma til ráðgjafa
Starfsendurhæfingarsjóðs þurfti Valtýr að svara spurningalista sem er upphafið að hans starfsendurhæfingu innan VIRK. Eftir ákveðinn
tíma hjá ráðgjafa var ljóst að skoða þurfti mál Valtýs nánar og því sett af stað ferli sem kallast
sérhæft mat. „Ég hitti lækni, iðjuþjálfa og sjúkraþjálfa sem greindu stöðu mína nánar hvað
varðar raunhæfa starfsendurhæfingarmöguleika. Í framhaldi af því var tekin ákvörðun um næstu skref í starfsendurhæfingunni.
Hún fólst í tímum hjá sjúkraþjálfara og sálfræðingi. Einnig var ég sendur í heilsurækt, á
sjálfshjálparnámskeið, svefnnámskeið og til næringarfræðings sem aðstoðaði mig við að breyta mataræðinu. Í
niðurstöðum sérhæfðs mats kom einnig fram að nám væri raunhæfur kostur fyrir mig og hvatti Guðfinna mig eindregið til að fara í
nám þar sem ég þurfti greinilega að skipta um starfsvettvang. Í framhaldinu var ég sendur í Strong áhugasviðspróf. Ég
hafði nokkra hugmynd um hvað mig langaði til að gera og útkoman úr prófinu staðfesti þann áhuga. Mig hefur lengi langað í
tölvunám svo ég lét verða af því og fór í kerfisstjórnunarnám hjá NTV. Ég lauk því í september
sl. og hef hafið störf á nýjum stað, hjá NTC, fyrirtæki Svövu Johansen.
Lán í óláni
„Námið var erfitt og kostaði mikla vinnu, en ég fann mjög fljótlega að mig langaði sannarlega ekki til að sitja heima og gera
ekkert. Hálfum mánuði eftir að ég lauk náminu bauðst mér þetta starf og ég er ákaflega ánægður í vinnunni.
Líf mitt tók nýja og frábæra stefnu,“ segir Valtýr Örn. „Þegar upp er staðið má kannski segja að veikindin hafi
verið lán í óláni því þau gerðu það að verkum að ég fór að gera það sem mig hafði lengi
langað til. Verkirnir eru enn til staðar en nú kann ég að halda þeim niðri. Það geri ég með hreyfingu og réttu mataræði.
Ég finn mikinn mun á mér til betri vegar ef ég fylgi þessum nýja lífsstíl. Næringarfræðingurinn fann út að ég
þoldi illa að borða svínakjöt, ýsu, humar og sykur. Ég sneiði því hjá þessum matartegundum og passa upp á að borða
hollan mat því mataræðið hefur mikið að segja fyrir þennan sjúkdóm.“
Valtýr er afar þakklátur Guðfinnu Öldu ráðgjafa sem studdi hann í gegnum bataferlið með markvissri uppörvun. „Hún sýndi
mér mikinn áhuga, stuðning og hvatningu sem ég er ákaflega þakklátur fyrir. Ég hvet alla þá sem glíma við erfið
veikindi til að kynna sér þessa þjónustu og þiggja þá hjálp sem býðst. Ég þurfti nauðsynlega að breyta
lífsstílnum og fékk góða aðstoð við það,“ segir Valtýr Örn Gunnlaugsson.